27.8.2009
Af skoskum snjófyrningum
Skosku hálöndin teygja sig upp í 1.000 til 1.300 metra hæð. Þar er víða mikil úrkoma á vetrum líkt og hér, en þrátt fyrir það eru engir eiginlegir jöklar í Skotlandi. Sumrin eru einfaldlega nægjanlega hlý og ekki síst löng til þess að bræða af sér allan vetrarsnjóinn. Og þó ekki, flest haust lifa af sumarleysingum skaflar hátt uppi á skuggsælum stöðum. Síðasta haust voru þeir 12 talsins skaflarnir sem voru enn til staðar þegar tók að snjóa á nýjan leik seint í október. 9 árið áður, en allan snjó tók upp haustið 2006. Árið 2000 taldist gott ár í þessu samhengi en þá voru skaflarnir á fimmta tuginn.
Skotar fylgjast með þessum sköflum sínum af gríðarmiklum áhuga af því er virðist. Í tímariti breska veðurfræðifélagsins, Weather birtist löng skýrsla nýlega um snjóskaflamælingar síðasta haust, en þessir leiðangrar eru gerðir út frá Edinborg. Farnar eru nokkrar slíkar mælingarferðir frá því í maí og þar til snjóa tekur á ný um haustið.
Það er í fjalllendi umhverfis tindinn Cairn Gorm (1.245 m) sem það er líklegast að finna skafla sem halda út sumarið.
Skafl í hlíðum Garbh Choire Mor í 1.041 metra hæð á Cairn Gorm svæðinu nýtur þess heiðurs í huga Skota að vera sá þrautseigasti. Myndin er tekin 8. ágúst og skaflinn því enn tiltölulega stór miðað við það sem síðar kann að verða í lok leysingatímans.
Annar þrálátur skafl er norðan í Ben Navis, hæsta fjalli á Bretlandseyjum (1.344). Það er vestar en Cairn Gorm. Skaflinn hefur nafn, Observatory Gully. Á myndinn eru helstu snjóskaflafræðingar Skota þeir Iain Cameron og Dr. Blair Fyffe við mælingar í ágúst í fyrra. Upplýsingar um afkomu Gully eru tiltækar frá því um 1800 að vísu ekki alveg samfelldar framan af. Allar slíkar samanburðarhæfar athuganir leggja til bita í veðurfarssöguna. Veðurstöð er uppi á Ben Nevis. Þar mælist ársúrkoma að jafnaði um 4.300 mm. Það er gríðarlega úrkomusamt og í líkingu við Mýrdalsjökul og sunnanverðan Vatnajökli þar sem rakt Atlantshafsloftið á greiðan aðgang.
Snjóskaflafræðin er til vitnis um tíðarfarið eins og við þekkjum mætavel, sem höfum svo gaman að því að góna upp í Esjuna og önnur fjöll víða um land um þetta leyti ársins.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 11:29 | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 7
- Sl. sólarhring: 8
- Sl. viku: 55
- Frá upphafi: 1788788
Annað
- Innlit í dag: 5
- Innlit sl. viku: 51
- Gestir í dag: 5
- IP-tölur í dag: 5
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Það hlýtur að hafa verið skálajökull áður fyrr í Garbh Choire Mor.
Vigfús Eyjólfsson (IP-tala skráð) 27.8.2009 kl. 10:52
Mjög sennilegt af myndinni að dæma Vigfús.
ESv
Einar Sveinbjörnsson, 27.8.2009 kl. 11:28
Hvað líður efnisyfirlitinu og skilgreiningu á hitabylgjum II?
Sigurður Þór Guðjónsson, 28.8.2009 kl. 13:34
Lenti uppi á skeri með hitabylgjuskilgreiningu mína Sigurður. Þar voru tvö til þrjú tilvik sem pössuðu alls ekki inn og set því töflur og samantekt þessu tengt upp í hillu en skoða kannski betur síðar. Efnisyfirlitið er hins vegar nánast frágengið fyrir allar þessar eittþúsund og eitthvað færslur frá upphafi.
ESv
Einar Sveinbjörnsson, 28.8.2009 kl. 15:06
Æ, það er leitt með hitabylgjurnar. Geta þær ekki ekki látið að stjórn og hagað sér vel og passlega!
Sigurður Þór Guðjónsson, 28.8.2009 kl. 15:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.