Góður dagur til tunglmyndatöku

Ég beið nokkuð spenntur að komast yfir myndir sem teknar voru í dag úr gervitunglum.  Bæði var að landið er því sem næst allt hulið snjó og líka var heiðríkja og von til þess að allt landið væri myndahæft.  Það kom líka á daginn og eins og svo oft áður sendi Ingibjörg Jónsdóttir mér góða mynd sem hún hefur rétt af og stækkað.  Að þessu sinni er um ljósmynd að ræða úr einu af NOAA tunglunum sem fara pólbraut um jörðu sem tekin var í dag, 2. feb 2009 kl. 12:58.  Sporbraut NOAA tunglanna er í um 860 km hæð.  Fékk einmitt fyrirspurn við myndina frá því á laugardag um fjarlægð linsunnar frá jörðu.  Ljósmyndir sem teknar eru um hádegisbil þegar sól er lágt á lofti sýna langa skugga frá  hærri fjöllum og gefa þeir myndinni mjög svo aukna dýpt.  Á dögum sem þessum er landið hreint ekkert annað en glæsilegt listaverk.

Island02022009

 

 

Island02022009_SVÁ neðri myndinni hef ég klippt út suðvestanvert landið.  Það sem er þar athyglisvert að vel sést að Þingvallavatn er greinilega að leggja.  Ísinn á vatninu sést, á meðan dekkri vakir eru enn austan- og suðaustantil. Það má þó ver að ský yfir Henglinum og Nesjavöllum rugli aðeins grátóna myndarinnar, en hitamynd í sömu upplausn gæfi skarpari drætti hvað varðar ísinn. Á laugardag var Þingvallavatn hins vegar klárlega alveg íslaust séð úr sömu hæð utan úr geimnum.  Sjálfur hef ég sérstakan áhuga á ísafari Þingvallavatns um þessar mundir enda unnið að dálítilli athugun á Þingvallaísum og varmahag vatnsins, sem kostuð er af orkurannsóknarsjóði Landsvirkjunar.

Hitamælingar á Þingvöllum við þjónustumiðstöðina sýna glögglega að við vatnið var froststilla í nótt og morgun, allt að -16°C um skeið.  Reynslan segir að sé vatnið orðið nægjanlega kalt í heild sinni leggur það á skömmum tíma við þær veðuraðstæður sem nú eru.  Oft gerist það snemma í janúar, sjaldan mikið fyrr, en stundum ekki fyrr en í febrúar líkt og nú.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vá flottar myndir;)

Anna Fanney Gunnarsdóttir (IP-tala skráð) 3.2.2009 kl. 08:17

2 identicon

Þetta er rosalega flott mynd... vantar kannski pínu skerpu í þetta. Kemur á óvart já að Þingvallavatn sé búið að leggja þar sem það íslaust frá mínu sjónarhorni á Sunnudaginn þegar ég rölti niðrúr Botnssúlum.

Arnar Páll Birgisson (IP-tala skráð) 3.2.2009 kl. 15:36

3 identicon

Falleg mynd. Margt athyglivert sem kemur þarna fram. Áfallshorn sólargeislanna leiðir í ljós ýmislegt í landslaginu, sem sést varla ella. Öskjurnar í Bárðarbungu og vestanverðum Hofsjökli skera sig vel úr, báðir Skaftárkatlarnir mjög greinilegir, stærð og umfang Grímsvatnaöskjurnar og báðar öskjumyndanirnar við Kverkfjöll. Athygli vekja tvær sporöskjulaga myndanir norður og norðaustur af Esjufjöllum, sem gætu bent til að þar séu fornar öskjur, og fleira og fleira birtist þarna. Afar áhugavert.

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 3.2.2009 kl. 18:01

4 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég var einmitt að pæla í ýmsu af því sem Þorkell nefnir á þessari frábæru mynd.

Sigurður Þór Guðjónsson, 3.2.2009 kl. 18:30

5 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Getur verið að Þingvallavatn sé ísilagt núna? Vatnið er mjög djúpt og leggur ekki nema í miklum og langvinnum vetrarhörkum.

Fyrir 10 dögum var ég í blíðskaparveðri efst í Bláskógabyggð og þóttist taka eftir að ekki væri mikill klaki í jörðu.  Hvað segja ferðalangar sem farið hafa nærri Þingvallavatni? 

Myndin er einstaklega falleg og nýtur sín enn betur ef hún er stækkuð með því að smella þrisvar á hana.

Ágúst H Bjarnason, 4.2.2009 kl. 07:50

6 Smámynd: Eyþór Árnason

Glæsileg mynd. Kveðja.

Eyþór Árnason, 5.2.2009 kl. 00:26

7 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Hinar miklu stillur undanfarið hafa platað mann aðeins. Þrátt fyrir mikið frost finnst manni ekki mjög kalt í logninu. Það er ekki fyrr en maður lítur á hitamælinn að maður áttar sig á hve frostið er mikið

Ágúst H Bjarnason, 5.2.2009 kl. 05:31

8 identicon

Mývatn hverfur annars inn í landslagið, ég greini það ekki þó að ég viti hvar það er staðsett.

Ari (IP-tala skráð) 5.2.2009 kl. 23:21

9 identicon

Einar,

NASA var sammála þér með að þetta væri fín mynd því þann 4. feb var þetta mynd dagsins á MODIS síðunni. 

Myndin frá NASA er í gervilitum, sem þýðir að upplýsingar frá fleiri tíðnibilum eru notaðar en í myndinni hér að ofan. Ef frá er talinn liturinn er munurinn þó  oftast lítill, helst sést hann þegar skoðuð eru skýin umhverfis landið.  Þannig má hjá NASA sjá ummerki bylgjumyndunar út af Austfjörðum, sem sést ekki greinilega hér að ofan.

http://modis.gsfc.nasa.gov/gallery/individual.php?db_date=2009-02-04

Terra er yfir landinu í hádeginu svo það má svo bera þessa mynd saman við  veðurathuganir frá sama tíma en dæmi um slíkt má sjá á

http://andvari.vedur.is/athuganir/vedurkort/eldra/2009/2009-02-02_12.gif

 Kveðja

H.

Halldór Björnsson (IP-tala skráð) 12.2.2009 kl. 09:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 50
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 46
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband