Snjórinn er óvenjulega snemma á ferðinni SV-lands

Í fjármálhvirfilbyl undanfarinna daga eru vafalítið flestir búnir að gleyma snjókomunni sem gerði í Reykjavík fyrstu daga mánaðarins. Hér eru síðbúnar vangaveltur um þann snjó sem orsakaði m.a. snemmbúnar langar biðraðir á hjólbarðaverkstæðum. 

Var þessi snjókoma í höfuðborginni óvenjulega snemma á ferðinni.  Slíkur samanburður við fyrri ár er ekki alltaf einfaldur, því taka verður tillit til þess hvort snjófölin sé minniháttar og hana taki upp nánast jafnharðan eða hvort um sé að ræða meiri snjó þar sem snjódýptin mælist í nokkrum sentímetrum og að snjórinn tolli aðeins.

Kristín Hermannsdóttir á Veðurstofunni fletti upp í gagngrunninum sem nær aftur til 1949.  Kom í ljós að aðeins einu sinni á þessum tæpum 60 árum hefur snjóað viðlíka þetta snemma og nú gerði. Það var árið 1969.  Þá snjóaði síðasta dag septembermánaðar og mældist snjódýptin þá 8 sm.  Hélst sú snjóföl í tvo til þrjá daga áður en hana tók upp.  Þetta er í eina skiptið sem finna má dæmi þess að snjóað hafi í september í Reykjavík (mögulega þó fyrir 1949).

Að morgni föstudagsins 2. október reyndist snjódýptin vera 9 sm. í Reykjavík.  Snjóinn tók hins vegar upp að mestu þann dag og þann næsta, enda lítið um ský og heit sólin enn tiltölulega hátt á lofti. 

Þessi snjókoma SV-lands er því nokkur tíðarfarslegur viðburður.  Hann hefur hins vegar lítið forspárgildi fyrir vetrarveðráttuna og þaðan af síður fer hann saman við stóru tíðindi efnahagsmálanna hér á landi og þau straumhvörf sem við erum að horfa upp á þessa dagana.

fyrstisnjorhaust2008_697417.jpgTunglmyndirnar sem hér fylgja með eru fengnar frá Ingibjörgu Jónsdóttur (tengill). Þetta eru ljósmyndir úr MODIS tunglunum,  teknar með sólarhringsmillibili.  Á þeirri efri má greina snjó yfir víða um landið, en takið eftir að jörð er t.d. auð á utanverðu Reykjanesi. Á neðri myndinni, degi síðar (4. október) hefur snjófölina tekið upp allvíða.  Ský eru yfir norðausturhluta landsins og því fátt um samanburð þar.  Meira að segja inn á Landmannaafrétti og Tungnáröræfum hefur sólin náð að bræða snjóinn í gær. 

Athyglisverð er snjóröndin þvert yfir Mýrarnar, frá Borgarfirði og vesturúr.  Varpa má fram ýmsum getgátum hvers vegna þetta sé svona.  Líklegast er að þarna hafi verið ek. skil í veðrinu þegar snjóaði en línuna  er þó ekki að sjá á efri myndinni þó vissulega sé það greinilegt að fölin er ógreinilegri nær fjöllunum á Mýrum en niðurfrá.  Einnig getur gróður átt hlut að máli, en kjarrlendi heldur betur snjónum en opnar engjar og móar.  Mikið er um birki- og víðikjarr á þessum slóðum en síðast þegar ég gáði óx það á víð og dreif en ekki í reglustrikuðum röðum ! 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Í þessum pistli má lesa um snjó í Reykajvík í september síðan 1924 og ýmislegt fleira um snjó og kulda á landinu í þeim mánuði.

Sigurður Þór Guðjónsson, 13.10.2008 kl. 17:16

2 identicon

Merkilegt fyrirbrigði þetta tungumál, sem enn er verið að baksa með hér á þessu skeri. Svo sem hægt að fílósófera í allar áttir um það og tengja við þjóðrembinginn, sem nú grasserar sem aldrei fyrr. Læt það hinsvegar ógert. En varðandi það fyrirbrigði, sem drepið er á í þessum pistli veðurfræðingsins og er kallað snjóföl. Þegar ellismellurinn var í skóla fyrir mannsaldri, þá var þetta orð hvorugkyns og við hefðum fengið athugasemd með rauðum penna frá kennaranum fyrir að hafa orðið í kvenkyni, eins og nú er alsiða, einkum á höfuðborgarsvæðinu. Svipað gildir raunar um annað orð, þ.e.a.s. mör  en þarna í uralten Zeit, þegar ellismellurinn sat á skólabekk, var mör karlkyns en er nú orðið kvenkyns. Mörinn, sagði fólk aldeilis kotroskið en hvarflaði ekki að því, að fimmtíu árum seinna væri talað um mörina. Gaman að þessu.

Ellismellur (IP-tala skráð) 15.10.2008 kl. 20:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 53
  • Frá upphafi: 1790156

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 48
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband