13.6.2012
Via Nordica
Aldrei þessu vant gat maður á litla Íslandi valið um áhugaverða fyrirlestra í hádeginu í dag. Annars vegar var að skunda uppí Háskóla og hlýða á Michael Mann hinn víðafræga veðurfarsfræðing úr loftslagsumræðunni. Höfund sjálfs "ícehockey stick" ferils hitans á jörðinni frá árinu 1000. Hins vegar stóð valið um að sækja fund á sama tíma á stóru norænu vegaráðstefnunni Via Nordica í Hörpunni um veðurhorfur til ársins 2100 og áhrif á vegakerfið á norðurslóðum. Eftir vangaveltur fram og til baka varð Via Nordica varð fyrir valinu.
5 stuttar kynningar undir stjórn Skúla Þórðarsonar sem unnið hefur með Vegagerðinni að aðlögun veghalds að hlýrra loftslagi í framtíðinni.
Hækkun hita saman með aukinni úrkomu hefur í för með sér margvíslegar afleiðingar sem ekki eru allar augljósar við fyrstu sýn.
Bent var á tilvik frá N-Svíþjóð. Í desember 2010 gerði afar óvenjulegt þíðviðri. Við verðum að hafa í huga að í norðurhluta Skandinavíu fjarri sjó ríkir meginlandsloftslag og að vetrinum talsvert og stöðugt frost. Nær sjónum við Noregsstrendur á þessum breiddargráðum ber hins vegar á meiri breytileika, rétt eins og við þekkjum vissulega hér á landi. En sem sagt þarna rétt fyrir jólin hlánaði um hávetur í nokkurn tíma öllum að óvörum. Fyrir vikið fór klaki óvænt úr vegum, nokkuð sem aldrei hefði gerst áður. Þessi óvænta þíða olli skemmdum á vegakerfinu sem kostaði yfir 1.500 milljónir íslenskar að lagfæra.
Við hækkandi hita að vetrinum saman með meiri úrkomu gerist m.a. eftirfarandi á norðurslóðum:
- Hætta á fleiri og meiri vetrarflóðum sem grefur vegi í sundur.
- Meira um aurskriður á vegi á veturna og snemma vors.
- Slitlag "mýkist" eftir því sem hiti fer ofar á milli plús og mínus (um 0°C).
- Frost fer frekar úr vegi að vetrinum (nokkuð sem við hér á landi höfum fundið síðustu ár). Veldur veikingu burðarlaga og öldum í vegum.
- Meira verður um snjó og snjómokstur á hærri fjallvegum.
- Oftar slydda í stað þess að snjói með hærri hita og hætta á ísingu í kjölfarið.
Þá er ekki talað um óbein áhrif á veghald s.s. í fjöruborðinu með hækkandi sjávarmáli og fleiri slíkum þáttum sem taka þarf tillit til í skipulagi.
Jákvæð áhrif hlýnandi loftslags eru vissulega líka til staðar. Einkum þar sem vetraráhrif eru lítil. Þá síður klaki í vegi og minni hálkuvarnir og snjómokstur en annars væri. Þetta á einkum við um S-Skandinavíu og kannski Danmörku. Ég þekki þó Dani sem eru á kafi í þessum málum sem eru því ósammála og segja að ef hlýni lítið eitt þar í landi (sama á við um England) fjölgi tilvikum ísingar á kostnað daga með snjómokstri. E.t.v. erum við að horfa upp á eitthvað svipað síðustu árin hér á láglendi í það minnsta.
Um boðskap Mann verður maður að lesa um í fjölmiðlum og ég þykist vita að hann hafi verið umhugsunarverður.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 10
- Sl. sólarhring: 12
- Sl. viku: 60
- Frá upphafi: 1788778
Annað
- Innlit í dag: 10
- Innlit sl. viku: 56
- Gestir í dag: 10
- IP-tölur í dag: 8
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.