31.5.2012
Heiðríkja á landinu dag eftir dag
Ekki hægt að segja annað en að það sé óvenjulegt að þessi heiðríkja sé viðvarandi svona dag eftir dag á landinu. Á forsíðu Morgundblaðsins var í morgun falleg MODIS-mynd af landinu í gær þar sem var nánast ekki skýjahnoðra að sjá. Í nótt og í morgun kom reyndar úr norðvestri dálítið lægðardrag með svalara lofti og þá þykknaði um stund í lofti norðaustan- og austanlands. Gott ef ekki náði líka að dropa aðeins hér og þar (snjókorn til fjalla). En fyrra ástandi verður fljótt náð aftur.
En hvað veldur ?
Ástæðan fyrir þessu almenna skýjaleysi liggur í þeirri staðreynd að víðáttumikið háþrýstisvæði er hægfara yfir landinu og hér vesturundan, allt til Grænlands. Hæðin er þeirrar ættar að vera svokölluð fyrirstöðuhæð, þ.e. orsök hennar er stífla í vestanvindabelti háloftanna. Nú er hár þrýstingur ekki svo óalgengur á þessum árstíma, en þá er oftast um kaldar Grænlandshæðir að ræða þar sem heimskautaloft er ríkjandi. Hins vegar háttar svo til að rót þessa háþrýstisvæðis er í suðri og hlýtt loft í miðlægum og efri lögum hefur borist hingað norður á bóginn. Þetta sést ágætlega á spákorti Bandarísku veðurstofunnar (GFS) sem gildir á laugardag kl. 12. Þarna er yfirborðsþrýstingur sýndur saman með hæðinni á 500 hPa fletinum. Sú hæð er góð vísbending um hita og fyrirferð loftsins í neðri lögum. Gult og rautt er mikil fyrirferð (hlýtt loft) og grænt lítil (kalt) .
Allt í kringum hæðina miklu eru lægðir eða lægðardrög á sveimi þar sem uppstreymi og skýjamyndun með tilheyrandi úrkoma er ríkjandi ástand. En í hæðinni sjálfri ríkir hins vegar niðurstreymi lofts og séu einhver ský til staðar leysast þau upp. Þetta niðurstreymi er mest áberandi í efri hluta veðrahvolfs eða ofan við um það bil 5 km hæð og upp í um 10 km hæð. Þarna er loftið sérlega þurrt og tært þessa dagana. Í neðri lögum ríkir hins vegar stöðugleiki, einkum yfir hafinu og einu skýin sem myndast eru þokubelti þegar loft kemst í snertingu við kaldan sjóinn. Þegar sólin skín hins vegar á Ísland og vermir yfirborðið á sér stað uppstreymi. Rakinn er hins vegar alls ekki nægur til að mynda ský, auk þess sem uppstreymið yfir landi má sín lítils þegar ríkjandi er kerfislægt niðurstreymi hið efra.
Við strendurnar nær þoka sums staðar inn, en algengara er þó að þokuskýin lyftist aðeins yfir landi og mynda þannig þunnt lágskýjalag yfir lágnættið. Það leysist síðan fljótt upp þegar sólin tekur að skína að nýju.
Þetta ástand með hæðina og heiðríkjuna kemur til með að verða viðvarandi skv. spám fram á sunnudag. Eftir það má vænta breytinga, þá gefur hæðin sig eða þá að hún hörfar heldur til vesturs og við tekur N- og NA-átt með kólnandi veðri. Meira þá af skýjum, einkum um austanvert landið og þar úrkoma.
Flokkur: Veðuratburðir hér og nú | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (6.4.): 2
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 47
- Frá upphafi: 1790160
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 43
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.