Belgingur í Mogga

Belgingur vindaspáMorgunblaðið var með fína umfjöllum í morgun (2. maí) um Íslandslíknaið á belgingur.is.  Talað var við Belgingsstrákana hans Halla Ólafs og því lýst hversu öflugt veðurlíkanið í fínriðnu neti sé.

HRASið eins og mér er tamt að kalla afurðina er afar öflugt tæki til að glöggva sig á túlkun veðurspáa.  Sérstaklega koma vindaspárnar að miklu gagni, en nytsemd hitaspáa við yfirborð er takmarkaðri, þó hafa má af þeim ágætis gagn.  Líkt og vindurinn er úrkoman leyst upp með meiri nákvæmni þar sem áveðurs- og hléáhrif fjallendis koma afar vel fram.  Hins vegar þarf í þessu líkani rétt eins og öðrum að hafa varan á þegar óverulegri úrkomu er spáð, þ.e. að túlka slíka vísbendingu um smávægilega vætu ekki of bókstaflega í tíma og rúmi.

Hér er brot úr Morgunblaðsumfjölluninni:

Að sögn Haraldar eru veðurspárnar á Belgingi gerðar með því að fengnar eru bestu fáanlegar upplýsingar um ástand lofthjúpsins í kringum landið, bæði frá evrópskum og bandarískum veðurstofum. Þessar upplýsingar eru notaðar til að reikna út þróunina næstu daga og er það gert í þéttriðnu reiknineti sem tekur mjög nákvæmlega tillit til áhrifa landslags en eins og flestir vita hefur landslag mjög mikil staðbundin áhrif á veður.

Haraldur nefnir sem dæmi að í norðanátt geti verið mjög mikill munur á vindhraðanum á Seltjarnarnesi og á öðrum stöðum á höfuðborgarsvæðinu en ástæðan fyrir því eru þau áhrif sem Esjan hefur á veður á höfuðborgarsvæðinu. Þessi munur komi ekki fram í hefðbundnum veðurspám en sjáist á Belgingi.

Á síðunni er hægt að velja ýmist spákort með uppruna frá Bandaríkjunum (GFS) og þá er reiknað 4 x á dag til skamms tíma í einu eða frá Evrópsku reiknimiðstöðinni (ECMWF) og þá er reiknað 2 x á sólarhring til nokkurra daga í senn.

Belgingsstrákarnir mynd mbl G.RúnarÞað er rangt hjá þeim Halla, Óla, Hálfdáni og Einari að spárnar séu vinsælastar hjá flugmönnum, sjómönnum og útvistarfólki.  Ég held nefnilega að aðrir veðurfræðingar noti HRAS-spárnar allra stétta mest Smile.


Athugasemdir

1 identicon

Sæll Einar, smá leiðrétting: Spárnar sem eru byggðar á greiningu frá Evrópsku veðurstofunni (ECMWF) eru uppfærðar 4x á sólarhring. Hins vegar er 7 sólahringa spáin (greiningartími 00 og 12UTC) eingöngu uppfærð 2x á sólarhring þar eð langa spáin frá Evrópsku veðurstofunni er ekki reiknuð oftar. Evrópska veðurstofan reiknar hins vegar skemmri spá (3 sólarhringar, greiningartími 06 og 18UTC) tvisvar á dag sem við notum okkur til að uppfæra þriggja sólarhringa spána.

Mbk, Óli Yfirbelgur.

Ólafur Rögnvaldsson (IP-tala skráð) 3.5.2007 kl. 10:49

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.7.): 1
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 39
  • Frá upphafi: 1790815

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 34
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband