..allt eins og laufið sem hrynur

Á hinum stórbrotna vef Mjólkursamsölunar með myndbrotum Jónasar Hallgrímssonar rakst ég á fallegt kvæði eftir Snorra Hjartarson úr ljóðabók hans Hauströkkrið yfir mér frá 1979. Fyrir þá ljóðabók hlaut Snorri að launum bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs.

Kvæðið er einkar myndræn náttúru- og veðurstemma og nefnist einfaldlega -Haustmyndir.

Ljósm. Jón Ingi Cæsarsson

Hauströkku_Jón_Ingi_CæsarssonHaustmyndir

I
Lyngið er fallið
að laufi
holtin regnvot
og hljóð
kvöldskin á efsta
klifi.

II
Í jafnföllnum
haustsnjó
eldtungur
rauðra
rósa.

III
Hauströkkrið yfir mér
kvikt af vængjum
yfir auðu hreiðri
í störinni við fljótið.

IV
Milli trjánna
veður tunglið í dimmu
laufi
hausttungl
haustnæturgestur
á förum
eins og við
og allt eins og laufið
sem hrynur. 

 

Hvað á skyldi skáldið eiga við með eldtungum rauðra rósa í jafnföllnum haustsnjó ?  Ætlar Snorri Hjartarson það snjórinn kaffæri lífi og sjálf rósin er tákn þess viðkvæmasta gróðurs sem kemst í snertingu við kaldann snjóinn.  Eða er rósin tákn um ást, sem reynir að bræða af sér hamskipti veðursins sem haustið færir. Ef til vill leggja einhverjir enn aðrar merkingar í þessa tilteknu hendingu og kvæðið allt í heild sinni.

Í skrifum Hjartar Pálssonar í Tímarit Máls og Menningar tveimur árum eftir útkomu ljóðabókar Snorra segir á einum stað: Hauströkkrið yfir honum [Snorra] er allt í senn: hauströkkrið sjálft, hauströkkur lífsins og hauströkkrið í heiminum.  Það heillar í fegurð sinni en nægir ekki.  Rökkrið og aldurinn hafa skerpt fegurðarskyn hans og vekja með honum þrá, minningu og söknuð. 


Athugasemdir

1 identicon

Þú stórhækkar í áliti fyrir hvað þú hefur góðan og þroskaðan smekk fyrir ljóð. - Snorri, Þorsteinn Valdimarsson og Hannes Pétursson ortu hvað fegurst um íslenska náttúru af tuttugustu aldar skáldum finnst mér. Auðvitað er þetta smekksatriði og maður deilir jú ekki um smekk, en í ljóðum þessara skálda má finna perlur eins og þessa sem þú bendir á hér að ofan. Tek ofan fyrir þér, Einar.

Nöldrarinn (IP-tala skráð) 16.11.2007 kl. 04:41

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 10
  • Sl. viku: 52
  • Frá upphafi: 1790149

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 47
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband