Metangas seytlar upp um hafsbotninn

_G-Tittel-metanspi_1089286gRétt eins og á sífrerasvæðum vita menn til þess að sums staðar á hafsbotni leynist mikið magn af bundu metangasi.  Með hækkandi sjávarhita er hætt við að metan losni úr læðingi.  Lítið er þó vitað hve mikið af bundnu metani sem losnað getur úr læðingi er að finna á hafsbotni.  Metan sem seytlar upp með þessum hætti endar í andrúmsloftinu, en þar er gastegundin um 20-25 sinnum öflugri gróðurhúsalofttegund en koltvísýringur.  Lífríkið sér um stöðuga framleiðslu metans, það á við búfé, hrísgrjónaræktun. Síðan kemur nokkuð á óvart að termítar á hitabeltissvæðunum eru afar öflugir í metangaslosuninni.  Á móti kemur að líftími metans er ekki nema um 8 ár í lofthjúpnum.  Engu að síður hefur hlutur metans farið vaxandi rétt eins og koltvísýrings síðustu aldirnar þó svo að menn telji að hægt hafi á aukningu frá því um 1990.

Hópur vísindamanna hefur verið við rannsóknir á hafsbotninum undan Svalbarða og þeir telja sig nú hafa náð að kortleggja uppsprettur metans frá hafsbotninum eins og meðfylgjandi mynd sýnir.  Niðurstöður hópsins voru kynntar í Geophysical Research Letters fyrir skemmstu. Hiti hlýja Atlantssjávarins sem berst norður í Barentshaf og vestur fyrir Svalbarða hefur hækkað um 1°C á síðustu 30 árum.  Þar sem hlýsjórinn er ekki eins eðlisþungur og sá kaldi, léttir lítið á þrýstingi við botn og metangas seytlar við það upp.

_F-Br_dtekst-spafa_1089337zÍ tengslum við þessa mælanlega uppgötvun er í Noregi rætt við minn gamla kennara og prófessor í Oslóarháskála, Ivar Isaksen.  Hann segir að útstreymi metans sé víðar að finna á hafsbotni en aðeins þarna við Svalbarða og megnið af metangasinu verði áfram uppleyst í hafinu, þó svo að hluti þess endi vitanlega í lofthjúpnum. Ekki nema tiltölulega lítil hækkun sjávar getur komið af stað metangaslosun frá sjávarbotni.  En um alla þessa hluti sé í raun lítið vitað.

Einn vísindamannanna sem stóðu að rannsókninni, Graham Westbrook við háskólann í Birmingham, heldur því fram að ef þetta ferli breiðist frekar út um norðurskautssvæðið samfara hlýnun sjávar geti metanlosun með þessum hætti orðið um 5-10% heildarinnar.  

Að mínu mati eru fullyrðingar eða spádómar í þessa veru háð mikilli óvissu, en úr því að mæliaðferðin hefur verið þróuð til að fylgjast með útstreymi metans um hafsbotn er sjálfsagt að fylgjast áfram með.  En þær verða vafalítið seint taldar með  ódýrustu eða einföldustu umhverfismælingum sem völ er á.   

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hörður Þórðarson

Gott hjá þér að vekja athygli á þessu Einar.

Hörður Þórðarson, 21.8.2009 kl. 08:44

2 Smámynd: Loftslag.is

Þetta er áhyggjuefni (súrnun sjávar og magnandi svörun og allt það).

Einar, mér datt í hug að kalla þetta metanstróka, er það of langt gengið? (sjá færsluna Metanstrókar)

Loftslag.is, 21.8.2009 kl. 09:43

3 identicon

Einar,

Varðandi samanburð á geislunaráhrifum metans (CH4) og koldíoxíðs (CO2) þá nefnir þú að CH4 sé 20 - 25 sinnum öflugri en CO2, en bætir svo við að á móti komi að líftími metans í lofthjúpnum sé stuttur. Þetta er rétt, en þó er mikilvægt að fram komi að 20 - 25 talan tekur þennan stutta líftíma þegar inn í reikninginn.

Fyrir þá sem áhuga hafa á smáatriðum málsins má bæta eftirfarandi við:

Þessi samanburður er gerður með því að bera saman  100 ára uppsöfnuð áhrif þess að sleppa  sama magni af CH4 og CO2 upp í lofthjúpinn.

Af því að helmingunartími CH4 í lofthjúpnum er stuttur en CO2 langur þá skiptir lengd samanburðartímabilsins máli. Ef einungis eru skoðuð 20 ára uppsöfnuð áhrif er CH4 t.d. ríflega 60 falt öflugra en CO2; ef skoðuð eru 100 ára áhrif eru þau 23föld; en ef skoðuð eru uppsöfnuð áhrif yfir 500 ár er metanið einungis 7 sinnum öflugra en CO2.

(Þessar upplýsingar má sjá í töflu 10.1 í Wallace and Hobbs: Introduction to Atmospheric Science 2nd Ed)

Samspil þessara beinu geislunaráhrifa og líftíma eru er ekki erfitt að skilja, en  maður þarf að sætta sig við að lengd þess tímabils sem uppsöfnuð áhrif eru skoðuð á skiptir líka máli. 

Þegar metan brotnar niður í lofthjúpnum tekur það þátt í ýmsum efnaferlum sem mynda afurðir á borð við ózón (O3), vatn (H20), kolmóxíð (CO) og koldíoxíð (CO2). Geislunaráhrif þessa eru hin s.k. óbeinu áhrif metans. Þessi áhrif eru  flókin.

Aukning á framleiðslu  ósóns í veðrahvolfi (þ.e. fyrir neðan c.a. 15 km hæð) , aukning vatnsgufu í heiðhvolfi (fyrir ofan c.a. 20 km) og myndun CO2 veldur óbeinum áhrifum sem gera metan að enn öflugri gróðurhúsalofttegund. Auk þess getur metan haft áhrif á styrk OH, sem er einmitt öflugt niðurbrotsefni. Þessi áhrif geta því lengt líftíma CH4 í lofthjúpnum. 

Í töflu töflu 2.14 í skýrslu vinnuhóps I hjá IPCC (IPCC, 2007)  [sjá http://www.ipcc.ch/pdf/assessment-report/ar4/wg1/ar4-wg1-chapter2.pdf]) er því líftími CH4 skráður sem 12 ár, og tekið er tillit til óbeinna áhrifa ósóns í veðrahvolfi og vatnsgufu í heiðhvolfi þegar hlutfallsleg áhrif metans eru skoðuð. Þetta breytir niðurstöðum ekki stórvægilega frá Wallace og Hobbs:  á 20 ára tímabili er metan 72 öflugra en CO2, en á 100 ára tímabili er það 25 falt öflugra en CO2 (svo talnabilið hér að ofan [20 - 25] var OK).

IPCC reynir hinsvegar ekki að taka tillit til óbeinna áhrifa vegna myndunar CO2. 

Halldór Björnsson (IP-tala skráð) 21.8.2009 kl. 10:33

4 Smámynd: Fannar frá Rifi

undanfarin sumur hafa bara verið með endæmum góð. líkar það vel og vil að stefnan sé sett á að á suðulandi verði vínræktun um miðja þessa öldina.

Fannar frá Rifi, 21.8.2009 kl. 12:29

5 Smámynd: Einar Sveinbjörnsson

Öndvegis íslenskun Höskuldur (sápuboxið) að kalla útsreymi metans sem kemur svo vel fram á myndun vísindahópsins, metanstróka.  Verður ekki betra !

Halldór stendur sig á vaktinni og fín viðbót hjá honum.  Menn eiga svo erfitt með að ákvarða líftíma metangass vegna þess að efnahvörfin eru nokkur og þau tengjast innbyrðis.  Þó sjálfur kunni ég margt betur en loftefnafræðina veit ég þó að OH(-) jónin og framboð hennar í lofthjúpnum skiptir mestu fyrir niðurbrotshraðann og er talið að um 90% þess gerist með hvarfi CH4 og OH(-).  

Fyrir mjög áhugasama um metanhringrásir er í boði ágætar yfirlitsglærur hér.

ESv 

Einar Sveinbjörnsson, 21.8.2009 kl. 12:57

6 identicon

Fróðleiksfúsir bókstaflega iða í skinninu af ánægju þegar þið vísindamennirnir farið að bollaleggja svona afslappað og frjálslega - og þakklæti fyrir að mega sjá og (kannski) heyra.

Þorkell Guðbrands (IP-tala skráð) 21.8.2009 kl. 13:27

7 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ekki þori ég fyrir mitt litla líf að segja hér eitt einasta orð! En metanstrókar er frábært orð sem nær þessu alveg.

Sigurður Þór Guðjónsson, 21.8.2009 kl. 13:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 3
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 51
  • Frá upphafi: 1788784

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 49
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband