Brennsteinsfýlan úr Skaftá

Skaftárhlaup 31.júlí í fyrra 2005

Fólk fyrir norðan hefur verið að finna brennisteinsfýluna frá Skaftárhlaupinu.  Suðustanáttin í nótt bar brennisteinsvetnið (H2S) sem sagt norður yfir heiðar.  Þessi lofttegund sem ég kalla alltaf hverafýlu er hættuleg í miklum mæli.  Hún hefur þá eiginleka að vera þyngri en venjulegt andrúmsloft og þess vegna blandast hún seint við efri loftlög og hefur tilhneigingu til þess að fylgja landslaginu.  Þess vegna þarf ekki að koma á óvart að fýlan hafi fundist t.d.  á Blöndósi þar sem gasið hefur borist undan vindi yfir hálendið, þaðan niður í Blöndudal og áfram út Langadal yfir Blönduós.  Nú eftir að vindur snerist til suðvesturs verður til þess að Jökuldælingar og Vopnfirðingar kunna að fá smjörþefinn af Skaftárhlaupinu nú í kvöld.

Annars er þetta Skaftárhlaup með þeim stærri og lán í óláni að það skuli koma síðla vetrar þegar rennsli árinnar er hvað minnst.  Línuritið hér að neðan sem fengið er úr grunni Vatnamælinga Orkustofnunar sýnir rennsli við Sveinstind í síðasta hlaupi sem kom úr vestari katlinum svonefnda um verslunarmannahelgina í fyrra.  Þá var hámarksrennslið við Sveinstind um 720 rúmmetrar á sekúndu.  Þar af var bakgrunnsrennslið um 150 til 200 rúmmetrar í sumarleysingum.  Nú er vetrarrennslið ekki nema um tíundi hluti þess eða um 20 rúmmetrar á sek.  Það er bagalegt að mælirinn við Sveinstind skuli ekki senda vatnshæðarupplýsingar í þessu hlaupi, en Snorri Zóphoníusson hjá Vatnamælingum sagði i viðtali við mbl.is í gær að ekki væri ósennilegt að hlaupið nú næði 1400 til 1500 rúmmetrum og er þá miðað við Sveinstind ef ég þekki rétt.  Fróðlegt verður að fylgjast með framvindu mála, en víst er að sumarrennsli til viðbótar hefði gert þetta Skaftárhlaup úr eystri katlinum enn stærra og magnaðra.        


mbl.is Hlaupið í Skaftá komið að Kirkjubæjarklaustri; útlit fyrir stórt hlaup
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt
Rennsli Skáftár við Sveinstind í hlaupi 2005

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steinn E. Sigurðarson

Ég styð ákvörðun Henrýs að tengja þessa færslu fréttinni, enda góð færsla sem fleiri mættu lesa :-)

Steinn E. Sigurðarson, 23.4.2006 kl. 20:57

2 Smámynd: Einar Sveinbjörnsson

Þakka þér Henrý fyrir þessa ábendingu. Kem örugglega til með að notfæra mér þessa leið.
ESv

Einar Sveinbjörnsson, 23.4.2006 kl. 21:42

3 Smámynd: Sigurður G. Tómasson

Sæll Einar!
Ég vandist því að þessi lykt af brennisteinsvetni væri kölluð jöklafýla og er það sjálfsagt skaftfellsk málvenja. Jöklafýlan tengdist líka oft umbrotum í jöklum, eldgosum og hlaupum. Ef jöklafýla fannst í Reykjavík benti það eindregið til hlaups í sunnlensku jökulánum. A seinni árum er ekkert að marka þetta, því eftir að virkjað var á Nesjavöllum streyma þar út í loftið þúsundir tonna af brennisteini ár hvert og lyktin finnst hér í hægri austan golu.
En að öðru. Jarðvísindamenn telja eldvirkni hafa aukist undir Vatnajökli seinustu ár, enda virðist virknin jafnvel vera lotubundin, þótt enginn kunni skýringar á því. Meðal annars eru merki um aukinn jarðhita í Skaftárkötlum. Þá hefur verið mikil jarðskjálftavirkni í jöklinum vestanverðum og er þar ekki aðeins um að ræða betra mælinet, sem gjarnan villir sýn um stundarsakir. Því er sérstaklega fróðlegt að fylgjast með framhaldinu nú.

Sigurður G. Tómasson, 24.4.2006 kl. 11:38

4 Smámynd: Einar Sveinbjörnsson

Sæll Sigurður !
Við erum á sama báti hvað varðar áhuga á undrum iðrum jarðar. Sammála þér að virknin vestur af Grímsvötnum undir hlaupkötlunum er að aukast. Hún var vissulega ekki til staðar fyrir fyrsta hlaupið 1955. Útfrá heildarmagni hlaupvatns ásamt tíðni þeirra eiga Magnús Tumi og félagar auðvelt með að reikna út orkugetu háhitasvæðisins og þétt net járskjálftamæla sýnir glöggt ef kvika er þarna á hreyfingu undir niðri. Vafalítið spilar hitinn og möguleg aukinn kvikuþrýstingur þarna saman. Hverafýlan sem Skaffellingar kalla með réttu Jöklafýlu er hins vegar orðin æði algeng sem daufur keimur hér í Reykjavík eins og þú segir eftir að farið var að pikka hér og þar á Hellisheiðinni og áður á Nesjavöllum. Best finnst hún í hægri A-átt eins og þú getur um, snemma morguns ýmist að vorlagi eða á kyrrum haustdögum. Síður á sumrin þar sem inngeislun sólar veldur meiri blöndun við efri loftlög.
ESv

Einar Sveinbjörnsson, 24.4.2006 kl. 11:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 53
  • Frá upphafi: 1788791

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 49
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband