Frysti á Þingvöllum í nótt

Þingvellir_RagnarThÞingvelir, hiti og daggarmarkÁ Þingvöllum frysti í skamma stund undir morgun  eins og sjá má á meðfylgjandi hitalínuriti.  Þetta er mikil dægursveifla hitans, því hámarkshitinn í gær reyndist 19,5°C (náði ekki 20 stigum eins og lesa mátti í Fréttablaðinu í morgun - hæpið að námunda upp í 20 þegar mælt er í tíunduhlutum !). 

Fyrir þremur árum, eða 9. maí 2006 mældist hæsti hiti á Þingvöllum í maí.  Hámarkið fór þá í 22,3°C.  Það breytti því ekki að um nóttina á eftir frysti.  Þurr svörðurinn og ekki síður lágt rakainnihald loftsins eiga stærstan þátt í því hversu hröð útgeislunin er yfir nóttina og hitafallið skarpt.  Ég hef stundum hér líkt þessu við eyðimerkurásstand, en þar er vissulega ekki miklum loftraka til að dreifa.   Sjá má á línuritinu að daggarmark loftsins hefur verið um 0°C síðasta sólarhringinn.  Það er lágt fyrir loft sem er þetta hlýtt og suðrænt að uppruna. Enda var rakastigið suðvestanlands um miðjan daginn í gær innan við 30%.  Rakt loft, svo ekki sé talað um vatnsgufu og  smágerða dropa í lægri skýjum veita útgeislunarviðnám í formi gróðurhúsaáhrifa. Vatnsgufa er einmitt langmikilvægasta gróðurhúsalofttegundin.

Annars mældist mesta frostið á láglendi liðna nótt  -3,7°C  við Gauksmýri í Húnaþingi.  Kalt var við jörð víðar vestantil á Norðurlandi, t.a.m frysti einnig á Blönduósi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það hefur fryst við jörð hér í Skagafirði undanfarnar tvær nætur, þótt hiti í 2ja metra hæð hafi ekki farið niður fyrir frostmark. Við vorum í bústaðnum okkar aðfararnótt sunnudagsins, en upp úr kl. 06:00 um morguninn á þjóðhátíðardegi norðmanna var hélað á jörð og vel frosið á bílrúðum og -þökum. Þar hef ég ekki nógu áreiðanlegan hitamæli. Hér á Króknum var hélað á bílum milli þrjú og fjögur í morgun, en sólin kom upp yfir austurfjöllin hér um kl. 04:01 í morgun. Eftir það fór fljótt að hlýna. Hafgolan hefur verið mjög "intensive" hér í dag og gær og hefur svo breyst í snarpa Skarðagolu með kvöldinu, báða dagana. Þá kembir þokubólstra hér ofan í Gönguskörðin og hitinn verður oft ansi lágur og kælingaráhrifin því talsverð.  

Þorkell Guðbrands (IP-tala skráð) 18.5.2009 kl. 21:06

2 Smámynd: Kommentarinn

Þó að nákvæmni mælinganna sé í tíundahlutum þá held ég að flestum sé sama hvort hitinn sé 19,5 eða 20 og því ekkert að því að vera pínu bjartsýnn og segja að hitinn sé 20°C. Ef mælt væri í hundruðustu hlutum myndi enginn nenna að segja að hitinn væri 19,56°C

Kommentarinn, 19.5.2009 kl. 00:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 50
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 46
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband