Vinsælar veðurfréttir

Morgunblaðið 29.sept 2009Það kemur mér ekki á óvart að veðurfréttir skuli vera það efni í sjónvarpi sem mest er horft á.  Í Morgunblaðinu í dag er greint frá fjölmiðlakönnun  Capacent-Gallup.  Ný tækni þar sem fólk gengur með tæki á sér sem nemur sjálfvirkt nálæga útsendingu sjónvarps.    Áður fyrr var í könnunum sem þessum fréttir og veður gjarnan mælt saman og því fékkst ekki raunhæf mæling á veðurfréttunum.

Í vikunni 7. til 13. sept. horfði yfir fjórðungur landsmanna á veðurfréttir sjónvarps, fleiri en á nokkurt annað efni Sjónvarpsins.  Á Stöð 2 nýtur veðrið líka mikilla vindælda (12,2%), en fréttirnar mælast þó með meira áhorf þar.

Sjónvarpsveðrið hefur tekið hægfara breytingum til batnaðar síðustu árin.  Fyrst eftir að Kastljósið kom fram á sjónarsviðið var af dagskrárstjórum Sjónvarps lögð á það áhersla að veðrið væri fyrir í dagskránni, skyggði á Kastljósið og fjöldi manna mundi skipta um stöð á meðan veður væri í loftinu.  Því var þeim tilmælum beint til veðurfræðinganna að ljúka sér nú af í snarhasti og bíða með allar útskýringar þar til  eftir fréttirnar kl. 22 (sem er ömurlegur tími ef horft er til þjónustuhlutverks).  Vægi fyrri veðurfréttatímans hefur hins vegar verið að aukast upp á síðkastið, kannski vegna þess einmitt að mælingarnar hafa sýnt fram á vinsældir efnisins.  Nú er Kastljósið, sjálft akkeri Sjónvarps, komið undir veðurfréttirnar í áhorfi.  Leiða má að því líkur að áhorfið á Kastljósið væri talsvert minna ef væri ekki fyrir vinsælan dagskrárlið strax á undan !!

Á Íslandi erum við mjög háð veðri, það hefur lítið breyst, þó svo að vægi veðurháðra atvinnuvega, s.s. sjómennsku og landbúnaðar hafi farið minnkandi.  Þessir mikilvægu atvinnuvegir hafa líka tekið breytingum og tæknin önnur en áður.  Það hefur samfélagið einnig gert, en við höfum áhuga á veðri á annan hátt, m.a. vegna samgangna innanlands.  Fólk er á faraldsfæti landshlutanna á milli, útivera hefur aukist, fólk gengur á fjöll og ferðast um landið.

Á fjölmiðlunum starfar slæðingur af fólki sem er tamt að halda því fram að umfjöllun um veður sé gamaldags; að veðrið höfði sífellt minna til fólks. Það held ég einmitt að sé rangt mat og könnunin staðfestir hið gagnstæða. Sjálfur sé ég það og finn m.a. hér á veðurblogginu og eins þegar ég var fastagestur í morgunútvarpi Rásar 2 hvað umfjöllun um veðrið  hefur einmitt breiða skírskotun út í samfélagið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Það er vel hægt að gera veðurfréttir athygliverðar fyrir yngri hópa, (ekki að tala um smábörn og krakkaveður) Að skreyta veðurtímana með einhverskonar náttúrufróðleik hefur verið prófað og mér sýnist það vera til mikilla bóta.  Þessi uppstilling með fréttamanninn og kortið er ansi statísk og þreytt og óintressant fyrir þá sem ekki eru sérstaklega að horfa.  Veðurfréttir þurfa bara að vera alvöru dagskrárgerð með grafík og myndum, fróðleik og heilræðum. Þetta er lítið vísindaprogram í raun.  Ég er annars ekkert hissa á að áhorfið á veður sé gott, þar sem flestir hér á landi eiga eitthvað undir veðri.

Það er eitt, sem virðist stundum ekki virka, en það er að gera fólki grein fyrir hættum vegna veðurs. Sérstaklega hálendisfara, Jöklafara, rjúpnaskyttna etc. Það þyrfti að finna leið til að undirstrika það.  Útvarpsveðrið stendur fyrir sínu, en virkar oft ansi monotón.  Það slokknar stundum á heilanum á mér við að hlusta á það og ég missi af yfirferðinni, sem skipti mig máli. Vafalaust hægt að "pródúsera" þetta allt miklu betur. 

Jón Steinar Ragnarsson, 29.9.2009 kl. 10:55

2 identicon

Ég er algjörlega sammála þér með það að veður og veðurfréttir eru vinsælasta útvarps og sjónvarpsefni á Íslandi.  Við Íslendingar ferðumst mjög mikið hér innanlands og það snýst allt um veður og veðurútlit.  Ég ferðast t.d. á mínum húsbíl nánast allt árið um kring og þarf því að fylgjast vel með veðri, og ég sakna þess mjög mikið að hafa ekki innskotið þitt á fimmtudagsmorgnum á Rúv, því það var alltaf mjög gott yfirlit yfir veður helgarinnar, og oftar en ekki gekk það mun betur eftir heldur en aðrar spár. Vona að úr því rætist fljótlega.  Vil svo þakka þér kærlega fyrir skemmtileg innslög um veður hér á síðunni þinni.

Hafdís Hannesdóttir (IP-tala skráð) 29.9.2009 kl. 11:26

3 identicon

Ef ekki væri fyrir veðurfréttirnar sæi ég aldrei Kastljósið því ég myndi slökkva á sjónvarpinu um leið og íþróttafréttirnar byrja. Með núverandi fyrirkomulagi sé ég a.m.k. kynninguna á Kastljósinu og sé hvort eitthvað athugavert sé framundan.

Annars vil ég taka undir það sem Jón Steinar segir hér að ofan, það mætti gjarna gefa veðurfréttamönnum svigrúm til að segja nánar frá eða útskýra hin ýmsu veður- eða eðlisfræðileg fyrirbæri. Mér þætti það a.m.k. mun áhugaverðara en að heyra álitsgjafa vikunnar segja frá þróun mála í IceSave deilunni í n-ta skipti.

Enn fremur vil ég þakka þér fyrir áhugaverða pistla hér á síðunni. Ég les oft en kvitta sjaldan.

Finnbogi Óskarsson (IP-tala skráð) 29.9.2009 kl. 11:37

4 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Þetta kemur alls ekki á óvart. Á meðan ég vann á sjónvarpi mbl tók ég nokkur "veðurviðtöl" við þig, og þau voru undantekningarlaust mjög ofarlega í lestrarmælingum (þ.e. í talningu á lestri frétta á vefnum).

Kristján G. Arngrímsson, 30.9.2009 kl. 07:08

5 identicon

Hef aldrei skilið hjá veðurfræðingunum í sjónvarpinu þegar þeir segja að það verði ítarlegri veðurfréttatími eftir tíufréttir. Þær eru nánast nákvæmlega eins nema að það er litið til evrópu smá í lokin.

Ari (IP-tala skráð) 1.10.2009 kl. 02:18

6 identicon

Allur almenningur hlustar alls ekki á veðurspár í útvarpi. Það eru helst skipstjórar og stöku bændur sem það gera. Sjónvarpsveðurfregnir, jú, það er eitthvað horft á þær, en það hef ég trú á að eigi meira við um landsbyggðina en höfuðborgarsvæðið. Veðurspár á Netinu eru að mér finnst helst notaðar af fólki milli tvítugs og fimmtugs. Hinar ítarlegu veðurspár á Rás1 RÚV fara framhjá flestum, það er nær eingöngu fólk fætt fyrir 1940 sem hlustar á Rás 1 og sá hópur stækkar ekki. Veðurstofan hefur að mínu mati þegar mætt þessari þörf með því að setja upp að mörgu leyti afbragðs góða heimasíðu á Netinu og starfsfólkið þar er stöðugt að endurbæta hana. Jafnframt nýta þeir aðila utan stofnunarinnar, svo sem Belging, til þess að fá myndrænar útfærslur veðurspáa. Nú, síðast en ekki síst held ég að einmitt þessi síða Einars Sveinbjörnssonar, sé afskaplega vinsæl, enda fylgir hér ýmis fróðleikur, vel fram settur og við alþýðu hæfi. Að því ógleymdu, að við þetta prjónast svo oft og iðulega fróðleg komment frá gagnabönkum eins og Sigurði Þór og Ágústi H. Bjarnasyni. Þökk sé þessu fólki öllu fyrir.

Þorkell Guðbrands (IP-tala skráð) 1.10.2009 kl. 07:29

7 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Nú væri einmitt ráð að bæta veðurfregnatímana, t.d. hvað varðar það veður sem er, uppgjör dagdsins, en einblína ekki bara á framtíðarspána. Það verður líka að segja fréttir af veðri eins og af öðru sem gerist. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 3.10.2009 kl. 18:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.11.): 4
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 52
  • Frá upphafi: 1788802

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 47
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband