Vestmanneyingar búa við takmarkaðar samgöngur þessa dagana á meðan Breiðafjarðarferjan Baldur leysir Herjólf af í áætlunarsiglingum á milli Eyja og Þorlákshafnar. Greint hefur verið frá því að Baldur þolir mun minni sjógang en Herjólfur, enda minna skip. Miðað er við 3,5 metra í ölduhæð á öldumælingaduflinu suður af Surtsey.
Fylgjast má með sjólagi og ölduhæð á vef Siglingastofnunar, þ.e. hver ölduhæðin er þarna úti á hverjum tíma. Gefin er upp svokölluð kennialda en hún er skilgreind sem meðaltal af hæsta þriðjungi af öllum öldum liðinnar klukkustundar. Eins er hægt að nálgast á vefnum ágætar ölduspár fyrir miðin umhverfis Íslands og á N-Atlantshafinu ef því er að skipta. Spár þessar eru ein afurð ECMWF og hafa samanborið við mælingar reynst ákaflega áreiðanlegar, svo fremi að sjálf veðurspáin gangi eftir.
Í dag (miðvd.) hefur ölduhæðin á Surtseyjardufli verið 2-3 m og því sigldi Baldur eftir því sem ég kemst næst. Það er stígandi í öldunni á morgun og spáin gerir ráð fyrir því að ölduhæðin verði 3,5 til 4,0 m lengst af morgundagsins og 4-5m á föstudag. Síðan róast sjórinn mikið á laugardag, en aftur ýfist upp fyrir þessu þröskuldsmörk á sunnudag ef af líkum lætur og veðurspá gengur eftir.
Ástæðan er vitanlega sú að lægðir koma nú hver af annarri úr suðvestri. Vindfang öldunnar eins og það er kallað er stórt, þ.e. vindur blæs af tilteknum styrkleika yfir stórt hafsvæði. Fyrir vikið stækkar aldan þegar hún berst yfir hafið. Aldan er SV-stæð og sjógangangur minnkar lítið á milli lægða þar sem vindurinn er stöðugt að yfir úthafinu djúpt undan landi. Ástandið breytist ekki að ráði fyrr er lægðirnar taka nýja stefnu, meira í áttina til Færeyja eða Bretlands. A-og SA-aldan sem þá gerir vart við sig undan Suðurlandi, er allt annars eðlis, enda vindfangið minna og mikil ölduhæð varir í skamman tíma í senn, nema þá í mjög vondu veðri af þeirri tegundinni.
Útlit er fyrir breytingar undan suðurströndinni á mánudag/þriðjudag.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 7
- Sl. sólarhring: 10
- Sl. viku: 55
- Frá upphafi: 1788788
Annað
- Innlit í dag: 5
- Innlit sl. viku: 51
- Gestir í dag: 5
- IP-tölur í dag: 5
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.