28.5.2012
Rétt að fara varlega í sólinni
Síðdegis í dag annan í hvítasunnu sá ég í sundlauginni á Hellu að ansi margir voru orðnir með bleikar bringur og hálsa eftir sólina í dag og í gær.
Rétt er að fara varlega um þessar mundir því loftið er bæði tært og nánast heiðríkja víðast á landinu.
Í þessu sambandi er skilgreindur svokallaður UV-stuðull. Hann er mælikvarði á magn útfjólublárra geisla frá sólinni, en það eru þeir sem fær húð til að roðna. Bárður Sigurgeirsson húðlæknir rekur veðurathugunarstöð í Skorradal. Hún er úbúinn fjölþátta geislunarnema sem mælir m.a. styrk á útfjólubláu ljósi, en þeir geislar eru talsvert orkuríkari en hið sýnilega ljós sólarinnar. Óson í heiðhvolfinu verndar okkur fyrir orkuríkustu geislunum og þegar "ósonlagið" er þunnt nær því meira af þessari geislun til jarðar. Sjá mátti á veðurkortum í dag að ósonið er á eðlilegu róli fyrir ársímann á okkar slóðum og ekki þarf að hafa sérstakar áhyggjur af því. Oftast er það hins vegar nokkru minna síðla vetrar og snemma árs.
Eins og gefur að skilja fer UV-stuðullin vaxandi með hækkandi sól og því alla jafna talsvert hærri á suðlægari slóðum en hann er hér. Stendur í réttu hlutfalli við inngeislun sólar á hverja flatareiningu yfirborðs.
Í dag var mældist UV-stuðullinn 5,4 þegar hann var hæstur skömmu fyrir sólarhádegi í Skorradalnum. Inngeislun sólar (brúttó) í Reykjavík var um svipað leyti 730-740 wött á fermetra.
Hvoru tveggja eru þetta háar tölur, en alls ekkert einsdæmi. Eigum við ekki að segja að geislun sólar sé nálægt því að vera eins mikil og hún getur orðið síðla vors nokkru fyrir sumarsólstöður. UV stuðullin náði þannig rúmlega 7 þann 18. júní 2010.
Á næstunni er allt útlit fyrir sterkt sólskin flesta daga og frá morgni til kvölds. Spáin gerir ráð fyrir því að lítið verði um ský hér við land frá á laugardag eða sunnudag. Ef það gengur eftir erum við nú í upphafi 8 til 9 daga samfellds bjartviðriskafla (2 dagar búnir). Það sem meira er að þetta á við um mest allt landið, ef norðausturhlutinn er undanskilinn þegar líða tekur á vikuna.
Húðlæknarnir Bárður Sigurgeirsson og Jón Hjaltalín Ólafsson ráðleggja fólki með venjulega húð að vera ekki lengur í sólinni án sólvarnar en að hámarki í 60 mínútur þegar UV-stuðullinn nær gildinu 5 og fólki með viðkvæma húð ekki lengur en í 25 mínútur.
Heimasíða Bárðar með mælingum og ágætum fróðleik um þessi mál er hér. Þar er reyndar talað um ÚF-stuðul
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring: 13
- Sl. viku: 48
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 46
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.