9.5.2009
Kuldakastið nú miðað við fyrri ár
Það er nánast árvisst að fá alvöru hríð og fannfergi í maí á norðanverðu landinu. Stundum meira að segja talsvert seinna en nú er. Hríðar á þessum árstíma eru hins vegar að mörgu leiti verri en þær sem gerir t.a.m. um páska þar sem vegfarendur eru flestir búnir að skilja við snjó- og vetrarhugarfarið ef svo má segja. Bílar flestir komnir af vetrar- og nagladekkjum í samræmi við tilmæli þar um. Sama má segja um Vegagerðina enda reglubundnum vöktum vetrarþjónustu lokið. Þó vissulega fylgist Vegagerðin vel með og útvegi tæki til hreinsunar og hálkuvarna gerist þess þörf. En samfélagið er bara komið í annan þankagang þegar snjó hefur að mestu tekið upp (á láglendi) og sterk sólin farin að ylja á daginn.
Í fyrra (2008) var maí nokkuð óvenjulegur því hann var hretalaust með öllu, þannig að eftir því var sérstaklega tekið.
2007 gerði hret rétt fyrir hvítasunnu sérstaklega 24.-25. maí. Reyndar var heil vika frekar köld um þetta leiti.
2006 setti óvenjumikinn snjó niður í útsveitum norðanlands, mældist hann víða í tugum sentímetra. Kom hann flestum gjörsamlega í opna skjöldu enda gróður kominn vel á veg. Um þennan viðburð má lesa hér og hér.
2005 var í heild sinni kaldur um land allt. Eilífar N-áttir og næturfrost. Maí þetta ár var sá kaldasti á Akureyri í 10 ár.
2004 var kalt framan af, en síðan hlýnaði. Nokkuð eðlileg vorframvinda það árið.
2003, þá var fyrsta vikan mjög köld, hálfgert vetrarveður á landinu einkum 2. til 4. Það hret kom í kjölfar eins alhlýjast apríl mánaðar í sögu mælinga.
Meginflokkur: Veðurfar á Íslandi | Aukaflokkur: Veðuratburðir hér og nú | Breytt 26.8.2009 kl. 13:23 | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 10
- Sl. sólarhring: 12
- Sl. viku: 60
- Frá upphafi: 1788778
Annað
- Innlit í dag: 10
- Innlit sl. viku: 56
- Gestir í dag: 10
- IP-tölur í dag: 8
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Sæll. Í fyrra kom norðan skot með snjókomu á þessum sama tíma og núna hér í Vatnsdalnum. Eg er sauðfjárbóndi og man það vel hvað ég hafði miklar áhyggjur af lambánum mínum, og rak þær allar á hús. Mig minnir að hretið hafi komið þ. 9. maí í fyrra, skeikar e.t.v. 2 dögum til eða frá.
Kv; Jón Gíslason Hofi
Jón Gíslason (IP-tala skráð) 10.5.2009 kl. 00:22
Þeir sem búa á landsbyggðinni eiga ekki að fara eftir þessum tilmælum að skipta yfir á sumardekk á þeim degi sem sagt er. Ég bý á norðurlandi og tek nagladekkin aldrei undan fyrr en í lok maí og þó svo að ég sé búinn að vera í rúma viku á höfuðborgasvæðinu þá keyri ég á mínum nöglum því ég vel frekar öryggið á heimleið. Það á að breyta þessari dagsetningu úr 15 apríl eins og nú er í 30.mai því veturinn er ekki búinn þó að sumardagurinn fyrsti sé liðinn.
Þórður Ingi Bjarnason, 10.5.2009 kl. 08:41
Skv. veðurbókinni minni var föstudagurinn fyrir hvítasunnu í fyrra kaldastur og aðfararnótt laugardagsins. Þegar leið á laugardaginn hlýnaði. Föstudagurinn var sumsé 9.5. og hvítasunnudagurinn þá sá 11.5. - Ég sé líka í fyrrnefndri bók, að ég hef í fyrsta skipti það vorið orðið var við spóann þ. 8.5., en núna í vor heyrði ég fyrst í honum 1.5.
Svona til skýringar, þá skrái ég í veðurbókina veðurathugun kl. 06:00 að morgni og aftur kl. 21:00 að kvöldi. Svo er stutt lýsing á því hvernig veður þróast yfir daginn, því þá er ég lengst af í vinnunni (ennþá!) eins og flestir. Einnig hef ég oftast skráð þegar ég hef orðið var við farfugla á vorin, hverja tegund fyrir sig af þessum algengustu og háværustu, svo sem gæsir, lóu, spóa, jaðrakan og kríu. Kríuna hef ég ekki orðið var við enn í vor.
Þorkell Guðbrands (IP-tala skráð) 10.5.2009 kl. 17:04
Má til að bæta því við að krían kom hingað norður í nótt, aðfararnótt mánudags 11.5.
Þorkell Guðbrands (IP-tala skráð) 11.5.2009 kl. 04:34
Fyrir Norðlending sem er eldri en tvævetur var þetta vorhret ekki sérlega svæsið. Í Reykjadal snjóaði mikið á föstudegi en stytti svo upp með blíðviðri. Sá sem þetta ritar var að gróðusetja tré við sólskin og fulgasöng niður um ökkladjúpa fönn á laugardeginum, afar sérkennileg lífsreynsla!
Áskell Örn Kárason (IP-tala skráð) 11.5.2009 kl. 09:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.