3.10.2008
Ekta íslensk fönn
Fyrsti snjórinn kemur alltaf á óvart. Í sjálfu sér þarf það ekki að vera fréttnæmt að fyrsti snjórinn eða hálkan komi fólki í opna skjöldu. Þannig er það ævinlega, nema þegar veturinn lætur bíða eftir sér fram undir jól eins og stundum vill verða.
Í gær var greint frá því að strætisvagn hefði runnið niður bratta brekkuna í Gilinu á Akureyri í fljúgandi hálku. Þá þegar voru fjallvegir sumir hverjir norðanlands orðnir þungfærir og Axarfjarðarheiðin ófær.
Síðan tók að snjóa suðvestanlands af þó nokkurri ákefð í gærkvöldi þegar frekar sakleysislegt en kalt lægðardrag kom úr vestri og skil þess yfir sunnanvert landið.
Ekta íslensk fönn sungu Stuðmenn og þegar þetta er skrifað liggur ekki fyrir snjódýptin sem er mæld er kl. 09. Margir spyrja vitanlega, hvenær hafi snjóað þetta snemma síðast. Sjálfur ligg ég ekki á slíkum samanburði, en get fullyrt að þetta mikil ofankoma er klárlega með allra fyrstu skipum a.m.k. í höfuðborginni. Þá skal því haldið til haga að í fyrra snjóaði í Mýrdal og V-Skaftafellssýslu 15.september og þótti sú ofankoma heyra til viðburða eins og lesa má um hér.
Alloft gerir smáföl seint í september eða byrjun október sem varla mælist og tekur hafnharðan upp. En nú finnst manni snjórinn meiri en svo, upp undir það að vera ökkladjúpur.
Það kúnstuga er að ekki er ætlast til þess að tíma vetrardekkja renni upp fyrr en 15. október, en eins og svo oft áður reynist illgerlegt að troða veðráttunni inn í almanökin.
Ljósm. mbl.is/Brynjar Gauti
Flokkur: Veðuratburðir hér og nú | Breytt 26.8.2009 kl. 14:00 | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 6
- Sl. viku: 50
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 46
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Snjódýptin í Reykjavík kl. 09 þann 3.október er 9,3 cm. Þá er það bókfært.
Kristín (IP-tala skráð) 3.10.2008 kl. 08:57
Er ekki vetrardekkjatíminn 15. nóvember?
Lára Hanna Einarsdóttir, 3.10.2008 kl. 09:59
Ég fer oftast í Laufskálarétt í Skagafirð sem var til margra ára alltaf haldin fyrsta laugardag í Október en er nú síðasta laugardag í September, Ég hef oft lennt í þæfingsfærð og raunar einhverntíman í blyndbil enn oft í snjó og krapa. Hef haft þetta sem viðmiðun um hvenær von er á vetri
Gylfi Björgvinsson, 3.10.2008 kl. 10:09
Þetta er líklega mesta snjódýpt í bænum á þessum árstíma. En man nokkur eftir snjóakastinu sem hófst 29. september 1969 og morguninn eftir var snjódýptin í Reykjavík 8 cm. Þá var meðalhiti tveggja síðustu daganna í september undir frostmarki. Ég var reyndar áðan að fá athugasemd inn á mína síðu að veðrið væri "yndislegt" og við ættum að njóta þess! Ég segi hins vegar og stend við það: Þetta er algjör viðbjóður!
Sigurður Þór Guðjónsson, 3.10.2008 kl. 10:36
Minnið er svikult, en mest þó á það,
sem markar hinn liðna tíma.
en þeir sem að atburði bleka á blað,
úr bæta, svo létt verður glíma.
Árið 1979 vaknaði ég norður í Bárðardal í Þingeyrjarsýslu þann 3. september og er út var litið var kominn öklasnjór. Þann dag ók ég á leið vestur í Dýrafjörð en komst ekki nema í Vatnsfjörð á Barðaströnd. Daginn eftir var fjöldi bíla dreginn yfir Hrafnseyrarheiði með stórri hjólagröfu og þá var nær hnédjúpur snjór á láglendi í Dýrafirði. Hann tók allan upp á næsta hálfum mánuði og í októberlok komu margir góðir dagar með sólskini.
Bergur Torfason (IP-tala skráð) 3.10.2008 kl. 14:14
Vonandi kemur nú ekki eldgos núna ofan á allt saman. Það er of mikið á einum degi.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 3.10.2008 kl. 16:28
Það er til mynd af mér og vini að leika okkur í snjónum þann 22.september 1995 í sumarbústaði foreldra minna sem staðsettur í Grímsnesi um 7 km frá Þrastalundi.
Á kaffistofunni í dag var verið að tala um að þetta væri týpískt íslenskt, það getur verið en ég man eftir því að þegar foreldrar mínir fluttu til Svíþjóðar 1.Maí 1979 þá var svo mikill snjóbylur að þau urðu veðurteft í Stokkhólmi.
Jóhann Grétar Kröyer Gizurarson (IP-tala skráð) 3.10.2008 kl. 17:57
Þessi kuldi núna sýnir bara svart á hvítu að hræðsluáróðurinn um "Global Warming" er helber lygi. Það ætti að taka það fólk sem er að predika þennan lygaáróður og sækja það til saka!
Ég trúi hinsvegar á "Global Cooling" en mælingar sýna að hitnun Jarðar náði hámarki árið 2003, en síðan hefur farið hægt og bítandi kólnandi sem stendur yfir enn.
Hlynur Þór Björgvinsson (IP-tala skráð) 4.10.2008 kl. 12:27
Hvað sýndu þá kuldaköstin í september 1943, 1954 og 1969?
Sigurður Þór Guðjónsson, 4.10.2008 kl. 17:04
Mörg ágæt sjónarmið og "minni" hér í umræðum. Kuldaköst í september eru ekki óalgeng um mest allt land, nema ef vera skyldi í Reykjavík þar sem afar fátítt er að snjó festi að ráði þetta snemma hausts. 1979 var hryllilegt ár í veðurfarslegu tilliti og það haustaði snemma. Hins vegar brá til betri tíðar eins og Bergur Torfason bendir réttileg á. Snjóflóðaárið 1995 var líka afbrigðilegt á marga lund og snemma um haustið tók að kólna. Þá hins vegar gerði hina allra bestu tíð fljótlega eftir mánaðarmótin október/nóvember og hélst svo allan veturinn. Um 1969 fjalla ég sérstaklega um í nýjum pistli.
Hlynur Þór Björgvinsson segist vera trúaður maður og telur veðurfar jarðarinnar nú fara kólnandi. Sjálfur ber ég mikla virðingu fyrir trúabrögðum en almennt séð er tilgangslítið að rökræða trúmál.
Einar Sveinbjörnsson, 5.10.2008 kl. 09:11
Sæll Einar, ég er sammála þér með hvað fólk er illa undir búið, þó maður sé á sumardekkjum þá keyrir maður eins og aðstæður leyfa, við búum á Íslandi og ættum að vera við öllu búinn. Kær kveðja frá Eyjum.
Helgi Þór Gunnarsson, 6.10.2008 kl. 01:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.