21.7.2011
Veðurhorfur helgina 22. til 24. júlí
Föstudagur 22. júlí:
Rólegheitaveður á landinu og hægur vindur. Skýjað að mestu suðvestanlands og austur með suðurströndinni, en annars nokkuð bjart, einkum þó norðan- og austanlands og eins á hálendinu. Hægt hlýnandi, en þó sums staðar hafgola eins og oft vill verða þegar vindur yfir landinu er hægur. Ekki er spáð úrkomu nokkurs staðar á landinu, en stutt verður í þoku undan suðurströndinni. Hiti þetta 13 til 18 stig yfir daginn, einna hlýjast s.s. á Vestfjörðum og inn til landsins norðanlands.
Laugardagur 23. júlí:
Skil frá lægð nálgast eftir því sem líður á daginn. Um leið verður S -áttin ákveðnari og fyrir norðan og austan glaðnar yfir með sól og hlýum þey. Þar gæti hiti hæglega farið upp undir 20 stigin og á stöku stað ívið hlýrra en það. Þau eru mörg brúðkaupin og aðrar veislurnar úti við þessa helgina. Líklegt má telja, eins og staðan er nú, að fyrstu droparnir suðvestanlands taki að falla einhverntímann á milli kl. 18 og 20. Um kvöldið og nóttina er spáð strekkingsvindi víða vestanlands og með vætu. Áttin S eða SA og allt að 10-13 m/s. Vindur af þeim styrk getur tekið vel í tjöld og vagna.
Sunnudagur 24. júlí:
Skil lægðarinnar verða viðloðandi Suður- og Vesturland og þar kemur til með að rigna mest allan daginn og víðast samfellt. Ekki svo hvasst en þó þetta 5-8 m/s. Úrkomumagn upp á 10-25 mm yfir daginn er ekki ósennlegt og mun sú væta kæta mjög allan gróður og eins vatnslitlar veiðiár. Skýjað og einhver smávæta vestantil á Norðurlandi, en austan Tröllaskaga mun gæta úrkomuskjóls, alveg austur á Hérað. Óvíst er með sólina, en nái hún að skína þar um slóðir er loftið í grunninn það hlýtt að hitinn fer hæglega yfir 20 stigin. Verði hins vegar skýjað eru líkurnar á því verulega minni. Rigningin nær austur um og skilin eru á austurleið og rigna mun því einnig á Austfjörðum þegar líður á daginn.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 14
- Sl. viku: 49
- Frá upphafi: 1788782
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 47
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.