Hávetur á norðurhveli, en varla hér ?

Um þessar mundir kemst vestanvindurinn í háloftunum í sína suðlægustu stöðu og þar með braut lægða austur yfir Atlantshafið. Að jafnaði fljótlega í byrjun febrúar tekur hann að hrökkva til baka til norðurs.  Þessi suðlæga staða vestanvindsins kemur m.a. fram í veðurfarinu við Miðjarðarhaf með bleytutíð eða kulda í Flórída o.s.frv.

Spákortið (frá HIRLAM af Brunni VÍ) sem  sem hér fylgir sýnir einmitt stöðuna í háloftunum og gildir á morgun (18. jan) kl. 12.  Það sýnir 300 hPa jafnþrýstiflötinn í um 8 til 9 km hæð.  Vert að að taka eftir nokkrum athyglisverðum þáttum:

hirlam_grunnkort_gh300_uv300_2013011706_30.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

1.  Mikil háloftalægð er vestur af Grænlandi með miðju yfir N-Labrador. Hún er á þekktum slóðum á miðjum vetri, dýpt hennar og umfang ræður miklu um legu og stefnuna á skotvindinum fyrir sunnan hana. Háloftalægð þessa hefur Trausti Jónsson gefið nefnið Stóri-Boli og hann fjallað talsvert um  á sínum Hungurdiskum.  Oftast nær háloftalægðin hvað mestu umfangi um nokkurt skeið í janúar áður en hún fer aftur að láta aðeins undan.  Á því eru þó mikil áraskipti.

2.  Skotvindurinn eða kjarni vindrastarinnar í þessar hæð  verður rétt norðan við Nýfundnaland á morgun.  Gríðarlega öflugur og styrkurinn ræsta af hitamuninum á milli háloftalægðarinnar og heittempraða loftsins sem heldur sig sunnar.  Skotvindurinn er vestanstæður og og hann getur af sér djúpar lægðir þar sem dálítil lægðarsveigja kemur á strauminn.  Ein slík verður á ferðinni suður á Atlantshafi á laugardag.

3. Í þessu mynstri háloftastraumanna og bylgnanna sem hreyfast til austurs hefur orðið stífla við Ísland.  Lítil grein með SA-vindi blæs yfir landinu og dálítil aflokuð hæð er hér norðausturundan.  Þessi staða sem upp er komin hefur einkum tvennt í för með sér.  Í fyrsta lagi ná ekki djúpu lægðirnar sem hitamunurinn og skotvindurinn geta af sér hingað til lands.  Þær ýmist berast til austurs langt suður í hafi eða það sem er sennilegra að þær dýpka mjög langt suðvestur í hafi og hringsnúast þar um sig sjálfar.  Um leið viðhelst hæðarhryggurinn og SA-áttin í öllum loftlögum hér við land. Hin afleiðingin er sú að fyrirstöðuhæðin kemur líka í veg fyrir að poki úr háloftalægðinni berist  fyrir Hvarf eða yfir Grænland með SV-vindum með tilheyrandi éljaveðri sem er annars algengt veðurlag um þetta leyti vetrar (saman með fari lægða) yfir eða til austurs með landinu. 

Svo er að sjá sem þetta meginmunstur verði ríkjandi hér a.m.k. fram undir miðja næstu viku.  SA-átt því lengst af, stundum nokkuð hvöss og milt á landinu, án þess að hægt sé að tala um stórtækan vetrarblota í því sambandi.  Talsverð væta verður líka um sunnan og vestanvert landið, en stunum ná kuldaskil inn á landið og birtir upp kólnar vestantil um stund, en sækir síðan aftur í sama farið. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Skrítið með þessa suðlægu stöðu vestanvindanna að stundum er eins og hún leið af sér vetrarstillur, bjart og kalt (minnir að sú staða hafi verið á köflum í fyrra vetur) en núna einskonar "stillur" en bara með hlýu og röku lofti.

Það er þá væntanlega þessi fyrirstöðuhæð sem veldur muninum (hvað sem nú veldur  henni trekk í trekk) og kemur væntanlega í veg fyrir að lægðirnar byltist fyrir sunnan Ísland og rási svo með ofsa yfir Færeyjar,Bretlandseyjar og norður yfir Skandinavíu eins og í fyrra?

Ætti þá ekki annars að vera sá möguleiki í stöðunni að lítil kröpp lægð gæti einmitt vegna fyrirstöðunnar skotist lóðbeint í norður til okkar sunnan úr hafi?

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 17.1.2013 kl. 15:28

2 identicon

"Að lægðirnar sem byltast fyrir sunnan Ísland rási svo......"  átti þetta að vera.

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 17.1.2013 kl. 15:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 82
  • Frá upphafi: 1789327

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 68
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband