7.8.2011
Hitinn bara hækkaði og hækkaði
Athyglisvert var að fylgjast með hitamælingum í Reykjavík í gær. Hitinn reis og reis eftir því sem leið á daginn og hámarkið varð ekki fyrr en laust fyrir kl. 21 í gærkvöldi eða í 19,8°C.
Hámarkshiti dagsins er oftast síðdegis á bilinu frá kl. 15 til 17. Eftir það tekur að kólna. Mér finnst eins og tíðni þessara kvöldhámarka í Reykjavík fari vaxandi síðustu árin og það gerist þá einkum eftir mitt sumar, þ.e. í ágúst og jafnvel fram í september. Fróðlegt væri að gera athugun á þessu.
Í gær háttaði þannig til að NA-vindur var ráðandi og hann bar með sér loft sem fór hægt og bítandi hlýnandi eftir því sem leið á daginn. Um miðjan daginn var að mestu skýjað, en síðdegis létti til og þrátt fyrir lækkandi sólarhæð gerði hún sitt gagn fyrir lofthitann að sjálfsögðu ásamt þessum gæða loftmassa sem var yfir landinu.
Línuritið sýnir feril hita á sjálfvirku stöðinni við Veðurstofuna. Bláa línan er daggarmark loftsins.
Flokkur: Veðuratburðir hér og nú | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring: 13
- Sl. viku: 48
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 46
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Mér finnst þetta líka fara vaxandi. En reyndar sýndi kvikasilfursmælirinn, sem sleginn var niður kl. 18 í gær, þegar venjulegi mælirinn sýndi 16,4, bara 16,5 stig kl. 9 í morgun, mældi sem sagt ekki hærra hámark í gærkvöldi en var að deginum, 17,0 stig við athugun kl. 18. Í gærkvöldi sýndi sjálfvirki mælirinn hins vegar þessi 19,8 en búveðurstöðin, sem mér skilst að sé í sama túni var með 17,3 sem hámark. Hverju á maður að trúa eða telja hámarkshita? Flugvöllurinn var svo með 18,2.
Sigurður Þór Guðjónsson, 7.8.2011 kl. 13:57
Getur verið að þetta tengist minni útgeislun út í geim vegna aukinna gróðurhúsaáhrifa?
Höskuldur Búi Jónsson, 7.8.2011 kl. 20:56
Athyglisvert að velta fyrir sér hvort minni útgeislun eða öllu heldur meiri geislun frá lofthjúpi (gróðurhúsaáhrif) kunni að spila inn í endurtekin síðbúin hámörk að deginum þá yfir sumartímann. Sé eitthvað til í þeirri tilgátu ætti lágmarkshiti næturinnar einnig að fylgja. Þó meðalhitinn segi mesta sögu þegar hitabreytingar eru annars vegar er engu að síður mikilsvert að kanna hámarkið og lágmarkið þennan árstíma þegar sólin er afgerandi fyrir hitann. Þá verðum við að hafa í huga að raki í lofti hefur verulega þýðingu. Í langvinnri þurrkatíð þegar svörðurinn þornar eykst dægursveiflan og m.a. kólnar meira á nóttunni vegna þess að rakann vantar og þar með minni gróðurhúsaáhrif af völdum vatnsgufunnar. Einmitt þetta sáumm við gerast í nokkrum mæli sunnanlands sumurin 2007-2010.
Flóra hitamælanna í reit Veðurstofunnar sem Sigurður Þór gerir að umtalsefni er ekki til neins nema bölvunar á degi sem þessum þegar sjálvirku mælarnir verða mun næmari fyrir mjög skammvinnum frávikum heldur en kvikasilfursmælirinn sem sagan byggir á.
ESv
Einar Sveinbjörnsson, 7.8.2011 kl. 22:56
Svo við þetta má bæta að það getur skipt mikið máli hvenær Veðurathugunarmaðurinn les af mælunum. Sjálfvirki mælirinn er alltaf að mæla á sömu mínútu, á meðan Veðurathugnarmaðurinn fer frjálslegra með það.
Svo eitt fyrir utan þetta. Ég var að hlusta á þáttinn Línan er laus á Útvarpi Sögu í morgun í umsjón Péturs Gunnlaugssonar. Ég held þáttastjórnandinn þurfi að fara í starfskynningu hjá Veðurstofu Íslands. Því hann skildi ekkert í því hvers vegna að það þurfi "110" starfsmenn í þessari stofnun.
Pálmi Freyr Óskarsson, 8.8.2011 kl. 12:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.