Fred Goldberg

fredgoldberg.jpgSótti í dag (föstudag, 29.maí) fyrirlestur hjá Fred Goldberg, sem er sænskur loftslagsefasemdarmaður.  Goldberg er ágætlega þekktur hér á landi og hefur verið duglegur að halda fram sjónarmiðum sínum sem ganga aðallega út á það að sveiflur í loftslagi verða að mestu skýrðar með náttúrulegum ferlum og aukin losun koltvísýrings skipti þar litlu.  Ég verð að segja strax að ég hafði gaman af þessum fyrirlestri Fred Goldberg.  Hann sýndi í dag margar myndir úr loftslagssögu síðustu 1.000 til 1.500 ára, en Goldberg var líka hæfilega ósvífinn á sinn hátt, ekki ólíkt Al Gore alveg í hina áttina einmitt í næsta húsi á Háskólalóðinni fyrir réttu ári síðan. 

Goldberg er einn ötulla efahyggjumanna um áhrif mannsins á loftslagsbreytingar, en hann eins og svo margir sem horfa á þessi mál alveg frá annarri hliðinni, virka á mann líkt og trúboðar. Kenningin er boðuð líkt og um  algildan sannleik sé að ræða.

Ég ætla að nefna þrjú atriði sem mér þótti orka tvímælis í fyrirlestri Goldbergs:(þau voru fleiri)

2s01m5y.jpg1. Sýnt var línurit yfirhnattrænar hitabreytingar frá árinu 1850 (sbr. mynd)  Goldberg hélt fram að ástæðu hlýnunarinnar frá því um 1980 mætti rekja til borgarvæðingar (urban effect) helstu mælistaða sem notaðir eru til viðmiðunar. Þetta er gömul mýta.  Búið er að leiðrétta þessar helstu hitaraðir fyrir aukinni varmagleypni sem af malbiki og húsþökum hlýst.

2. Dregið er í efa að áhrif koltvísýrings á gróðurhúsaáhrifin væru marktæk yfir höfuð. Setti upp það reikningsdæmi að af 10.000 mólikúlum lofthjúps hafi 3 verið CO2 en þau væru nú 4 talsins. "Það segir sig sjálft að þetta skiptir ekki sköpum"  Engin tilraun var gerð til þess að útskýra ólíkt geislunarnæmi lofttegunda nema þegar var minnst á vatnsgufu og hún sögð vera afgerandi sem gróðurhúsalofttegund (sem er rétt). Hún útilokar hins vegar ekki áhrif koltvísýrings.

3. Goldberg lítur á breytingar í losun GHL og tengir við hnattrænar hitasveiflur alveg ofan í ár og mánuði.  Loftslagsbreytingar til lengri tíma eru óháðar því sem er að gerast á milli einstakra ára.  IPCC getur kannski kennt sér um þar sem mikið er gert með einstök ár, sem eru hlý.  Það er engan veginn marktækt að segja að hlýnun hafi stöðvast þar sem hitinn sé ekki jafn hár og hann var fyrir nokkrum árum síðan. Sveiflur eru miklar af náttúrlegum orsökum og bera verður saman einstaka "botna" og "toppa" og sjá þannig þróun til lengri tíma.

Í lok fyrirlestursins tókust þeir nokkuð á, þeir Goldberg og Halldór Björnsson af Veðurstofunni.  Athyglisvert þótti mér að sjá viðbrögð Fred Goldberg við mörgum aðfinnslum Halldórs.  Goldberg sagðist oft hafa heyrt eitthvað svipað frá fólki á vegum IPCC og þar með væru mótrökin eða aðfinnslurnar ekki svaraverðar !! Undarleg afstaða vísindmanns verð ég að segja.....


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Sæll Einar.

Ég hlustaði á Dr. Fred Goldberg síðastliðið haust og kann vel að vera að hann hafi verið "hæfilega ósvífinn á sinn hátt, ekki ólíkt Al Gore alveg í hina áttina". Ekki veitir af, svo ótrúlega einhliða hefur umræðan verið. Auðvitað er ekki gott þegar menn fara einhvers staðar yfir strikið, en þegar ég hlustaði á Goldberg á sínum tíma kom hann viða við og fjallaði um margt af skynsemi. Þó hann sé ekki loftslagsfræðingur, þá hefur hann haldgóða menntun í eðlisfræði, sem Gore hefur alls ekki.

Annars held ég að best sé að bíða í fáein ár með allar fullyrðingar með og á móti. Ef hitahækkunin á síðustu öld er að mestu leyti af náttúrunnar völdum, þá er vel hugsanlegt að staðfesting á því fáist á næstu árum, því ýmislegt bendir til þess að virkni sólar fari núna verulega fallandi. Komi það nú í ljós að öll hitahækkun síðustu aldar gangi til baka á næstu einum til tveim áratugum, og það í takt við minnkandi virkni sólar... Hvaða ályktun munum við þá draga af því?

Sjálfsagt er best að fylgjast með því sem náttúran virðist vera að gera um þessar mundir og forðast miklar yfirlýsingar.

NOAA var að senda frá sér spá um sólsveiflu 24. Þeir spá sólblettatölunni 90 í maí 2013.

Sjá: http://www.spaceweather.com/headlines/y2009/08may_noaaprediction.htm

"The panel predicts the upcoming Solar Cycle 24 will peak in May 2013 with 90 sunspots per day, averaged over a month. If the prediction proves true, Solar Cycle 24 will be the weakest cycle since number 16, which peaked at 78 daily sunspots in 1928, and ninth weakest since the 1750s, when numbered cycles began......The panel also predicted that the lowest sunspot number between cycles—or solar minimum—occurred in December 2008, marking the end of Cycle 23 and the start of Cycle 24. If the December prediction holds up, at 12 years and seven months Solar Cycle 23 will be the longest since 1823 and the third longest since 1755. Solar cycles span 11 years on average, from minimum to minimum".

Reyndar hefur mönnum gengið illa að spá fyrir um sólsveiflur, og eru menn alls ekki á einu máli. Menn eru ekki einu sinni vissir um hvort sólsveifla #24 sé raunverulega hafin eða hvort við séum enn á botninum. Vissulega hafa sést fáeinir litlir sólblettir annað slagið sem tilheyra sveiflu #24, en annað slagið sjást einnig blettir sem tilheyra gömlu sveiflunni #23.

Sjá umfjöllun á vefsíðu NASA:
http://science.nasa.gov/headlines/y2009/29may_noaaprediction.htm

""In our professional careers, we've never seen anything quite like it," says Pesnell. "Solar minimum has lasted far beyond the date we predicted in 2007."....."Go ahead and mark your calendar for May 2013," says Pesnell. "But use a pencil."" (Eins gott að nota blýant því spáin er sífellt að breytast).

Eins og sjá má á vefsíðunni Lunds Space Weather Center, þá er mikil dreifing í spádómum þeirra vísindamanna sem best eiga að þekkja til málsins: http://www.lund.irf.se/rwc/cycle24/

Við lifum á spennandi tímum. Það er full ástæða til þess að fylgjast með því hve mikil áhrif minnkandi virkni sólar mun hafa á hitafar lofthjúps jarðar (og reikistjarnanna). Vel getur verið að við þurfum ekki að bíða lengi.

Sólin í dag er gjörsamlega laus við sólbletti (smella á mynd):

 

Ágúst H Bjarnason, 30.5.2009 kl. 09:14

2 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Sæll Ágúst

Rannsóknir benda ekki til að sólin sé í aðalhlutverki þegar kemur að því að útskýra hlýnun undanfarina áratuga. Hér og hér eru ágætis greinar þar sem gerðar eru tilraunir til að útskýra þetta. Í stuttu máli þá er hin mælanlega sveifla í TSI (Total Solar Irradiance) ekki það mikil að það geti útskýrt þá hlýnun sem við upplifum í dag. 

Persónulega finnst mér engin ástæða til að bíða með aðgerðir. Þær aðgerðir geta falist í því m.a. að nota þá tækni sem er til staðar í dag á skilvirkari hátt en gert er og einnig er hægt að ná markmiðinu (minnkun losunar koltvíoxíðs) að hluta til með breyttu hugarfari.

Með sólarkveðju,

Sveinn Atli Gunnarsson, 30.5.2009 kl. 13:35

3 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Sveinn Atli.

Þetta á allt eftir að koma í ljós. Við skulum gæta okkur á því að fullyrða ekki of mikið :-)    Það er margt annað en TSI sem gæti skýrt samhengið milli breytinga í sólinni og hitafars.   

Ágúst H Bjarnason, 30.5.2009 kl. 15:23

4 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Ég vildi bara benda á að helstu rannsóknir loftslagsvísindamanna benda ekki til þess að sólin hafi haft þau áhrif sem útskýra þá hlýnun sem orðið hefur á síðustu áratugum, engar fullyrðingar falldar í því

Til frekari upplýsingar þá er t.d. hægt að skoða bls. 188 og áfram í AR4-skýrslu vinnuhóps 1 hjá IPCC þar sem komið er inná þátt sólarinnar og hvaða mælingar búa að baki

Sveinn Atli Gunnarsson, 30.5.2009 kl. 18:49

5 identicon

Varðandi áhrif sólar á veðurfar þá er það rétt að útslag TSI breytinga á síðustu áratugum er ekki slíkt að það útskýri hlýnunina (sjá IPCC heimildir Atla hér að ofan).  Hinsvegar er líklegt að stórar breytingar á við t.d. Maunder skeiðið hafi haft merkjanleg áhrif til kælingar. Áhrifin á meðalhita jarðar eru líklega um þriðjungur úr gráðu en svæðisbundin áhrif geta verið mun stærri. Þetta er stutt bæði af athugunum og líkanreikningum [1,2].

Í tilefni þessa finnast mér áhugaverðar spár um algjört lágmark í sólblettatölu á komandi árum (amk síðan á Maunder). Það virðist nefnilega að minnkun í geislunarálagi vegna þessa sé mun minni en sú aukning sem fylgt hefur vexti gróðurhúsalofttegunda síðan um iðnbyltingu. Samkvæmt þessu myndi nútíma-Maunder því ekki duga til þess að koma okkur á aðra litla ísöld. Hvort nútíma Maunder sé í uppsiglingu er svo annað mál og rétt að best sé að fullyrða ekkert um slíkt.

Varðandi  erindi Goldbergs þá þýðir ekki að sýta það að hann hafi ekki haft áhuga á að svara efnislega athugasemdum mínum, enda voru þær margar (þó ég ætti fleiri eftir á listanum mínum...).

Það sem situr eftir er þó að hann dró í efa að meðalhitaraðir væru réttar  (mengaðar af borgarvæðingu), síðan sagði hann hreint út að sýrustig  sjávar gæti ekki breyst (vitnaði í grein um óendanleg dúaáhrif sjávar frá 1970). Í fyrirspurnum fullyrti hann að súrefnismagn í lofthjúpnum væri alls ekki að minnka (sagði að þetta hefði verið eitthvað rugl í  Bert Bolin, en sá heiðursmaður dó nýlega í hárri elli). 

Mér hefur alltaf þótt bestu mótrökin gegn borgarvæðingartilgátunni vera kort sem sýnir hlýnun undanfarna áratugi. Slík kort sýna að hlýnunin er ekki mest yfir borgarsvæðum. Það má sjá slík kort í skýrslu vinnuhóps 1 hjá IPCC, og einnig má búa þau til á vefþjónum  (sjá t.d. http://data.giss.nasa.gov/gistemp/maps/).  Það er rétt að borgarstöðvar sýna oft hlýnun tengda uppbyggingu/trjávexti oþh. í umhverfi stöðvarinnar, en slíkum stöðvum má einfaldlega sleppa í við útreikninga meðaltala. Einnig má benda á hlýnun sjávar í þessu samhengi.  

Bæði þetta með PH gildið og súrefnið eru hreinar mæliniðurstöður. Þessar mælingar eru gerðar víða (m.a. við Ísland)  og furðulegt að detta í hug að þær séu allar gabb. Erfitt að sjá fyrir sér hvernig hægt væri að viðhalda slíku samsæri.

 Halldór

[1] Shindell, D.T. ofl  2001: Solar forcing of regional climate change during the Maunder Minimum. Science, 294 (http://pubs.giss.nasa.gov/docs/2001/2001_Shindell_etal_1.pdf) 

[2] Shindell, ofl. , 2003: Volcanic and solar forcing of climate change during the preindustrial era. J. Climate, 16, 4094-4107, (http://pubs.giss.nasa.gov/docs/2003/2003_Shindell_etal_2.pdf)

Halldór Björnsson (IP-tala skráð) 30.5.2009 kl. 20:51

6 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Sælir

Bara smá innlegg í umræðuna milli þess sem ég er að dunda mér við að pota niður plöntum...

Í tímaritinu JGR (Journal og Geophysical Research)var 4. nóvember s.l. ritrýnd grein sem nefnist "Using the oceans as a calorimeter to quantify the solar radiative forcing". Sjá hér http://www.agu.org/pubs/crossref/2008/2007JA012989.shtml

Í samantektinni stendur:

Over the 11-year solar cycle, small changes in the total solar irradiance (TSI) give rise to small variations in the global energy budget. It was suggested, however, that different mechanisms could amplify solar activity variations to give large climatic effects, a possibility which is still a subject of debate. With this in mind, we use the oceans as a calorimeter to measure the radiative forcing variations associated with the solar cycle. This is achieved through the study of three independent records, the net heat flux into the oceans over 5 decades, the sea-level change rate based on tide gauge records over the 20th century, and the sea-surface temperature variations. Each of the records can be used to consistently derive the same oceanic heat flux. We find that the total radiative forcing associated with solar cycles variations is about 5 to 7 times larger than just those associated with the TSI variations, thus implying the necessary existence of an amplification mechanism, although without pointing to which one.

Hægt er að nálgast greinina alla til dæmis hér.

Fjallað er um greinina t.d. hér  og hér.

Ágúst H Bjarnason, 31.5.2009 kl. 07:33

7 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Í framhaldi af síðasta innleggi bendi ég á stutta frétt af Science Daily vefnum frá 3. des. 2008 sem ég hef verið dálítið hugsi yfir. Þar er fjallað er samband á milli segulvirkni sólar (sun’s magnetic field) og veðurfars, aðallega þó á Southern Oscillation Index (El Ninjo & Co.) og þurrka í Ástralíu. Án þess að ég hafi nægjanlega þekkingu til að meta það þá grunar mig oft að áhrif sólarinnar felist í hafinu, þótt þetta skýri kannski ekki hlýnun jarðar í heild sinni.

„The sun’s magnetic field may have a significant impact on weather and climatic parameters in Australia and other countries in the northern and southern hemispheres. According to a study in Geographical Research, the droughts are related to the solar magnetic phases and not the greenhouse effect.“

Meira hér: http://www.sciencedaily.com/releases/2008/12/081202081449.htm

Emil Hannes Valgeirsson, 31.5.2009 kl. 12:24

8 Smámynd: Sveinn Atli Gunnarsson

Það er komið inná SOI í skýrslu WG1 hjá IPCC (bls. 287-288). Þar er m.a. sagt að þörf sé á frekari rannsóknum á ENSO (El Niño-Southern Oscillation) fyrirbærinu.

Orðrétt úr skýrslunni:
"Thus, whether observed changes in ENSO behaviour are physically linked to global climate change is a research question of great importance."

Sveinn Atli Gunnarsson, 31.5.2009 kl. 17:36

9 Smámynd: Loftslag.is

Leitt að missa af þessu - en einhvern vegin efast ég um að rétt sé að bera saman Goldberg (sem hunsar rannsóknarniðurstöður - samanber það sem Halldór segir hér fyrir ofan) saman við Gore sem byggir þó sínar niðurstöður á traustum vísindalegum grunni (sem vissulega á það til að ýkja).

En takk fyrir þetta Einar - fróðlegt.

Loftslag.is, 1.6.2009 kl. 23:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 7
  • Sl. sólarhring: 10
  • Sl. viku: 55
  • Frá upphafi: 1788788

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 51
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband