Allar líkur eru hins vegar á því að hitinn nái að rjúfa 25 stiga múrinn á morgun fimmtudag 9. ágúst einhvers staðar um norðaustan- og austanvert landið.
Í fyrsta sinn í sumar virðist þykktin ætla að komast yfir 560 dekametra. Við sjáum stöðu mála á meðfylgjandi spákorti úr safni Evrópsku reiknimiðstöðvarinnar (sótt í Brunn Veðurstofunnar). Það gildir kl. 18 á fimmtudag. Lokaður hringur með þykkt upp á 562 verður þá yfir austanverðu landinu og reyndar annar innri fyrir jafgildisþykkt 564 rétt við Gerpi.
Þetta hlýtt loft, en þykktin er ágætur mælikvarði á hita í lægri hluta veðrahvolfsins, ætti að öðrum skilyrðum uppfylltum að leiða til á milli 20 og 23 stiga hita almennt um austanvert landið og hámarkshita dagsins á landinu um 25 til 28°C.
Lituðu fletirnir á kortinu gefa til kynna hita í 850 hPa fletinum sem verður í um 1.450 metra hæð á morgun. 8 til 12°C í þessari hæð er allgott og telst hátt. Reyndar er fremur fátítt að sjá hita í þessari hæð yfir 11 til 12°C en vel að merkja að þá slík gildi ítrekað sést við Grænland það sem af er sumri. Nái loft í þessari hæð að streyma niður hlémegin fjalla og hlýna þurrinrænt eins og það er kallað nemur hlýnunin um 0,9 til 1,0°C á hverja 100 metra. 25°C er því ekki óraunhæft við þessar aðstæður.
En hver eru þá þessi önnur skilyrði sem þarf að uppfylla til að fá væn sumarhlýindi ? Í fyrsta lagi þarf að vera vindur til staðar til að beina mestu hlýindunum úr hæð og niður í byggð. Á morgun verður einmitt ágæt SV-vindröst yfir landinu norðan- og norðvestanverðu. Hitt skilyrðið er að sólin skíni. Upphitun hennar er hrein viðbót og bætir við á að giska 2 til 3 °C við þann hita sem kreista má úr sjálfum loftmassanum.
En hvar skyldi nú verða hlýjast ? Sótti kort einnig af Brunni VÍ. Það er spákort úr hinu nýja Harmonie-líkani Veðurstofunnar sem reiknað er í hárri landupplausn. Sjá má að þar koma fram afmörkuð svæði (fjólublá) með hita yfir 20°C .
Líklegir staðir með hæsta hita dagsins eru m.a. Ásbyrgi, Skjaldþingsstaðir í Vopnafirði, Hallormsstaður, Seyðisfjörður eða Neskaupsstaður. Til hliðar hefur til gamans verið sett upp könnun þar sem lesendur geta látið spádómsgáfu sína í ljós. Sjálfur hef ég ákveðinn stað í huga sem ég held að standi upp úr á morgun, en læt ekkert uppi með það að sinni (en færi rök fyrir því vali annað kvöld þegar tölur liggja fyrir).
Hitabylgja ? Já tvímælalaust. Ég vil fyrir alla muni ekki gengisfella góð og gild hugtök. En hitabylgja verður það austanlands ef og þegar hiti fer í 25 stig.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 8
- Sl. sólarhring: 12
- Sl. viku: 58
- Frá upphafi: 1788776
Annað
- Innlit í dag: 8
- Innlit sl. viku: 54
- Gestir í dag: 8
- IP-tölur í dag: 6
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Það vantar Reyðarfjörð í könnunina og því merki ég við "Enginn þessara staða".
Gunnar Th. Gunnarsson, 8.8.2012 kl. 17:52
Egilsstaðaflugvöllur eins og í dag.
Sigurður Þór Guðjónsson, 8.8.2012 kl. 21:09
Vona að mistrið láti undan síga næstu tvo daga. Hér á Egilsstöðum varð himinninn grár eftir hádegið. Ég finn ekki góðar loftmyndir sem gætu sýnt hver upptök mistursins er. Skyldi þetta vera frá Hálslóni (sem er víst óðum að fyllast) eða frá flæðunum við upptök Jökulsár á Fjöllum?
Þorbjörn Rúnarsson (IP-tala skráð) 8.8.2012 kl. 21:21
Nýustu tölu úr Austurlandskjördæmi, kl. 22.00. Reyðarfjörður, 21,4 c
Gunnar Th. Gunnarsson, 8.8.2012 kl. 22:33
Ah... tölurnar fylgja ekki með þegar maður afritar myndina
Slóðin: http://www.vedur.is/vedur/athuganir/kort/austfirdir/#group=17&station=5975
Gunnar Th. Gunnarsson, 8.8.2012 kl. 22:35
Þorbjörn, þetta er ekki frá Kárahnjúkum. Upptökin eru töluvert vestar. Ég fór til Mývatns í dag og mystrið virtis koma suður af Mývatnsöræfum
Gunnar Th. Gunnarsson, 8.8.2012 kl. 22:38
Ég mundi nú svo sem kæra mig kollóttan þó Kollaleira nældi í gullið!
Sigurður Þór Guðjónsson, 8.8.2012 kl. 23:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.