26.7.2009
Síðdegisskúrir í kalda loftinu
Í dag laugadag ók ég skömmu eftir hádegi sem leið lá úr bænum rakleiðis upp í Borgarfjörð. Stefnan var sett á Norðurárdal og ætlunin var að ganga á hina svipmiklu Hraunsnefsöxl. Strax undir Hafnafjalli sást vel að bólstrar voru farnir að vaxa nokkuð um allt Borgarfjarðarhérað og yfir fjöllunum upp af Langavatni eða þar um slóðir mátti sjá skúr í lofti. Þrátt fyrir óstöðgleika í lofti í gær mynduðust ekki verulegir bólstrar. Í dag var loftið greinilega aðeins rakara hið efra, kannski vegna þess að að vindur í 1000-3000 metra hæð var nú orðinn SV-stæður og meðferðist aðeins rakara loft af hafi í því lagi.
Þegar lagt var í hann frá ferðaþjónustunni á Hraunsnefi var enn sól í lofti og ylinn lagði frá jörðinni. Á að giska um 15°C sem kemur heim og saman við mælingu á stöðinni á Litla-Skarði þar nokkru sunnar. Uppgangan var tiltölulega auðveld og tók ekki langa stund. Af Hraunsnefsöxlinni í tæplega 400 metra hæð var fagurt útsýni til suðurs og austurs og mátti jafnframt sjá hellidembur allt í kring. Skyndilega andaði köldu og gerði blástur úr norðvestri í stað SA-andvarans sem verið hafði. Skömmu síðar féllu nokkrir stórir dropar, en ekki náði á blotna að ráði enda var Öxlin í jaðri einnar skúrinnar. En hins vegar kólnaði hastarlega um leið og dropaði.
Á Litla-Skarði féll hitinn frá kl. 14 til 16 niður í 7°C (úr 14 stigum) og þó rigndi þar sama sem ekki. Ég er vissum að í um 350 metra hæð þar sem ég var stóð hafi kólnað niður í um 4 til 5°C enda varð maður strax loppinn á höndunum.
Ástæður þess hve hratt kólnar um leið og úrkoma fellur úr skúraskýi eru einkum tvíþættar: Í fyrsta lagi kemst aukin hreyfing á loftið, það hlýja við yfirborð blandast efri loftlögum og lóðstreymi sér til þess að feykja kaldara lofti til yfirborðs. Háloftakuldinn var einmitt meiri í dag en vant er. Meira máli skiptir þó oftast sú uppgufun sem verður á fyrstu dropunum sem falla úr skýi niður um þurrara loftlag. Varminn sem fer í uppgufun regndropanna er tekinn úr loftinu og því kólnar strax um 2 til 3°C. Eftir að styttir upp fer hitinn oft áfram lækkandi um stund, þó svo að sólin taki að skína á ný. Þá er það vegna uppgufunar frá jörð í kjölfar dembunnar.
Tunglmyndin er frá því kl. 14:20 og bólstrahnapparnir sjást vel og þeir eru samvaxnir að verulegu leyti frá Bláfjöllum, yfir Mosfellsheiði og Esjuna. Þaðan áfram til norðurs og norðausturs. Bólstrarnir voru enn vaxandi yfir Mýrunum þegar myndin var tekin. Ekki náði að rigna í Veðurstofumælinn í dag, þó svo að litlu hafi eflaust munað.
Ljósmyndin af Hraunsnefsöxl er fengin frá HelguB og tekin í ágúst í fyrrasumar
Flokkur: Veðuratburðir hér og nú | Breytt 26.8.2009 kl. 13:04 | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 7
- Sl. viku: 50
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 46
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ég fagna hverjum regndropa sem fellur hér fyrir norðan (Akureyri), hér var allt að skrælna eftir langa þurrkatíð. Gróðurinn strax að ná grænum lit og sá guli að dofna eftir góða dembu í gærdag og í morgun. Vonandi fær gróðurinn vænar bunur úr lofti næstu daga. Ég treysti á að veðurfræðingurinn láti rigna næstu daga.
Páll A. Þorgeirsson, 26.7.2009 kl. 10:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.