22.1.2009
Enn ein djúpa lægðin !
Lægðirnar á Atlantshafinu eru víðáttumiklar um þessar mundir og ná mikilli dýpt. Sú sem nú er í aðalhlutverki í dag djúpt suður af Ingólfshöfða er spáð niður undir 930 hPa síðar í dag. (Kortið er greining 22.jan kl. 0600).
Þó lægðarmiðjan sé ekki ofan í landsteinunum hefur hún engu að síður mikil áhrif hér. Skil hennar nálgast óðfluga og á undan þeim er mikil NA-vindröst. Víða hvessir sérstaklega suðaustanlands. Til marks um veðurhæðina var nú rétt í þessu (kl. 09) 20 m/s í Sandfelli í Öræfum, og vindhviða mældist 47 m/s. Vindur fer enn vaxandi til hádegis á þessum slóðum. Yfir og undan Vestfjörðum er fyrir önnur röst af norðaustri og gengur hún saman við þá sem nálgast frá lægðinni. Að þessu sinni þarf því ekki til mikið loftvogarfall til fá vaxandi vind, en einkenni hvassrar NA-áttar að vetrarlagi er gjarnan það að vindur vex hægt og sígandi og er oftast nær ágætlega fyrirsjáanlegur.
Ástæða þess hvað lægðirnar þessa dagana verða djúpar liggur að verulegu leyti í útrás eða flæði kulda í háloftunum til austurs út á Atlantshaf, óvenju sunnarlega, eða fyrir sunnan Hvarf. Kaldasta loftið er því sunnan og suðvestan Íslands og átök hitamismunar verða sunnar en gengur og gerist, þar sem sjávarhitinn er hærri, loftið rakara o.s.frv. Sést ágætlega á meðfylgjandi korti frá GFS, þar sem að fjólubláu fletirnir gefa til kynna hita í um 5 km hæð.
Köldu háloftahvirflarnir frá víðáttum N-Ameríku halda síðan áfram einn af öðrum út á Atlantshafið fyrir sunnan Ísland og fyllast þar á nokkrum dögum þegar hlýrra loftið sækir að þeim. Í raun er það ferli þegar djúp lægðin fyrir tilstilli hvirfilsins, grynnist eða fyllist á endanum ekki satt ?
Þetta heldur óvanalega ástand hefur m.a. í för með sér að hingað bers milt loft svo að segja aftan að okkur með NA-áttinni. Við þessar aðstæður er ekki alminnilega kalt janúarloft að finna við yfirborð hér hjá okkur fyrr en langleiðina vestur við Grænland. En orkuskipti loft og hafs eru mikil á stóru svæði og úrkoma verður í stærri skömmtunum á Bretlandseyjum, vesturströnd Noregs svo ekki sé talað um austan- og norðaustanvert Ísland.
Flokkur: Veðurfar á Íslandi | Breytt 26.8.2009 kl. 13:40 | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 7
- Sl. sólarhring: 10
- Sl. viku: 55
- Frá upphafi: 1788788
Annað
- Innlit í dag: 5
- Innlit sl. viku: 51
- Gestir í dag: 5
- IP-tölur í dag: 5
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Sæll Einar.
Ég sá einmitt umfjöllun í fréttum í Noregi að þar hefði snjóað alveg gríðarlega. Met væru jafnvel að falla. Veist þú eitthvað meira um málið? Tengist það þessum skilyrðum varðandi lægðabrautina?
Takk fyrir frábæra bloggsíðu.
Mbk.
Davíð Guðmundsson (IP-tala skráð) 22.1.2009 kl. 10:19
Davíð !
Fannfergi í Noregi tengist klárlega lægðagangi undanfarinnardaga og vikna. Í Austur-Noregi, t.a.m. í Osló hefur mikil snjókoma síðustu daga orðið fyrir tilstilli fleiri þátta, sem aftur tengjast saman vegna lofthringrásarinnar yfir Atlantshafi.
ESv
Einar Sveinbjörnsson, 22.1.2009 kl. 10:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.