Vorlegar hitatölur

Ekki er hægt að segja annað en að umskiptin séu veruleg í veðrinu frá snjóum og stormum síðustu vikna.  Nú hefur hlýnað svo um munar.  Heldur haustleg þokan grúfir yfir sunnanlands á meðan hitinn skoppar yfir 10°C bæði á Akureyri og Hallormsstað

Sjálft vorið er þó ekki á ferðinni, heldur má frekar segja að heittemprað Atlantshafsloft hafi komið í óvænta en heldur stutta heimsókn hingað norðureftir, því veturinn mun aftur banka upp á um helgina.

Hitaspákort kl.14 á morgun 19. mars 2009 Enn er að hlýna til morguns og fróðlegt verður að sjá hve hitinn fer hátt þar sem hlýjast verður fyrir norðan og austan á morgun, fimmtudaginn 19. mars.  Í fyrravetur náði hiti 12,3°C á Dalatanga snemma í mars.  Ég held að það verði enn hlýrra nú.  Ekki ólíklega verður 13 til 14°C þar sem hlýjast verður á morgun. Frekar hægur vindur á sama tíma og sól verður hæst á lofti vinnur reyndar gegn þeirri spá, því forsenda óvenjulegra hlýinda að vetri er snarpur vindur sem færir milt loftið ofan úr hærri loftlögum handan hárra fjalla.

Hæsti hiti sem mælst hefur í marsmánuði er 18,3°C, þ.28. mars 1947 á Sandi í Aðaldal. Eins og fram kemur í umfjöllun Sigurðar Þórs Guðjónssonar, er þetta hitamet jafnframt elsta mánaðarmetið sem enn stendur.  Ekki mátti miklu muna fyrir tveimur árum, þ.e. 2007 síðasta dag mánaðarins.  Hitinn fór lítið eitt hærra það var um nóttina og þá líka kominn 1. apríl. 

Austanlands, og þá einkum niðri á fjörðunum verða samkvæmt spám nokkuð ákjósanlegar aðstæður til að kreista út háan hita snemma á föstudaginn, eða skömmu áður en kuldaskil koma úr vestri.  Þá verður nokkur vindur (SV-átt), úrkoma vestantil og því viðbótarvarmi í hnjúkaþey.  Hitinn í efri lögum einnig afar hagfelldur og líkist allur aðdragandi svipaðri hitabylgju 28. mars árið 2000, en þá fór hitinn á sjálfvirkri stöð á Eskifirði í 18,8°C.

Ég er samt frekar á því að hitamet verði ekki slegin að þessu sinni.  Til þess vantar aukna dýpt í hlýindin og síðan munar nokkuð um þessa viku til tíu daga á sólarhæð miðað við lok mánaðarins og getur sólin vissulega gert útslagið á endanum. Þó þarf það alls ekki að vera, sé vindur til að mynda nægjanlegur og stöðugleiki loftsins heppilegur fyrir niðurdrátt milda loftsins að ofan sem fyrir vikið hlýnar um 1°C á hverja 100m.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 50
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 46
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband