Fnjóskáin bakkafull

Eftir að tók að hlýna með SA-áttinni norðanlands hefur vitanlega hlaupið vöxtur í ár ofan af hálendinu norðanlands. Ekki eru það flóð af völdum rigninga eins og vatnavextirnir suðaustanlands í dag (s.s. í Geirlandsá á Síðu), heldur er vorleysingin nú að komast í gang.  Hún er þetta 3 til 5 vikum á eftir áætlun eftir því við hvað er miðað.

Sjálfur hef ég verið í Vaglaskógi síðustu daga og fylgst grannt með Fnjóská.  Vatnasvið hennar er mjög víðfemt eða um 1.130 ferkílómetrar þegar allt er talið. Hluti þess nær upp í 700-900 metra hæð langleiðina inn á Sprengisand. Fnjóská er dæmigerð vorleysingaá og vex mjög í henni þegar snjó tekur að leysa ofan af hálendinu.  Ísstíflur og þrepahlaup eru lík völd að miklum flóðum, en við látum þau liggja á milli hluta hér. 

Fnjóská_3júlí2011_a.jpgFnjóská_3júlí2011_b.jpgÍ fyrradag var Fnjóská örlitítið skoluð eins og hún er oftast á sumrin, nokkuð vatnsmikil og mátti lesa af mæli á netinu (V-200, Veðurstofa Íslands) að rennslið væri um 100 rúmmetrar á sekúndu.  Það er um  tvöfalt meðalvatn sumarsins. Hafa ber þó í huga að vatnshæðarmælirinn er nokkru neðar í ánni og  eitthvað bætist í hana frá Vaglaskógi langleiðina niður í Dalsmynni. Um kvöldið óx vatnshæðin síðan neðan við tjaldstæðið um á að giska 30 sm.  Daginn eftir (laugardag, 2. júlí) var hún orðin vel lituð og vatnshæðin hélst stöðug.  Í dag var hún síðan mórauð og bar fram aur og drullu.  Liturinn var þó ekki þessi grábrúni jökullitur sem maður þekkir svo vel.  Enn hækkaði um aðra 30-40 sm og nú vantar innan við 1/2 metra til að ná upp á bakkana þar sem neðsta tjaldstæðið er.  Vatnsrennslið var líka komið í um 200 rúmmetra seint í kvöld eða um tvöfalt rennsli Sogsins svo notuð sé viðmiðun sem margir þekkja. Myndirnar tók ég sjálfur síðdegis 3. júlí.

Fnjóskárbrúin 1908 /2.júlí 2011.jpgUppi á Sprengisandi hlýnaði rækilega á laugardag þegar hitinn komst í um 15 stig í sterku sólskini.  Í dag var ekki eins hlýtt og sólarlítið, en á móti vóg snarpur hnjúkaþeyr ofan af Vatnajökli. Síðustu tvo dagana hefur áin því verið bakkafull í orðsins fyllstu merkingu skammt ofan við gömlu brúna frá 1908.  Smíði þeirrar brúar tafðist og varð nokkuð söguleg á sinni tíð, einmitt vegna vorflóða sem skoluðu mótum og tréverki um miðjan júní.  Sú merka saga verður ekki rakin frekar hér. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Héraðsvötn fóru að vaxa á laugardag síðdegis og verulega fór að aukast vatnsmegin þeirra frá og með sunnudagsmorgni og í dag eru þau í sumarskapi, ef svo mætti segja. Greinilegt á litnum að farið er að leysa í jöklinum.

Þorkell Guðbrands (IP-tala skráð) 4.7.2011 kl. 21:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 2
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 50
  • Frá upphafi: 1788783

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 48
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband