5.5.2009
Mynd Jóns Inga úr Fnjóskadal
Meðfylgjandi mynd sem fengin er úr myndasafni Jóns Inga Cæsarsonar er tekin í Fnjóskadal 3. maí eða síðasta sunnudag. Þessi litla mynd segir ansi stóra sögu. Ég geri ráð fyrir að staðið sé í Dalsmynni og horft í suðausturátt, þar sem Kinnarfjöllin bera við himinn nánast alhvít.
Áin hefur rutt sig, en enn mátti þá sjá íshrannir í farveginum. Mestallan snjó hefur tekið upp á láglendi. Sjá má tún á norðurbakkanum sem orðið er iðjagrænt, það snýt vel mót sólu. Allur úthagi er hins vegar enn heiðgulur eða móbrúnn. Snjóskaflar sitja enn í Skessuhryggnum (til vinstri), hann nýtur almennt séð dálítils úrkomuvars í NA-áttinni. Leysing er hins vegar vart hafin enn að nokkru ráði í Kinnarfjöllum.
Vatnasvið Fnjóskár er gríðarvíðfemt, eða um 1700 ferkílómetrar þegar stærri þverár eru meðtaldar. Vatnasviðið nær jafnt til snjóþungra fjalla sem og heiðardraga langt inn á hálendið þar sem allmikill snjór er alla jafna eftir veturinn.
Þó svo að áin sé búin að ryðja sig og bakkar hennar verða senn grænir geta enn verið nokkrar vikur í hið eiginlega vorflóð Fnjóskár. Það gerist ekki fyrr en í kjölfar alvöru leysingar til fjalla. Danski verkfræðingurinn sem fenginn var til að stýra smíði gömlu bogabrúarinnar yfir Fnjóská 1908 þekkti ekki til kenja hennar. Búið var að reisa timburgrind yfir ánna, þegar vorflóðið náði hámarki upp úr 17.júní það ár og sópaði öllu byggingarefninu í burtu.
En sú saga öll er bæði löng og merkileg og verður ekki rakin hér frekar.
Flokkur: Fallegar myndir | Breytt 26.8.2009 kl. 13:24 | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 14
- Sl. viku: 49
- Frá upphafi: 1788782
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 47
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Einnig svakalega snjóþungt í Flateyjardalnum þarna rétt hjá.
Var annars einu sinni í Höfðahverfi í fríi á 17 júní. Það snjóaði þá! Man ekki hvaða ár reyndar.
Ari (IP-tala skráð) 6.5.2009 kl. 22:20
Það hefur verið 1979
Jóhann Grétar Kröyer Gizurarson (IP-tala skráð) 9.5.2009 kl. 22:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.