Loftslagsbreytingar og skipulag

c_documents_and_settings_heima_my_documents_my_pictures_stuttgart_432908.jpgSat í gær dálítið málþing um skipulag og loftslagbreytingar á vegum Skipulagsstofnunar.  Mönnum var þar tíðrætt um strauma og stefnur í þá veru hvernig hægt er að beita skipulagi til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.  Í máli Þorsteins Hermannssonar samgönguverkfræðings hjá Mannviti og Ellýjar Katrínar Guðmundsdóttur sviðstjóra umhverfis- og samgöngumála hjá Reykjavíkurborg komu fram nokkrar athyglisverðar tölulegar staðreyndir um breytingar sem átt hafa sér stað í Reykjavík á umliðnum árum.

  • Losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum hefur aukist hér á landi um hvorki meira né minna en 55% frá 1990.
  • Fjöldi bíla hefur aukist jafnt og þétt og telur nú meðal Reykvíkinga 676 bílar á hverja 1000 íbúa. 
  • Á tilteknu árabili fjölgaði íbúum Reykjavíkur um 7% en fólksbílum á sama tíma um 40%.
  • Kannanir sýna að um 75% allra ferða í Reykjavík eru farnar á einkabíl.  Afgangurinn skiptist á milli þeirra sem eru farnar gangandi, hjólandi eða með almenningssamgöngum.
  • Að óbreyttu má áætla að eknum kílómetrum í held sinni muni fjölga um 77% til ársins 2024 (frá 2004) og útblástur GHL eftir því.

Í máli Þorsteins kom fram að ekkert annað en hugarfarsbreyting á öllum sviðum samgangna og ekki síður í hugmyndum um skipulag dygðu til að hægja verulega á aukningu losunar á næstu árum.  Tómt mál væri að snúa þróuninni við.  Hann varaði við oftrú á alla veganna tæknilausnir sem svo mjög er haldið á lofti.  Þær dugi skammt þegar heildarmyndin er skoðuð. Meðfylgjandi mynd sýnir einmitt eina slíka kraftaverlausn sem mikið hefur verið látið með.  Léttlestir í núverandi skipulagi höfuðborgarsvæðisins eru vitanlega hálfgerð útópía a.m.k. að mínu mati. 

Skipulag framtíðarinnar sem tekur mið af því að allar vegalengdir verða styttri, skólar, leikskólar, vinnustaðir, verslanir og þjónusta, allt innan seilingar, þar sem hægt er að fara styttri ferðir gangandi eða hjólandi er kannski draumsýn, rétt eins og sú að hver fjölskylda komist upp með að láta einn bíl duga ?  Þar mætti hins vegar byggja léttlestir sem raunhæfan samgöngukost !

Patentlausnir eru ekki til þegar minnka á koltvísýringslosun frá samgöngum og mér hefur um langt skeið fundist ráðamenn og aðrir þeir sem höndla með þessi efni ekki sjá skóginn fyrir trjánum ef svo mætti segja.  Umræðunni er drepið á dreif og margvíslegum hugmyndum varpað fram, jafnt góðum sem vitlausum.  Meðvituð hugafarsbreyting er eina sem gengur, rétt eins og hjá einstaklingnum sem vill grenna sig að eftir að hafa fullreynt allar auðveldu leiðirnar og gangslitlu skyndilausnirnar. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hugarfarsbreyting, já en hvernig? Hana hlýtur að verða að knýja áfram með einhverjum hætti og fólk breytir ekki ferðavenjum sínum nema það upplifi og finni að það hagnist (í víðasta skilningi þess orðs) á slíkri breytingu. Áróðurinn einn skilar ekki miklu meðan eyrun eru dauf. Óheftur einkabílismi er stóra vandamálið, en enginn þorir að skera upp herör gegn honum, enda flestir víst samsekir. Eg hef ekki trú á því að neitt gerist að marki nema einkabílnum verði gert erfiðara fyrir og öðrum kostum (einkum sk. almenningssamgöngum) verði ger hærra undir höfði, þær ódýrari og aðgengilegri. Ráðamenn skortir pólitískt þor í þessu efni; treysta því líklega ekki að þeir fái stuðning kjósenda til aðgerða sem t.d. væri beint gegn einkabílismanum.  

"Patentlausnir" eru ýmsar, s.s. frítt í strætó fyrir alla, gjald á stóra bíla á vissum svæðum, forgangsakreinar, hærri bílastæðagjöld, ívilnanir til þeirra sem skulbinda sig til að fara í vinnuna án þess að taka tonn af blikki með sér!

Áskell Örn Kárason (IP-tala skráð) 26.9.2008 kl. 15:29

2 identicon

Aldrei var mér ekið í skóla eða tómstundastarf, er þörf á að aka grunnskólabörnum í skólann? Sjálfsagt er ekki hægt að banna það. Hefur verið gerð könnun á akstri framhaldsskólanema þ.e. hvers vegna þeir aka á einkabíl í skólann og hverju þyrfti að breyta í samgöngumálum til þess að draga úr því? Sama mætti kanna meðal okkar opinberra starfsmanna. Hvernig væri að marka þá stefnu að vestan Kringlumýrarbrautar/Grensásvegar væru engin almenningsbílastæði heldur almenningssamgöngur með tíðum ferðum, líka yfir holtin og tiltekinni hámarks göngufjarlægð að biðstöð?

ÞFÞ

Þóroddur F. Þóroddsson (IP-tala skráð) 26.9.2008 kl. 16:55

3 Smámynd: Einar Þór Strand

Eitt ráðið er að hætta að halda svona ráðstefnur sérstaklega þegar sólin hagar sér svona ;)

Einar Þór Strand, 26.9.2008 kl. 19:01

4 identicon

Ég er sammála því að ekki sé hægt að einblína á tæknilausnir eingöngu þó þær geti hjálpað að einhverju leiti.  Það sem er mest að hér á höfuðborgarsvæðinu er skortur á tengingum milli reita (hverfa).  Það er verið að búa til og lengja leiðir með því að beina öllum inn á stofnæðarnar.  Tek sem dæmi ef maður þarf að fara frá Salaskóla í Kópavogi yfir í Seljaskóla í Reykjavík. Loftlína þar á milli er ca. 0,8 km en akstursvegalengdin er uþb. 6 km.  Svona mætti lengi telja.  Það skiptir máli að haga skipulagi þannig að akstursvegalengdir séu eins stuttar og hægt er.

Guðmundur G. Hallgrímsson (IP-tala skráð) 26.9.2008 kl. 21:03

5 Smámynd: Þorsteinn Briem

Hér koma rafmagnsbílar í stað bensínbíla eftir nokkur ár, þeir fyrrnefndu verða hlaðnir með ódýru húsarafmagni á nóttunni og til þess þarf ekki að reisa hér nýja virkjun.

Engin mengun lengur vegna bílaumferðar, nema þá hugsanlega það sem spænist upp af götunum, þó ekki malbik, því olía verður ekki lengur notuð til gatnagerðar.

Þorsteinn Briem, 26.9.2008 kl. 22:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 7
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 55
  • Frá upphafi: 1788788

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 51
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband