Koltvísýringskvótar á mörkuðum

Mjög er um það rætt á fjölþjóða vísu að eina leiðin til að hægt verði að koma böndum á aukningu koltvísýrings í andrúmslofti sé sú að koma á alþjóðlegu kvótakerfi með losun helstu gróðurhúsalofttegundanna.  Víð Íslendingar þekkjum verslun með kvóta mætavel þar sem gæðin eru takmörkuð.  Ég er að sjálfsögðu að tala um úthlutaðar aflaheimildir fiskistofna þar sem auðlindin er takmörkuð.

3600 MW kolaorkuver í smíðum í KínaKvótaviðskipti með losun koltvísýrings hefur verið stunduð í einhverjum mæli t.d. innan Evrópusambandsins og sífellt stærri hluta losunarinnar og fleiri "geirum" er veitt inn á markaðinn með losunarheimildir. Árið 2006 gengu kaupum og sölum 1,6 milljónir tonna af CO2 á kvótamarkaði sambandsins (ESB ETS).  Er áætlað að árið 2030 muni þessi bransi velta 40 milljörðum Evra í ESB löndunum.  Kvótakerfið hefur m.a. ýtt undir kolabrennslu og ný orkuver í ESB löndunum, nokkuð sem skýtur skökku við.  Ástæðan liggur í háu gasverði um þessar mundir en kolin eru ódýr.  Á endanum leiðir þessi auka skattur, sem kvótaverðið vissulega er til þess að dýrari kostir s.s. eins og vindorka verður hagkvæmari í samanburði við þá sem leiða til losunar gróðurhúsalofttegunda.  

Viðamikil könnun sem nýlega var gerð á væntingum þeirra sem eru að höndla með þessi mál leiddi í ljós að líklegt verð gæti orðið um 35 Evrur á tonn CO2 árið 2020.  

IPCC hefur látið gera rannsóknir á því hvað tonnið af CO2 þurfi að kosta svo þessi hagræna stýring fari að bíta og er þá miðað við að aukning á koltvísýringi geti stöðvast við 550 ppm (nú um 380 ppm).   Það einingarverð væri meira en tvöfalt hærra miðað við gengi USD/EUR eða um 100 dollarar á tonnið.  Verði gripið til slíkra aðgerða þar sem um  70-80 % allrar losunar er undir, fullyrðir IPCC að þá geti verið hægt að staðnæmast við um 2,2°C í hitastigsaukningu  frá 1990.  Slík aukning hefur ein og sér margvísleg áhrif á náttúru og samfélög.  Um það er engum blöðum að fletta.

Sennilega er markaður með losunarkvóta sem stýrt væri á heimsvísu árangursríkustu aðgerðirnar sem jafnframt hvetja til tæknilausna og nýtingar á endurnýjanlegum og/eða umhverfisvænum orkugjöfum.  Vandamálið er þriðji heimurinn og fátækari hluti mannkyns sem þyrfti að standa utan við kolefniskvótakerfið á meðan losun á íbúa er þar enn lítil.  Sá mælikvarði er reyndar út af fyrir sig ágætur, en aukagjald fyrir orkunotkun í mörgum ríkjum Afríku svo dæmi sé tekið, mundi klárlega hægja á afar æskilegri þróun frá örbyrgð til bjargálna og aukinnar þekkingar og menntunarstigs.  Því er ekkert einfalt mál að setja bara á kvóta sem boðinn er hæstbjóðanda.

Náist samkomulag heimsbyggðarinnar í þessa veru sem dálítið veltur nú á Bandaríkjunum eins og svo oft áður, geta landsmenn átt von á nýjum útgjaldalið í heimilisbókhaldinu.  Ef útlitið um 100 dollara á tonnið gengur eftir árið 2030 mundi kvótinn á meðaljeppa sem losaði 6 tonn á ári við 20 þús km akstur, kosta um 40.000 kr. á gengi dagsins í dag.  

(þessi færsla er að mestu leiti byggð á frétt norska blaðsins Tekninsk Ukeblad frá 11. mars. www.tu.no) 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ívar Pálsson

Það kemur mér verulega á óvart að þú skulir heillast af þessari kvóta„lausn“, þar sem gloppur kerfisins eru stærri en í tíu daga veðurspá. Látum liggja á milli hluta þá staðreynd að ómögulegt er að reikna út árangur aðgerðar á veðurfar áratugi fram í tímann.

Einbeitum okkur að því sem fyrir framan okkur er, þ.e. opið kerfi þar sem mikill minnihluti þáttakenda (jarðarbúa) ákveður sér reglur og vonar að restin fari einhvern tíma eftir þeim. Kína er stærsti seljandi kvóta í dag, er jafnframt stærsti losunaraðilinn og fær undanþágur til að losa margfalt í óratíma. Indland mun ekki láta þetta aftra sér heldur en fara í kjarnorku. Bandaríkin samþykkja einungis risakvóta fyrir sig, ef einvern. Mælingar á losun Afríku eru mjög stopular. Kauphallir heimsins telja þetta verða stærsta bisniss jarðar innan nokkurra ára. Samþykkt er „refsingarálag“ á Vesturlönd, þar með okkur, sem höfum verið svo spök.

Heldur virkilega einhver Íslendingur að þetta reiknishald breyti einhverju um heildarlosun heimsins? Ótrúlegar reiknikúnstir ganga út á það að útvega ýmsum þjóðum kvóta, allt frá beljuprumpi til sinubruna, en Þórunn  afþakkar hann pent!

Hvaða þjóðum og hvaða fyrirtækjum ber kvóti? Af hverju þurfa hinir nýju að kaupa allann sinn kvóta? Vegna mengunarreynslu þeirra sem fyrir voru? Ídealskir pólítíkusar hafa hér fengið velmegandi vísindamenn til þess að reikna út það sem hvorugur kann: hvernig á að stunda viðskipti. 

Ívar Pálsson, 13.3.2008 kl. 01:20

2 Smámynd: Einar Sveinbjörnsson


Nei Ívar, eg get ekki sagt að leiðin heilli mig sérstaklega  upp úr skónum og því minna eftir því sem meira af losuninni er tekin út fyrir sviga.  Hagræn stýring með einhverjum hætti er vitanlega farsælust, verst hvað pólitíkin og hagsmunatogstreitan á heimsvísu á erfitt með að komast að samkomulagi. Nokkuð sem lagast vart í bráð á meðan stóru og stækkandi hagkerfin í Asíu þurfa sitt eins og sagt er og ekki má gleyma USA.

ESv 

Einar Sveinbjörnsson, 13.3.2008 kl. 01:33

3 Smámynd: Einar Þór Strand

Það er óskiljanlegt að menn séu enn að kenna CO2 um loftslagsbreytingar og sýnir hvað IPCC og stjórnmálamenn eru ertu vægast sagt blindir.

Einar Þór Strand, 13.3.2008 kl. 12:31

4 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það var meira gaman þegar þú bloggaðir oftar. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 13.3.2008 kl. 15:35

5 identicon

Mér skilst að tekin séu í notkun ca. 3 kolaorkuver í Kína á viku hverri, og hvert og eitt þeirra séu á stærð við Kárahnjúkavirkjun og jafnvel stærri.  Þessi risakolaorkuver spýja eitruðum lofttegundum í andrúmsloftið sem nemur mio. tonna á ári.  Hvar eru umhverfispostularnir nú??

Svo má alls ekki virkja umhverfisvæna orku hér á landi fyrir umhverfis-talíbönunum, þó svo að orkuskortur sé í heiminum.

Hákon Kárason (IP-tala skráð) 13.3.2008 kl. 15:57

6 Smámynd: Anton Þór Harðarson

hver er þes umkominn að selja mengunarkvóta? hver á mengunarréttinn? Geta stjórnmála menn ákveðið að eitt fyrirtæki fái að menga meira enn annað, verður ekki að sleppa að úthluta þjóðum eins og usa, kína og gömlu sovét löndunum kvóta, þeir eru jú örugglega löngu búnir að gera sitt í mengun, á þá ekki að úthluta kvótanum á þá sem minnst hafa mengað, því varla er hugsuninn með kvóta, að verðlauna þá sem mest mengað?

Á ég ekki rétt á kvóta eins og hvert annað fyrirtæki, ég gæti notað minn kvóta og selt fyrir raforku, eða jafnvel bensín, ég hlít að eiga mengunarrétt sem samsvarar loftrúmi sem er yfir minni lóð, alveg eins og bóndinn á jarðhitaréttinn sem er undir hans lóð.

Ég held að menn ættu alveg að hætta að redda heiminum með kvóta

Anton Þór Harðarson, 13.3.2008 kl. 18:04

7 Smámynd: Benedikt Sigurðarson

Vernon Smith sá ágæti hagfræðingur og Nóbelshafi 2002 - þróaði líkön til að spá fyrir um það hvernig markaðskerfi með takmarkaðar auðlindir (vatn, fiskur, skógur og losunarheimildir) gætu þróast við "absolut" aðstæður.

Áhugavert innlegg hans og fleiri aðila á Ráðstefnu í Háskólanum á Akureyri í maí 2004 - - "Um markaðslausnir við stýringu á aðgengi að takmörkuðum auðlindum" - - -á að mínu mati erindi í umræðu dagsins.

Vernon Smith er aukin heldur áhugaverður "snillingur" - sem er undirlagður af Aspergel-heilkenninu.

Benedikt Sigurðarson, 13.3.2008 kl. 21:28

8 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

 Í góðri grein í Morgunblaðinu fyrir áratug ("RANNSÓKNIR Í HERKVÍ HAGSMUNA?" 31.10.'98) segir veðurstofustjóri meðal annars:

..."Síðustu tvo áratugina hafa umræður um svokallaða gróðurhúsaupphitun jarðarinnar orðið æ fyrirferðarmeiri, bæði hér á landi og annars staðar. Meðal vísindamanna voru og eru skiptar skoðanir á þessu máli, bæði hvort um sé að ræða raunverulega og varanlega upphitun jarðarinnar af völdum losunar gróðurhúsalofttegunda (aðalega koltvísýrings), hvernig hún dreifist yfir jörðina og hvort hugsanleg upphitun væri sá hnattræni vandi sem látið er í veðri vaka."

..."Er nú svo komið, að pólitísk nauðsyn, og oft stórfelldir efnahagslegir hagsmunir stórfyrirtækja og heilu samfélaganna, allt að því krefjast þess, að þetta sé einhver mesti umhverfisvandi heimsins. Og þegar einstaklingar, fyrirtæki eða þjóðir eiga orðið verðmæta koltvísýringskvóta verða efasemdir um upphitunarvandann barðar niður með alþekktum aðferðum skoðanakúgunar."

Í lok þessarar ágætu greinar Magnúsar Jónssonar, sem reyndar fjallar bæði um gróðurhúsavandann og ofveiðivandann, segir: "...Í öðru lagi veldur mér áhyggjum sú vaxandi tilhneiging þeirra, sem hafa efnahagslega hagsmuni af því að koma á útblásturskvótakerfi, til að gera lítið úr skoðunum efasemdarmanna og berja þannig niður akademíska hugsun og skoðanaskipti í þessu flókna og tiltölulega lítt þekkta máli".

Vel orðað hjá Magnúsi! 

Ágúst H Bjarnason, 13.3.2008 kl. 23:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.10.): 3
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 43
  • Frá upphafi: 1788478

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 37
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband