Vélsleðasnjóflóð á Ólafsfirði

HlíðÁ sunnudag féll snjóflóð ofan við bæinn Hlíð rétt innan við byggðina á Ólafsfirði.  Eins og stundum áður var það umferð vélsleða sem kom flóðinu af stað.  Á myndum sem Svavar B. Magnússon var svo vinsamlegur að senda mér, sést þetta um 100 metra breiða flekaflóð vel. 

Í samtali við fréttavef vísis segir Jón Konráðsson lögreglumaður: „Það er lítill snjór hérna framan af vetri síðan fer allt á kaf fyrir viku síðan og undirlagið er þá hart og auðvelt fyrir snjóinn að fara af stað."

Snjóflóð eru ekki óalgeng í Ólafsfirði, en þó ætíð fjarri byggðinni í fjöllunum beggja vegna fjarðarins og þá frekar að vestanverðu þar sem er að finna mjög dæmigerða og virka snjóflóðafarvegi.

Á sínum tíma vann ég með góðu fólki frá sveitarfélaginu og Veðurstofu Íslands að hættumati fyrir Ólafsfjörð.  Þá kom mjög til skoðunar mat á aðstæðum við fremsta (syðsta) og jafnframt fjölmennasta íbúðarhús Ólafsfjarðar eða dvalar- og hjúkrunarheimilið Hornbrekku, sem sjá má hér á einni myndinni.  Á rýmingarkorti er Hornbrekka innan hættumatslínu C og stefnt hefur verið að því að ýta upp varnargarði ofan hússins.  Eftir því sem ég best veit er hönnun hans því sem næst lokið og ekkert því til fyrirstöðu að flytja ágætt efni sem til fellur við jarðgangagerðina og móta varnargarðinn.

HornbrekkaMeðal Ólafsfirðinga þótti og þykir enn þessi ráðstöfun umdeild og á það bent að hættan sé ofmetin, enda ekki fallið flóð úr Tindaöxl ofan Hornbrekku svo menn muni eftir.  Upptök vélsleðaflóðsins eru 500 metrum sunnan áætlaðs varnargarðs.  Óljósar heimildir, sem þó er engin ástæða til að rengja, eru um stórt snjóflóð skammt utan við Hlíð (nær Hornbrekku)  einhvern tímann um aldamótin 1900 og á það hafa náð alla leið út á ísilagt Ólafsfjarðarvatn.

Víðáttumikil skál er ofan Hornbrekku.  Þar getur setið niður mikinn snjó við ákveðnar veðuraðstæður, sérstaklega samfara SA-átt. Það er ekki algeng snjókomuátt, en mælingar á úrkomu sýna að hún er líka langt í frá á vera alveg þurr.  En eins og áður segir hefur ekki hlaupið úr skálinni svo vitað séð. Hins vegar er það sjálfsögð varúðarráðstöfun að setja leiði- eða varnargarð ofan Hornbrekku og auðveldara um vik nú en oft áður þegar gnægð hentugs efnis fellur nú til við borunina yfir í Héðinsfjörð.  

Ólafsfjörður, rýmingarkortÓvæntustu snjóflóðin koma líka með löngu millibili, það segir sig sjálft. Jón Konráðsson sagði líka í fréttinni: „Maður hefur aldrei séð nein flóð fara þarna með þessum hætti," segir Jón og telur að komandi snjóflóðavarnargarður hafi sannað tilveru sína."

Rýmingarkortið hér til hliðar er útgefið 2007.  Bærinn Hlíð er efst í hægra horni og Hornbrekka stóra bygginginn í útjaðri bæjarins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eins og góður skólabróðir minn sagði eitt sinn: "Það, sem aldrei hefur komið fyrir, getur hæglega endurtekið sig!". Heimildir um snjóflóð eru takmarkaðar, utan þar sem þau hafa valdið verulegu eignatjóni, eða þá manntjóni og það ekki einu sinni víst að allar sagnir um slíkt hafi varðveist. Svo bætist við að nú er öll umferð og ferðahættir fólks með svo gjörólíkum svip að bara þegar ég var ungur gat maður ekki getið sér til um hverjar breytingar yrðu á því hvernig fólk ferðaðist að vetri til, auk þess sem margar byggingar og önnur mannvirki hafa verið sett niður á stöðum og svæðum, þar sem snjóflóðahætta er virk. Það er því aldrei of varlega farið við mat á hættum og menn eru oft óþarflega gjarnir á að fullyrða um að hættur séu ekki fyrir hendi, ef þeir sjálfir hafa ekki upplifað þær.

Þorkell Guðbrands (IP-tala skráð) 18.3.2009 kl. 21:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 50
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 46
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband