14.9.2009
Ekki 25°C á Egilsstöðum í gær !
Í hlýindunum í gær varð hitinn hæstur 22,4°C á sjálfvirkum mæli í Ásbyrgi (skv. töflu VÍ). Sjá mátti reiknaða spá á síðu Veðurstofunnar sem gerði ráð fyrir því að hitinn yrði 25°C á Egilsstöðum kl. 15 í gær. Eins og vænta mátti var frá þessu greint í fréttum í gærmorgun. Þessi væni hiti lét hins vegar á sér standa. Ekki skorti hlýindin í loftin í þetta 500 til 2.000 metra hæð. Það sást strax í gærmorgun þegar hitinn var í 20°C bæði á Vatnsskarði eystra og eins uppi á Oddskarði. Ef við tökum loftið sem þarna er og komum því niður á láglendi þá hlýnar það um allt að 1°C/100m við þann niðurdrátt. (Þurr-innræn hitabreyting). Þá má auðveldlega reikna sig upp í 25 stigin á Héraði. Það sem upp á vantaði var hins vegar nægjanlega hvass vindur í lofti til lóðréttrar blöndunar loftsins við fjöll.
Skilyrðin voru hins vegar skárri í nótt, en þá var loftmassahitinn líka búinn að ná hámarki yfir austanverðu landinu og ekkert sólskin heldur til að hjálpa upp á sakirnar. Þó var hitinn um 15 stig á Egilsstöðum kl. 4 í nótt og þykir bara mjög gott ! Um miðja nóttina komst styrkur vindsins einmitt yfir þennan þröskuld og sést best með því að skoða mælingar á Dalatanga. Vindurinn var snarpur á SV og V um tíma og slær niður vindhviðum. Um leið hlýnar og kl. 4 má sjá 16,4°C á Dalatanga. Einvern tímann í nótt hefur hiti komist í 20 stig á stutta stund á Fáskrúðsfirði og Seyðisfirði.
En nú er léttskýjað norðaustanlands, hlýtt í lofti og það sem mest er vert, snarpari S- og SV-vindur heldur en í gær. Það getur allt gerst enn !
Flokkur: Veðuratburðir hér og nú | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 7
- Sl. sólarhring: 10
- Sl. viku: 55
- Frá upphafi: 1788788
Annað
- Innlit í dag: 5
- Innlit sl. viku: 51
- Gestir í dag: 5
- IP-tölur í dag: 5
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Eins og eg hef sagt í fyrri aths. varð hitabreytingin mjög snögg hér á Akureyri og lækkaði hitinn að mig minnir um tæp 7 stig á ca. 1,5 tíma milli 11 að morgni (þegar honum sló upp í 20), og kl. 12:30 þegar hann var kominn niðurundir 13. Sunnangolan var máttlítil og svo fór hafgolan að þrýsta á móti og mjaka kalda loftinu inn fjörðinn, sem eins og endranær virkar eins og trekt við þessar aðstæður. Nú á mánudagsmorgni er hinsvegar töluverður blástur hér og hitinn á uppleið, stefnir líklega í 20 um hádegi að óbreyttu, enda heiðskír himinn!
Áskell Örn Kárason (IP-tala skráð) 14.9.2009 kl. 09:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.