3.6.2012
Sólin yljar, en hafið kælir
Í gær laugardag háttaði svo til enn einn daginn að ekki var að sjá ský á himni yfir landinu. MODIS-mynd frá því kl. 12:55 sýnir vel hvernig landið birtist allt í risastórum egglaga heiðríkjubletti.
Suðvestanlands var örlítill landvindur í lofti (A-átt) framan af degi og náði hann að halda aftur af hafgolunni. Við það steig hitinn eftir því sem leið á daginn. Varð svo sem ekkert tiltakanlega hlýtt, nema inn til landsins, rúmlega 20°C þar. Hins vega var eftir því tekið hvað hélst hlútt fram eftir kvöldinu. Ég er viss um að margir hafi setið úti við fram eftir. Á sjóaranum síkáta í Grindavík var þannig tæplega 17°C kl. 21 í gærkvöldi. Í mörg ár, jafnvel áratugi eiga menn þar í bæ eftir að minnast veðurblíðunnar á hátíðinni 2012 með tilheyrandi lýsingum !
En aftur að tunglmyndinni. Takið eftir ílöngum skýjabakka úti af Garðskaga. Þetta var þokubakki. Gestir Hátíðar Hafsins í Reykjavík tóku eftir því upp úr kl. 15 þegar öskugrátt "ský" kom inn Kollafjörðinn og annað samtímis inn Skerjafjörðinn og með napur vindur. Bakkinn leystist fljótt upp um leið og hann náði til lands þar sem jörðin var sólbökuð og hlý. Ekkert varð úr neinu og raun var þetta aðeins stundarfyrirbæri.
Fylgjast mátti með þessum eingangraða þokubakka á myndum frá því fyrr um daginn. Upphaflega myndaðist hann úti fyrir Arnarstapa. Barst hann þvert yfir Faxaflóann og stækkaði. Að endingu barst hann yfir land við Garðskaga og á Innesjum ein og áður sagði þar sem hann leystist upp og hvarf. Í stutta stund líkist þetta helst sandmistri, en kuldinn og rakinn fór ekki fram fjá manni. Myndin er frá Reykjavíkurhöfn í þann mund sem móskan barst yfir (Ljósm: Sigðurður Bogi Sævarsson).
Þokuslæðingur var líka við Vestfirði og djúpt úti af Húnaflóa, en við Austurland er þetta lágskýjabakki fremur en þoka.
Flokkur: Veðuratburðir hér og nú | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 10
- Sl. sólarhring: 12
- Sl. viku: 60
- Frá upphafi: 1788778
Annað
- Innlit í dag: 10
- Innlit sl. viku: 56
- Gestir í dag: 10
- IP-tölur í dag: 8
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ég var staddur uppi á Akrafjalli og fylgdist með þokubakkanum skríða inn Faxaflóann. Það var skemmtilegt að sjá Reykjavík hverfa í þokuna í stutta stund, því næst Akranes og loks virtist bakkinn þokast norður svo Snæfellsjökull og Helgrindur virtust rísa upp úr honum.
Finnbogi (IP-tala skráð) 3.6.2012 kl. 12:08
Var að setja inn mynd á pistil á bloggsíðu minni, þar sem mjög smækkaða útgáfu af Íslandi mátti sjá í formi eyju á botni gígsins í Grímsvötnum.
Þar skrúfaðist gufan í kringum eyjuna andsælis í hringstraumi lofts, sem hitauppstreymið vegna sólarljóssins og snúningur jarðar viðhéldu í stillunni.
Ómar Ragnarsson, 5.6.2012 kl. 22:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.