12.9.2011
Fokmistrið suðvestanlands frá Hagavatni
Um helgina benti ég á það að hvimleitt sandmistrið í lofti væri ekki allt upprunið frá öskusvæðum Suðurlands. Vissulega hefur eldfjallaösku þar lagt yfir byggðir og ból, bæði frá Markarfljótsaurum og Eyjafjallajökli og ekki síður ofan af Vatnajökli í grennd við Grímsvötn, eins og Hálfdán Ágústsson benti réttilega á sl. laugardag í veðurfregnum Sjónvarps.
Meðfylgjandi tunglmynd er sk. MERIS gervitunglamynd (frá ESA, Evrópsku geimstofnuninni) af landinu í dag 12. september (kl. 11:54). Þetti er þriðji dagurinn sem þessi ófögnuður sem sandurinn, leirinn og askan fyllir loftið sunnan- og suðvestanlands. Þessi mynd er nokkuð mögnuð. Hún sýnir gjósku- og jarðvegsfokið yfir landinu sunnan- og vestanverðu mæta vel. M.a. afmarkaðan straum frá
Grímsvötnum og eins frá uppblásturssvæðum sunnan Langjökuls og leggur þann taum yfir Reykjanesfjallgarðinn og Höfuðborgarsvæðið.
Mbl.is hefur verið að fjalla um mistrið í dag og birti tengil á þessa sömu mynd. Eins tekið fram að fokið hér og það svifryk sem mælist hátt er alfarið af náttúrlegum orsökum, engin mengun, ekki bílar eða neitt slíkt eiga þarna sök.
Fyrir tæpum tveimur árum eða um 20. nóvember 2009 gerðan áþekkan atburð hér suðvestanlands í þurru veðri sem fjallað var sérstaklega um. Þá var vísað í frétt af vef Orkuveitunnar frá 2007. Hún fer hér að neiðan í heild sinni og útskýrir þann vanda sem við er að glíma nokkuð afmörkuðum upptakasvæðunum suðvestan Hagavatns.
Við gjóskunni er lítið hægt að gera annað en að biðja um snjó sem kaffærir skaflana upp á Vatnajökli og mikilli rigningu og skolun í byggð, en af henni höfum við haft heldur lítið undanfarna mánuði.
Hagavatnsbotninn má e.t.v. græða upp, en í það minnsta er æskilegt að fá umræðu og tillögur um aðgerðir til að koma í veg fyrir sí endurtekið fok úr þessum gamla vatnsbotni. Það er ljóst að vandinn er ekki nýr af nálinni og hann hverfur heldur ekki í nánustu framtíð. Annað sambærilegt svæði og tiltölulega lítið um sig er Sandkluftavatn (eð þurr botn þess) við Uxahryggjaleið en úr honum fýkur úr eftir þurrkatíð.
"
Samstarf um endurheimt Hagavatns
12.11.2007Landsgræðsla ríkisins, Bláskógabyggð, landeigendur Úthlíðartorfunnar og Orkuveita Reykjavíkur hafa ákveðið að hafa með sér samstarf um könnun á möguleikanum á því að endurheimta eldri stærð Hagavatns. Öðrum hagsmunaaðilum verður jafnframt boðið að taka þátt í samstarfinu.
Markmið endurheimtar Hagavatns er að hefta sandfok á upptakasvæði þess sunnan Langjökuls og verða möguleikar á raforkuframleiðslu þar kannaðir samhliða.
Umfangsmesta rannsóknin á þessum möguleika fór fram fyrir áratug þegar Landsgræðslan stóð fyrir mati á umhverfisáhrifum stækkunar vatnsins með stíflugerð. Ekki varð af framkvæmdum þá.
Hagavatn minnkaði um a.m.k. tvo þriðju í jökulhlaupum á síðustu öld og við það opnuðust stór svæði sem úr fýkur jökulleir og sandur.
Sveitarstjórn Bláskógabyggðar og áður Biskupstungnahrepps hefur ályktað um mikilvægi þess að færa yfirborð Hagavatns til fyrra horfs til að hefta sandfok og tryggja árangur annars uppgræðslustarfs sem hún hefur tekið þátt í um árabil m.a. í samstarfi við Landgræðslu ríkisins. Í því augnamiði átti sveitarstjórn þátt í því að ráðist var í mat á umhverfisáhrifum endurheimtar Hagavatns árið 1997.
Í þurrkum síðastliðins sumars var uppblástur sérstaklega mikill og þéttur uppblástursmökkur lá yfir byggðinni í Bláskógabyggð svo dögum skipti.
Flokkur: Fallegar myndir | Breytt s.d. kl. 23:59 | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 10
- Sl. sólarhring: 12
- Sl. viku: 60
- Frá upphafi: 1788778
Annað
- Innlit í dag: 10
- Innlit sl. viku: 56
- Gestir í dag: 10
- IP-tölur í dag: 8
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.