Veðurfarsbreytingar og æðarfugl

aerfugl-bredde_none_large.jpgÁ Svalbarða heldur til nyrsti stofn æðarfugls.  Stofnstærð er áætluð um 13.000 - 27.500 varppör en til samanburðar um 250.000 pör hér á landi (18 ára gamlar tölur).  Segja má að æðurinn við Svalbarða sé á norðurmörkum síns búsvæðis, en undirtegundin þar er sú sama og hér  við land.  Færeyski æðarfuglinn er hins vegar af annarri undirtegund svo dæmi sé tekið. Hér á landi er æðarfuglinn staðfugl, en á Svalbarða er áætlað að stærstur hluti stofnsins haldi til vetrarstöðva, að tveimur þriðju hluta til Íslands og afgangurinn til Norður-Noregs.  

Með hlýnandi veðurfari, hækkandi sjávarhita og hörfun íssins flytjast til hentug búsvæði fugla.  Það eru gömul sannindi og ný.  Hækkun lofthita hefur síðustu 15-20 árin óvíða verið meiri en einmitt á Svalbarða. Að verulegu leyti má tengja þá miklu breytingar við hörfun ísjaðarins til norðurs og því einkum hærri vetrar- og vorhita eða öllu heldur minna frost á þeim árstímum.  Á Svalbarða er  því kjörlendi fyrir þá vísindmenn sem vilja vakta áhrif loftslagsbreytinga á vistkerfi.

Sumarið er þrátt fyrir allt stutt á þessum slóðum og tíminn til að koma upp ungum því knappur. En með hörfun íssins batna þó afkomumöguleikar æðursins og samkvæmt öllu ætti því stofnstærðin að fara stækkandi.  Þau viðbrögð hafa samkvæmt frásögn á forskning.no látið á sér standa, enn sem komið er a.m.k.  Æðarfuglinn hefur verið alfriðaður á Svalbarða frá 1963, en áratugina þar á undan var þessum viðkvæma stofni ógnað af  veiðum og öðrum nytjum.

Ein þeirra skýringa sem nefnd er fyrir því að fuglinum hefur ekki fjölgað er aukið afrán hvítabjarna ! Æðarfuglinn verður fremur gamall og rannsóknir hér á landi benda til þess að afkoma fullorðna fuglsins sé ekki síður mikilvæg fyrir stofnstærðina en viðkoman, þ.e. hvað kollan kemur upp mörgum ungum í hvert skipti.  

En vera má að viðbragðstíminn sé einfaldlega lengri, að stofninn eigi einfaldlega eftir að taka út hægan vöxt með bættum fæðu- og lífsskilyrðum sem fylgja hærri sjávarhita og minni ís. Hér á landi eru stofnstærðartölur æðarfugls komnar til ára sinna, en við eigum flinka æðarransakendur s.s. eins og Ævar Petersen hjá Náttúrufræðistofnun og Jón Einar Jónsson forstöðumann Rannsóknarseturs HÍ á Snæfellsnesi. Hér með er skorað á þá að gefa út nýja áætlaða stöðu hins firnasterka æðarstofns hér við land og áhrif hækkandi sjávarhita á stofninn.

Ljósm: Sveinn Are Hansson. Æðarkolla á merktu hreiðri á Svalbarða þar sem sjá má í baksýn jökul kelfa í sjó fram. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 10
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 60
  • Frá upphafi: 1788778

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 56
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband