Stundum gerist það að lægð svo að segja tekur sér bólfestu norðaustur af Langanesi. Þá hvessir norðaustanlands af NV og gerir jafnframt svo dimma hríð að ekki sér úr augum.
Á föstudagskvöldið og fram á laugardagsmorgun var einmitt dæmigert veður þessarar tegundar og tunglmyndin hér (laugd. kl. 04:25) sýnir ágætlega lægðarmiðjuna og skýjabakkann frá henni eða afturbeygðu skilin sem slengjast inn á landið norðaustanvert.
Þegar lægðir taka upp á því að verða hægfara á þessum slóðum, sækja þær hlýrra og rakt loft af hafsvæðunum í austri eða suðaustri og blanda því ísköldu lofti úr norðri. Dýpka þær þá lítið eitt aftur og nýtt úrkomusvæði kemur inn á norðausturhornið. Það gerðist einmitt í nótt og í morgun. Víða varð mjög hvasst og í þetta skiptið einnig á Austfjörðum þó svo að ofankoma hafi óvíða verið teljandi. Þannig mældist hviða yfir 50 m/s við veginn um Oddskarð í morgun.
Fréttir bárust af stökum bílum í vandræðum í fyrri hríðinni á Tjörnesi og eins á Melrakkasléttu. Veðrinu var ágætlega spáð en alltaf eru einhverjir á ferðinni. Heimamenn eru ekki óvanir veðri af þessari tegundinni og halda sig flestir heima á meðan á ósköpunum stendur. Enda eiga fáir aðrir en vel kunnugir leið að vetrarlagi um þjóðveginn frá Tjörnesi, fyrir Sléttu og áfram um Þistilfjörð, Langanesströnd og áfram til Vopnafjarðar um hina vindasömu Sandvíkurheiði. Þess vegna berst sjaldan nema ómur í fréttum af slæmum hríðarveðrum á þessum slóðum.
Veðurathuganir á Raufarhöfn bera þess þó glöggt merki að skyggni hafi ekki nánast ekki verið neitt í kófinu eða minna en 100 metrar. Björn Þórisson hjá Vegagerðinni á Þórshöfn var sama sinnis þegar ég spjallaði við hann eftir fyrri hvellinn; "hér sáum við nánast ekkert frá okkur". Takið eftir því að mesti meðalvindur á milli kl. 00 og 03 er 28 m/s. Þrátt fyrir þessa veðurhæð mælist úrkomu eftir nóttina 24 mm. Oftast skilar snjókoma sér illa í mæla þegar skefur jafnframt. Hér getur hins vegar það hafa gerst að kófið hefur borist ofan í úrkomumælinn ásamt ofankomu, en það er aðeins tilgáta að óathuguðu máli.
Þegar þetta er skrifað á sunnudagskvöldi er lægðin út af Langanesi úr sögunni eða öllu heldur hefur hún tekið á rás austur undir Noreg.
Flokkur: Veðuratburðir hér og nú | Breytt 26.8.2009 kl. 21:25 | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 2
- Sl. sólarhring: 7
- Sl. viku: 50
- Frá upphafi: 1788783
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 48
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Takk fyrir þessar upplýsingar, Einar. Það bætist alltaf í sarpinn hjá okkur, almúganum í þessu. Lognið og fallega veðrið hér á suðvesturhorninu í allan dag var hrein andhverfa við þetta.
Ívar Pálsson, 20.1.2008 kl. 22:39
http://www.vedur.is/vedur/athuganir/kort/midhalendid/#station=6657
139 m/s getur það staðist ?
Aftur á móti var nánast log (6m/s) hér á Akureyri kl 9 í morgun meðan allhvasst var bæði hér vestan og austan við.´
Því má með sanni segja að það sé alltaf gott veður á Akureyri .
Bergur Þorri Benjamínsson, 22.1.2008 kl. 12:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.