Bellona eru gamalgróin umhverfissamtök í Noregi. Á síðustu árum hafa þau beitt sér af krafti í loftslagsumræðunni og gagnrýnt af hörku skort stjórnvalda á raunhæfri framtíðarsýn og róttækum leiðum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Fredrik Hauge leiðtogi Bellona er skrautlegur náungi og um leið gangandi hugmyndabanki. Og það má Bellona eiga að þar á bæ er ekki bara skammast út í allt og alla, heldur er bent á lausnir.
Samtökin taka líka virkan þátt í verkefnum sem ýmist eru ætluð að stuðla að orkuskiptum eða bindingu koltvísýrings á nýstárlegan hátt. Sjá má á heimasíður samtakana að þau koma að mörgum verkefnum hér og þar um heiminn við bindingu á CO2 með ýmsum leiðum sem flokkast undir CCS (Carbon Capture and Storage). CarbFix tilraun Orkuveitunnar á Hellisheiði er dæmi um verkefni að þeim toga.
Nú er Frederick Hauge kominn í samstarf við stjórnvöld í Qatar um afar róttæka hugmynd í þessa veru og gengur undir heitinu "Sahara Forest Project". Á dögunum var undirritað í Osló samkomulag Bellona við forsætisráðherra Qatar, sjeik Hammad Bin Jassim Jabr Al-Thani (síðasti hluti nafns sjeiksins hljómar kunnuglega úr allt annarri umræðu hér heima !). Bæði Jens Stoltenberg og Jonas Gahr Störe utanríkisráðherra Noregs voru viðstaddir þennan gjörning. En út á hvað gengur verkefnið ? Hér skal reynt að lýsa því nánar.
Grunnhugmyndin er sú að koma upp risastóru gróðurhúsi í eyðimörkinni. Þangað er leiddur sjór. Sólarorkuver við gróðurhúsið framleiðir orku sem notuð er til að eima sjóinn. Í gróðurhúsunum eru ræktaðar matvælaplöntur og uppskeran er nýtt í heimalandinu. Við loftræstingu eða öllu heldur kælingu gróðurhúsanna berst raki út í nánasta umhverfið og gróður af einhverju tagi tekur að spretta nærri gróðurhúsunum. Þessu átti ég erfitt með að trúa, en myndir frá tilraun í Oman fyrir og eftir sýnir að gróður vex úti við (hluti vatnsins hlýtur að fara í vökvun þarna í eyðimörkinni !). Saltvökvinn sem eftir verður er síðan leiddur til baka út í sjóinn. Annað afbrigði hugmyndarinnar gengur út á að nota saltpækilinn ásamt sólarorkunni til þörungaframleiðslu. Þörungarnir taka upp mikið magn koltvísýrings úr lofti og framleiða lífræna olíu sem nýta má sem eldsneyti.
Sólarorkan er hagnýtt á tvenns konar hátt. Annars vegar með venjulegum kísilplötum og hins vegar með svokölluðum sólturnum þar sem kúptir speglar beina ljósi á einn stað. Vatn sýður þá og rafmagn er framleitt með gufukatli (líkt og í jarðgufuveri). Um 2.500 kWh sólarorku fellur til á þessum slóðum á hvern fermetra lands á ári hverju. Ætla má að nýtni í svona sólarorkuveri sé 5-15%. Og þá geta menn reiknað hvað þarf stóra og víðáttumikla spegla til að safna sólarljósinu. Vitanlega verður að hafa í huga að orkuframleiðslan er engin á nóttunni.
Bellona og samstarfsaðilar hugsa sér þessa framleiðslu í stórum stíl, en vitanlega er hún háð aðgengi að sjó. Myndirnar sem hér fylgja eru fengnar úr kynningarbæklingum. Ekki er nokkur vegur fyrir mann hér og nú að geta sér til um það hvort að þessi plön séu skýjaborgir eða þá raunhæfar og þá líka arðsamar þegar upp er staðið. Undirbúningur og þróun tækninnar hefur hins vegar staðið nokkuð lengi. Fyrsta stóra gróðurhúsið rís nú Qatar og það er um 10.000 fermetrar.
Neðsta myndin er skyssa af 50 hektara gróðurhúsi og því tengt eitt 50 MW sólarorkuver. Um 30 þús tonn fengjust af grænmeti á ári og um 150 þús MWh af raforku til nærliggjandi staða. 800 manns störfuðu við "verið" og bindingg kolefnsis næmi 1.500 tonnum (miðað við CO2). Í þessu dæmi er ekki gert ráð fyrir áburðarefnum sem þarft til ræktunarinnar og þá ekki heldur meðferð úrgangsefna sem til falla. Binding koltvísýrings er ekki mikil, en mundi margfaldast þar sem þörungaframleiðsla færi fram undir glerinu en ekki ræktun grænmetis.
Framtíðin sker úr um það hvort eyðimerkurgróðurhúsin bindi koltvísýring í það miklum mæli að aðgerðin skipti máli í stóra loftslagssamhenginu. En það verður ekki af Fredrik Hauge tekið að koma með lausnir, afla þeim fylgis og vinna síðan að þeim úti í hinum stóra heimi.
Hitt er síðan allt annað mál að sjálfsagt er að reyna að hagnýta þá gríðarlegu sólarorku sem er til reiðu og ónýtt svo að segja í mest allri N-Afríku og stórum hluta Litlu-Asíu.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt 1.3.2012 kl. 07:58 | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring: 13
- Sl. viku: 48
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 46
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Nei sko. Byrjaður að fjalla um orku frá ýmsum sjónarhornum. Góður.
Krímer (IP-tala skráð) 1.3.2012 kl. 18:02
Þetta er fróðlegt, takk fyrir Einar. Annars virðist nú eitthvað vera að gerast varðandi þróun og nýtingu sólarorku og vonandi sjáum við betri nýtingu á henni í framtíðinni. Við á loftslag.is höfum m.a. fjallað um aðferð sem verið er að reyna að þróa hjá MIT sem gæti aukið skilvirkni panilanna allt að 20-falt með því að breyta lögun þeirra, sjá 3D Sólarorka.
Sveinn Atli Gunnarsson, 1.3.2012 kl. 20:24
Skemmtilegar pælingar hjá þessu fólki. Minnir mig á að ég las einhverntíma, að mig minnir í tímariti bandarísku, sem hét Popular Science (gæti verið misminni) á sjötta áratugnum þegar menn héldu að allt væri framkvæmanlegt, skýjaborgir einhverra bandaríkjamanna um að nota kjarnorku til að dæla sjó inn á Sahara. Svo átti að láta hann gufa þar upp og valda veðurfarsbreytingum á þessu svæði með aukinni úrkomu og saltið átti svo jöfnum höndum að selja til almennrar notkunar sem og að framleiða úr því efnavörur, svo sem áburð. Held að menn hafi hugsað þessa hluti heldur skammt á þessum árum og ekki hugað nóg að afleiðingum. Sem betur fer líklega urðu þetta aldrei annað en skýjaborgir.
Þorkell Guðbrands (IP-tala skráð) 2.3.2012 kl. 16:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.