Veðurannáll 2008

Margt gerðist markvert í veðrinu 2008.  Hér á eftir fara hápunktar veðurfars 2008 að mínu mati:

  • Slagveður og talsverð veðurhæð  var um áramótin  í fyrsta sinn sem veðrið var með þeim hætti frá því 1989/90.  Fáir voru þeir flugeldarnir og engar brennurnar a.m.k. ekki suðvestanlands.
  • Frosthörkurnar sunnan- og vestanlands fyrstu tvo daga febrúarmánaðar.  Frostið fór í 22 stig á Hjarðarlandi og í Stafholtsey.   Grípa þurfti til minniháttar skömmtunar á heitu vatni, og  m.a var Suðbæjarlauginni í Hafnarfirði lokað um tíma. 
  • Eitt versta SA-veður  vetrarins gerði 8.-9. febrúar frá um 935 hPa lægð vestur af landinu.  Vindmælirinn á Hafnarfjalli gaf upp öndina eftir vindhviðu sem mældist 62 m/s.  Illviðrinu var ágætlega spáð og tjón lítið.
  • Mikið fannfergi gerði fyrst í mars syðst á landinu og mældist snjódýpt á Stórhöfða 65 sm að morgni 3. mars sem er með almesta snjó sem þar hefur mælst. Í Vík  var snjódýptin 90 sm á sama tíma. Ekki varaði þetta ástand legni því nokkrum dögum seinna leysti mesta allan snjó sunnanlands.
  • 2008 voraði vel, sunnanlands brá til mjög hagstæðrar tíðar upp úr 20. apríl og um landið norðanvert upp úr mánaðarmótum apríl/maí. Í Reykjavík varð maí sá hlýjasti í 48 ár og á Akureyri hefur ekki hlýrra í maí í 17 ár.  Mánuðurinn var alveg laus við norðanhret en það er frekar óvenjulegt, en þó ekki einsdæmi.  Garðar voru slegnir á Höfn svo snemma sem 7. maí sem er í raun með nokkrum ólíkindum, en lýsanda fyrir þetta hagstæða vor.
  • Óvenjulegt A-hvassviðri að sumri gerði sunnanlands 1. Júlí.  Landsmót hestamanna á Hellu fór ekki varhluta af veðurhamnum, en hviður fóru í 50 m/s á Steinum undur Eyjafjöllum.  Svo há mæligildi teljast til tíðinda að sumarlagi.
  • Júlímánuður var einkar eftirminnilegur og með þeim hlýjustu frá upphafi mælinga á landinu.  Hitabylgja sem kemst í veðursögubækurnar gerði undir lok mánaðarins. Hiti á Þingvöllum komst í 29,7 stig þann 30. Það er hæsti hiti sem mælst hefur á staðlaðri sjálfvirkri stöð hér á landi frá upphafi slíkra mælinga.Nýtt met var einnig sett í Reykjavík sama dag þegar hitinn á mönnuðu stöðinni fór í 25,7 stig, en hiti hefur verið mældur í Reykjavík samfellt frá 1870. en hámarksmælingar eru ekki til frá öllum þeim tíma. Nýtt hitamet var einnig sett á Stórhöfða í Vestmannaeyjum (21,6 stig) en þar hefur verið mælt samfellt frá 1921.
  • 16. september barst til Íslands nokkuð kröpp lægð sem að hluta til var afsprengi fellibyljarins IKE sunnan úr Mexíkóflóa.  Veðurhæð var ekki tiltakanlega mikil, en úrkoma mjög mikil um vestanvert landið.  Þannig mældist sólarhringsúrkoma rúmlega 200 mm í mæli á Ölkelduhálsi í Henglinum.  Afar sérstakt þótti að sjá hvað úrhellið var ofboðslegt um tíma, en í Ólafsvík nam það um 20 mm á einnig klukkustund og litlu minna í Grundarfirði.
  • Septembermánuður var mjög vætusamur um sunnanvert landið. Í Stykkishólmi var met slegið, þar mældist úrkoma nú 204 mm. Eldra met var 166 mm, frá árinu 1933, en úrkoma hefur verið mæld í Stykkishólmi frá því í september 1856.
  • Eftir hlýindi sumarsins koma kaldur Október. Mælingar gáfu til kynna að ekki hafi verið hlutfallslega svo kalt miðað við meðaltalið 1961-1990  frá því í febrúar 2002.  Sérstaklega var í kaldara lagi um sunnanvert landið.
  • Mikið NV-veður gerði norðanlands 24. og 25. október með foráttubrimi og hafróti.  Miklar skemmdir hlutust á hafnamannvirkjum m.a. á Siglufirði og Húsavík.
  • Eftir vetrarveðráttu með þó nokkrum snjó á landinu í desember gerði mikla vetrarleysingu eftir jólin.  Hlýtt varð norðanlands og á Vestfjörðum og þurfti suður um við Miðjarðarhaf til að finna álíka hitastig á þriðja í jólum. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 7
  • Sl. sólarhring: 10
  • Sl. viku: 55
  • Frá upphafi: 1788788

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 51
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband