17.8.2011
Sumarleysing á jöklum
Í gær var sagt frá því í fréttum ríkisútvarpsins að vatnsstaðan í Hálslóni væri lægri en í fyrra og nokkuð vantar upp á fyllingu lónsins. Þó reikna menn heldur með þvi hjá Landsvirkjun að lónið nái að fyllast fyrir mánaðarmót.
Fróðlegt er í þessu sambandi að bera saman rennsli jökluáa í ár og í fyrra. Jökulsá á Fjöllum verður hér fyrir valinu. Rennsli hennar er eins og bráðnun er hverju sinni. Engar vatnsmiðlanir þar. Jökulsá á Fjöllum kemur að mestu úr Dyngjujökli en að hluta einnig úr Brúarjökli (Kreppa og Kverká). Hálslón fær sitt vatn með bráðnun á næsta vatnasviði þar fyrir austan og alfarið ofan af Brúarjökli.
Rennslismælingar eru auðsóttar af síðu Veðurstofunnar hér og aðgengilegar nokkur ár aftur í tímann. Rennsli Jökulsár á Fjöllum er mælt við Grímsstaði á Fjöllum. Leysing fer yfirleitt hægt af stað, en eykst síðan hröðum skrefum þegar líður á sumarið. Hægt er að skilgreina fullt sumarrennsli þegar vatnsmagnið er komið í um 500 rúmmetra á sekúndu og þá er horft fram hjá dægursveiflunni í rennslinu. Við Grímsstaði er hámarkið yfirleitt nærri hádegi. Bræðsluvatnið frá deginum áður er einfaldlega um 18 tíma að streyma alla þessa leið niður að Grímsstöðum.
Í sumar náði rennslið þessum 500 rúmmetrum nærri 29. júlí og er það í seinna lagi. Hélst þetta væna sumarrennsli alveg til 14. ágúst, en síðustu daga hefur dregið nokkuð úr því eftir að það kólnaði með N-átt og það sem meira máli skiptir að það dró fyrir sólu uppi á jöklinum. Veður- geislunarmælingar Jarðfræðistofnunar HÍ á Brúarjökli sýna greinlega að 13. ágúst var síðasti sólardagurinn í bili.
Í fyrra (2010) komst Jökulsá á Fjöllum í sumarham strax 7. júlí og hélst hann allt til 24. ágúst að jafnaðarrennsli dagsins fór niður fyrir 500 rúmmetran á sek við Grímsstaði. Reyndar náði það sér aftur upp um tíma, en höldum okkur við þessa dagsetningu.
Í ár var var hæsti toppur sumarsins í rennslinu ekki nema 593 rúmmetrar á sek (13. ágúst) á meðan hámarkið náði 856 rúmmetrum á sek í fyrra. Það var frekar seint eða um 17. ágúst. Samanburðarkortin hér að neðan sýna þetta vel, það efra er frá 2010 og neðra í ár. Bæði frá 1. júlí til 31. ágúst, en athugið að rennsliskvarðinn er ekki sá sami. Vel að merkja þótti leysing í fyrra sérlega mikil og rennsli Jökulsár eftir því eins og fram kemur í samantekt Snorra Zóphóníussonar á Veðurstofunni
Við sjáum af þessum upplýisngum að sumarið uppi á Vatnajökli kom seint í ár og að öllum líkindum lauk því líka fyrr en oft áður. Rennslið getur svo sem náð sér aftur á strik með góðum kafla það sem eftir lifir sumars. Þá þarf helst að bregða til S- eða SV-áttar með nokkrum hlýindum og sólfari.
En leysing jökulíss og þar með rennsli jökuláa getur verið flókið samspil nokkurra þátta þar sem hitafar og geislun sólar skipta miklu, en líka úrkoma (rigning), öskulög og áhrif þeirra á geislunarbúskapinn. Köld vor eða öllu heldur júní virðist seinka sumarbráðnunni mikið, sérstaklega ef nær að snjóa á jökla í hretum framan af sumri. Mjallahvítt nýsnævi um þær mundir sem sól er hæst á lofti endurkastar sólarljósinu í stórum stíl í stað þess að orkan nýtist í bráðnun jökulíssins.
Flokkur: Veðurfar á Íslandi | Breytt s.d. kl. 09:35 | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 10
- Sl. sólarhring: 10
- Sl. viku: 60
- Frá upphafi: 1788778
Annað
- Innlit í dag: 10
- Innlit sl. viku: 56
- Gestir í dag: 10
- IP-tölur í dag: 8
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Þetta var athyglisvert. Í fljótubragði er munstrið svipað á jöklunum á utanverðum Tröllaskaga sem eru nokkuð "vel á sig komnir" þ.e. talsvert mikill snjór frá síðasta vetri er enn yfir stórum hluta þeirra nú síðsumars. Aska og mælingar vetrarákomu á Tröllaskaga síðasta vor gáfu hinsvegar ekki til kynna að sérstaklega hagfellds jöklaárs væri að vænta en eftir þetta sumar og ef september verður ekki "hlýr sumarmánuður" þá gætu jöklarnir endað í "plús" þetta árið !
Skafti Brynjólfsson (IP-tala skráð) 22.8.2011 kl. 06:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.