5.3.2012
Framrás kulda úr vestri
Kalda loftið fyrir vestan Gænland er orðið svo fyrirferðarmikið að það er farið að flæða í allar áttir og ekki síst til austurs. En þar er Grænlandsjökull fyrirstaða. Nú þarf að fylgjast vel með því næstu daga hvort það nái yfir og þá áfram til okkar. Þess háttar kalt vestanloft veldur ævinlega einhverju óróa hér á landi. Getur komið fram í snjókomu- eða éljabökkum með ákafri ofankomu. Stundum dýpka smálægðir í slíku lofti og gerir þá nokkuð staðbundinn SV- eða V-hvell, sem erfitt getur reynst að sjá fyrir. Í raun þarf ekki loft ofan af Grænlandi til fyrir slík veður. Það nægir að það sé komið fyrir Hvarf, en þá líka einstaklega kalt sem veldur ólgunni við varmaskiptinn við opið haf þar sem yfirborðshiti í 2 til 5°C. Þriðji möguleikinn er sá og á þá eingöngu þegar loft berst með látum ofan af Grænlandi. Stormur er þá gjarnan á hafinu hér á milli og hið mjög þurra heimskautaloft tekur í sig seltu þegar stormurinn ýfir upp sjóinn og þyrlar upp löðri. Slíkt gerðist einmitt síðast þegar þessi staða var uppi 10. janúar með rafmagnstruflunum vestanlands.
Hér fylgja tvö kort, spákort og gilda fyrir komandi miðvikudag 7. mars kl. 12. Bæði eru þau úr keyrslu bandarísku Veðurstofunnar í Washington, GFS. Það til hægri sýnir loftþrýsting við sjávarmál og hins vegar hæð 500 hPa þrýstiflatarins (um 5 km hæð). Þar sem hann er lágur er kalt (fjólublátt), en hár flötur er vísbendingu um hlýtt loft (gult). Vel sést hvað kalda loftið er fyrirferðarmikið við vestanvert Grænland og að miklum hluta í þessari hæð komi austur yfir á okkar slóðir. Þrýstilínur eru þéttar og renna í raun saman á þessu korti yfir Grænlandi. Þrýstistigullinn gefur þar til kynna N- og NV-átt. Þessar svakalegu þéttu þrýstilínur skýrast á hinu kortinu til vinstri sem sýnir hæð 850 hPa flatarins (um 1.200 metra hæð) og hins vegar hita í sömu hæð. Sjá má hvernig ískalt loftið leggst að Grænlandsjöklinum í þessari hæð. En hann er hærri en þetta og varnar því að loftið komist áfram til austurs. Hitamunur í lægri lögu veltur þrýstimuni.
Spurningin á þessari stundu snýst sem sagt um það nú hvort vestanloftið í lægri lögum nái í einhverjum mæli að sullast yfir jökulinn líkt og gerðist í janúar ? Það er í raun lægðin við austur Grænalnd sem öðru fremur stýrir atburðarrásinni, þ.e. dýpt hennar og staðsetning. Danska Veðurstofan fylgist líka grannt með stöðu mála því ef slíkt gerist er gefin út viðvörun um Piteraq eða fallvind á austurströnd Grænlands.
Meginflokkur: Vísindi og fræði | Aukaflokkur: Veðurfar á Íslandi | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 9
- Sl. sólarhring: 11
- Sl. viku: 59
- Frá upphafi: 1788777
Annað
- Innlit í dag: 9
- Innlit sl. viku: 55
- Gestir í dag: 9
- IP-tölur í dag: 7
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.