10.8.2009
Dalalæðan er heillandi
Ég var á Þingvöllum undir kvöldið, þar sem Þingvallavatn skartaði sínu fegursta allt að því spegilslétt og sólin braust í gegn eftir nokkrar síðdegisdembur. Ég er ekki frá því að dulúð Þingvalla sé hvað mest á kyrrum ágústkvöldum, þó svo að hver árstíð þar hafi vissulega sinn sjarma.
Áður en sólin settist eða upp úr kl. 21 fann maður greinilega hvað jörðin döggvaði hratt og skömmu síðar mátti sjá þunna þokuslikjuna leggjast yfir kjarrið í dældum og lautum. Dalalæðan myndast gjarnan á kyrrum kvöldum eftir sólskinsdag, en rekja í lofti er samt nægjanleg til að fá fram þéttingu um leið og útgeislun jarðar nær yfirhöndinni.
Dalalæðan er eitt helsta teikn ágústveðráttunnar hér á landi. Vitanlega myndast hún fyrr um sumarið ef því er að skipta og eins fram eftir hausti sé nægjanlega hlýtt og stillt í veðri að deginum. Skarpt hitafallið skapar þessar aðstæður ásamt logninu sem gerir það að verkum að blöndun loftlaganna er aðeins minniháttar. Dalalæðan er ekki síður kvöldþoka en næturþoka, en það nafn er stundum notað yfir hana.
Myndin sem hér fylgir er vestan af fjörðum, líkast til úr Dýrafirði og er fengin úr myndaalbúmi Hildigunnar. Dalalæðan sem þarna sést myndaðist undir sólsetur seint í júlí 2006.
Flokkur: Veðuratburðir hér og nú | Breytt 26.8.2009 kl. 12:59 | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 3
- Sl. sólarhring: 8
- Sl. viku: 51
- Frá upphafi: 1788784
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 49
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Var svo sem ekkert slor hérna líka, í henni Reykjavík.
sr (IP-tala skráð) 11.8.2009 kl. 00:00
Sæll Einar
Ég sá hvar dalalæða var að myndast yfir GKG golfvellinum þegar ég keyrði þar framhjá um klukkan tólf (á miðnætti).
Jóhann Grétar Kröyer Gizurarson (IP-tala skráð) 11.8.2009 kl. 00:30
Oft sé ég dalalæðu yfir vatnsmýrinni þegar ég keyri heim úr vinnunni minni á kvöldin.
Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 11.8.2009 kl. 01:39
Passar, þetta er tekið frá Núpi í Dýrafirði, inn fjörðinn
Hildigunnur Rúnarsdóttir, 11.8.2009 kl. 14:07
Af því að þér finnst svo gaman að dalalæðunni, ætla ég að gamni að koma með extra skemmtilegt kvæði um hana, sem heitir Dalalæðan, og er eftir snillinginn Þorgeir Sveinbjarnarson...Hún mjakast eftir dalnum mjúkum fótum,smýgur niður í hverja dæld og dokar við í brekkurótum, nuddar gæflynd höfði upp við hallann, hringar sig við stein, strýkur honum þrifin bak við eyrað þvær hann allan. Setur svo upp gestaspjót. Og sjá, þá kemur geisli á skýjaskjáinn. Svo stígur hún í léttan fót, lyftir upp kryppunni, teygir sig og trítlar út í bláinn. ---Með bestu kveðju og til hamingju með sunnlenska veðrið !
Vigdís Ágústsdóttir (IP-tala skráð) 11.8.2009 kl. 15:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.