SA-brim með allri ströndinni

Á meðfylgjandi Terra-mynd MODIS sem tekin var laust eftir hádegi í dag sést ýmislegt sem rétt er að staldra við eftir að menn hafa dáðst af henni svona almennt séð.

Iceland.2009134.terra.250m

 

a.  Í SA-strekkingnum sem íbúar Suður og Suðvesturlands hafa ekki getað annað en fundið fyrir, hefur löng úthafsaldan verið að skella á ströndinni frá Reykjanestá í vestri austur að ósum Hornafjarðarfljóts.  Brimskaflarnir sjást afar vel sem hvít lína, og gerum við ráð fyrir að þér séu einnig undir skýjalaginu sem var þarna yfir Mýrdal og þar um slóðir.  Ölduhæðin var svo sem ekkert sérstök um 4 m á duflinu við Surtsey, en hana ber langt að og er hún því þung.  

b.  Vel má greina sandstrók frá Landeyjasandi meðfram ströndinni og áfram inn á land.  Má með góðum vilja fylgja honum til norðvesturs fyrir norðan Reykjavík, yfir Esjuna og Kjalarnesið.  Fínasta efnið er farið og heldur grófara fylgir nú fokinu.  Mistur var greinilegt í dag og svifryk í lofti í Reykjavík sem ekki var að þessu sinni hægt að kenna umferðinni um.

Þetta SA-loft er fremur þurrt, svona ef mið er tekið af upprunanum.  Um miðjan daginn var rakastigið á mæli í Þykkvabæ 60-65%, en er vanaleg gildi fyrir loft af hafi þarna er 85-95% og oftar þó nær efri gildunum.  Rakastigið var síðan inni í landi 50-55% t.d. á Kálfhóli á Skeiðum á sama tíma. Þessi gildi rakans sér maður frekar í kaldri N-átt.  Ekki þarf að efast um það að selta í lofti á sinn hlut í mistrinu og svifrykinu, en saltið verður eftir í loftinu þegar sjávarlöðrið gufar upp í briminu og  í þetta þurru lofti.

c.  Að síðustu er merkilegt að sjá að snjór virðist enn vera nánast niður í fjöru á Ströndum á milli Bjarnarfjarðar og Reykjafjarðar, svo ekki sé talað um norðar á Hornströndum.  Hafa ber í huga að á þessum slóðum eru fjöllin víða snarbrött alveg í sjó fram og takmarkað undirlendið sem vissulega er snjólaust kemur því ekki fram á myndinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Takk fyrr þetta Einar.

Mjög athyglisvert að skoða.

kv.Guðrún María.

Guðrún María Óskarsdóttir., 14.5.2009 kl. 23:33

2 identicon

Vindstrekkingurinn datt niður hér í gær, var komin gamalkunnug hafgola um hádegi, sem lægði svo um kvöldmatarleytið. Við sólarupprás var hinsvegar komin "skarðagola", kaldur vindur hér ofan úr Gönguskörðum, sem við þekkjum vel sem búum hér um slóðir. En annað var það, sem meira bar á, en það var gulleitt mistur, sem ekki hefur orðið vart við hér undanfarið, þrátt fyrir SA átt í háloftum. Ég sé skyggnið að vísu ekki núna þar sem ég sit í vinnunni, en ég mat skyggnið 20 km þegar ég var að skrá í veðurbókina mína í morgun. Er það þó trúlega fremur ofmat en vanmat. Á myndinni hér fyrir ofan vekur athygli mína, að snjólaust er orðið á heiðunum suður af Húnaþingi, suður að undirfjöllum Langjökuls. Sama má segja um heiðarnar beggja vegna Blöndu.

Þorkell Guðbrands (IP-tala skráð) 15.5.2009 kl. 06:40

3 identicon

Svifryks-"mengunin" á höfuðborgarsvæðinu er þá, þegar öllu er á botninn hvolft, ekkert annað en gamalkunnugt vandamál sem fylgt hefur búsetunni í landinu undanfarnar ellefu aldir: vindrof og jarðvegseyðing. "Iðnaðarmengun frá Evrópu" á hér enga sök í þessu máli.

Áður fyrr töluðu menn um það sem umhverfisvandamál (og raunar stærsta umhverfisvandamál sem Ísland ætti við að etja), að landið "væri að fjúka burt". Nú heyrist mér sem orðræðan snúist fremur um afleiðingar gamla umhverfisvandans: að burtfokinn jarðvegur (="svifryksmengunin") valdi höfuðborgarbúum öndunarfæraerfiðleikum og heilsutjóni.

Aðalsteinn Sigurgeirsson (IP-tala skráð) 15.5.2009 kl. 14:55

4 identicon

Það er víðar pottur brotinn í þessum efnum, m.a. í vesturríkjum BNA:

Climate change, water shortages conspire to create 21st century Dust Bowl

http://forests.org/shared/reader/welcome.aspx?linkid=127490

Aðalsteinn Sigurgeirsson (IP-tala skráð) 15.5.2009 kl. 15:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 50
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 46
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband