Flestir mundu álíta að hlýjustu septemberdagar í sögu mælinga hefðu komið allra fyrst í mánuðinum, en það er ekki rétt. Septemberhitametin eru frá því um miðbik mánaðarins, eða kannski litlu áður. Hlýjast hefur mælst 26,0 stig í september. Það var þ.12 árið 1949 á Dalatanga. Þ. 14. árið 1988 varð nærri því jafn hlýtt á sama stað. Þennan tölulega fróðleik hef ég frá Sigurði Þór sem hefur fjallað um hitamet í september rétt eins aðra mánuði ársins.
Í dag náði SV og V-áttin sér ekki á strik og því varð ekki hlýtt á Daltanga, þess í stað varð hlýjast á Héraði, 21,9°C. Mestu hitabylgjurnar í september gerir þegar mjög hlýir loftmassar ættaðir lengst í suðri hafa álpast norður undir Ísland eða yfir Bretlandseyjar og það gerir sunnan og oftar allhvassa eða hvassa suðvestanátt hér á landi. Gjarnan þá rigning suðvestan- og vestanlands og þá snarpur hnjúkaþeyr með sólskini norðaustan- og austanlands. Á Dalatanga streymir hlýtt loftið niður úr hæð fyrir tilstuðlan Austfjarðafjallana. Við það hlýnar það um 1°C fyrir hverja 100 metra (þurrinnrænt).
Þetta gerist þegar vindátt er hæfilega vestlæg, vindstyrkur nægur sem og vindstigull í lofti. Þá koma hlýjar gusurnar niður og leika um mælinn oft ekki nema augnablik í senn. Að því gefnu að vindskilyrðin séu hagstæð ræður loftmassahitinn því hversu hlýtt verður í mælaskýlinu. Hiti í 850hPa fleti (um 1500 m hæð) er fyrirtaksmælikvarði á loftmassahitann, en líka þykktin á milli 500 og 1000 hPa flatanna, jafnvel sjálf hæðin undir 500 hPa flötinn er nothæf sem mælistika í þessa veru. Rigni talsvert áveðurs á landinu, þ.e. suðvestantil losnar dulvarmi úr læðingi og loftið sem berst yfir hálendið veður því enn hlýrra. Reiknilíkön ná oftast sæmilega að koma þeirra viðbót til skila í hita loftmassans.
Þessi skilyrði sem hér um ræðir eru nokkurn vegin til staðar í dag og einkum þó á morgun. Þó vantar herslumuninn upp á það á morgun að nægjanlega hvasst verði til að kreista fram hæstu mögulegu hitatölur á Dalatanga. Hins vegar fer hiti hæglega í 23 til 24 stig á Héraði og jafnvel einnig í Eyjafirði á morgun, en varla veður hlýrra en það. Nú tek ég dálítið stórt upp í mig því sjálfvirka spá VÍ sýnir einmitt 25°C á Egilsstöðum kl. 15 á morgun og heggur því hættulega nærri septemberhitametinu frá 1949.
En hvað getur orðið hlýtt í september ? Heimsókn mjög hlýrra loftsmassa úr suðri síðla sumars eða snemma haustsins virðist heldur hafa farið fjölgandi síðustu árin. Eins eru þeir meiri um sig og hlýrri í kjarna. Það getur staðið í samhengi við hærri sjávarhita eða loftslagshlýnun vegna aukinna gróðurhúsaáhrifa, nema hvoru tveggja sé. Sjálfur hefur ég þó engar beinharðar tölur eða rannsóknir til að styðjast hér við heldur er meira um mína tilfinningu að ræða. Hiti á stað eins og Dalatanga getur hæglega orðið hærri þegar en þær 26°C sem mælst hafa mestar. Ekki ólíklega eigum við eftir að sjá gildi á þessum ársíma upp á 27 til 28°C á næstu árum eða áratugum ef saman fer aukin tíðni þessara heimsókna og hlýrri kjarna þessa lofts.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 7
- Sl. viku: 50
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 46
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Sæll Einar. Ætti hæsti hitinn að vera á Dalatanga?
Sigurjón, 13.9.2009 kl. 05:40
Sæll Einar. Ég man eftir að hafa verið við haustplöntun á lerki á Héraði í 24 stiga hita í október. Líklega 1994 ea 95. Svo fór hitinn yfir 20 stig á Dalatanga í janúar 1991 eð 92.
Haraldur Bjarnason, 13.9.2009 kl. 13:14
Þeir eiga þetta skilið Austfirðingarnir, fengu slakt sumar júlí-ágúst
Ari (IP-tala skráð) 13.9.2009 kl. 13:23
Óþarfi er að ýkja hitatölur. Hiti hefur aldrei mælst 24 stig á Íslandi í október og ekki 20 í janúar á mæla sem hægt er að taka mark á.
Sigurður Þór Guðjónsson, 13.9.2009 kl. 13:41
Ég man eftir 17 C° hita og sólskini 15 eða 16. október 2001 hérna á höfuðborgarsvæðinu.
Jóhann Grétar Kröyer Gizurarson (IP-tala skráð) 13.9.2009 kl. 13:45
Ég var að skoða myndalbúmið, það var 18. október 2001. Skv. gömlu veðurathugunarkorti frá veðurstofunni þá var hiti á hádegi þann dag í Reykjavík 14 C°, en náði seinna um daginn í tæpar 17 C° sem að er mjög óvenjulegt, a.m.k. hérna sunnanlands í þeim mánuði.
Jóhann Grétar Kröyer Gizurarson (IP-tala skráð) 13.9.2009 kl. 13:49
Haraldur !
Þú þarft nú að fara að skrifa þessu hlýju daga fyrir austan hjá þér:)
14. janúar 1992 fór hitinn um miðja nótt í kolniða myrkri í 18,9°C á Dalatanga og er það hæstu hiti hérlendis í janúar. Ég var á vakt á Veðurstofunni þessa nótt og um morguninn hringdi hin mæta fréttakona Guðrún Eyjólfsdóttir, sem var með morgunfréttirnar á RÚV til að afla tíðinda af hitafari næturinnar fyrir austan. Ég man að hún nánast missti símtólið af undrun yfir undarlegheitum íslenskrar veðráttu. (þó ekki í beinni útsendingu áttafréttanna)
Getur verið að þú hafir verið að pota niður lerkinu snemma í október þetta sama ár 1992. Þá fór hiti fyrir austan rétt yfir 20 stigin þ. 7 okt ? Engar heimildir hef ég um sérlega hlýja daga 1994 og enn þá síður 1995.
ESv
Einar Sveinbjörnsson, 13.9.2009 kl. 13:54
Hitinn í Reykjavík 18. október 2001 mældist 15,6 stig. Það er í reynd mesti hiti sem þar hefur mælst í októbermánuði þó opinbera metið sé 15.7, dagsett þ. 1. 1958 en mældist í raun og veru kl 18 þ. 30. september.
Sigurður Þór Guðjónsson, 13.9.2009 kl. 18:20
Iss-piss, vonir um hitamet fyrir norðan og östan brugðust að þessu sinni. Landáttin var of veik; kl. 11 fór hann í 20 stig hér á Akureyri, en kl. 13 var hann kominn niður í rúm 13 og náði sér ekki á strik eftir það. Svalt loft að norðan tók yfir. En það var gott að láta sig dreyma..........
Áskell Örn Kárason (IP-tala skráð) 13.9.2009 kl. 18:41
Já, það er rétt hjá þér Sigurður. Þann hita sem ég vísa í fyrir 18.október 2001 var af digital mæli (í 2 metra hæð og í skugga, meira segja sem virkar enn!), inn í garði hjá mér í skjólgóðum garði hérna í Garðabænum. Það er engann veginn sambærilegt við mæli veðurstofunnar upp á miðri bústaða-heiði sem er opinn fyrir nánast öllum vindáttum. Ef þeir myndu setja sambærilegan mæli i Elliðaárdalinn gæti ég trúað að það myndi ansi oft muna 1 C°. En allavegnna í heimahúsagarði hérna í Garðabænum mældist tæpar +17 C° þann 18. október 2001.
Jóhann Grétar Kröyer Gizurarson (IP-tala skráð) 13.9.2009 kl. 18:47
Ég er nú ekki að gera athugasemd við aðra mæla en Veðurstofunnar heldur að beina athyglinni að því að þennan dag mældist í raun og veru mesti hiti í október í Reykjavík.
Sigurður Þór Guðjónsson, 13.9.2009 kl. 19:11
Er með digital mæli í bústaðnum, skynjarinn er vel staðsettur þar sem sól skín aldrei á hann en loftar vel um. Hiti fór hæst í 17,8°C á þennan mæli í dag. Veður var lengst af S - SSA gola eða kaldi, léttskýjað, mest háský og eitthvað lítilsháttar af miðskýjum, svona 2/8 framan af degi, en jókst í eftirmiðdaginn. Vindur var minni í gær, en þá fór hitinn ekki eins hátt.
kv.
Þorkell Guðbrands (IP-tala skráð) 13.9.2009 kl. 21:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.