16.10.2009
Betri miðlun vatns í hlýnandi heimi
Ýmsir hafa haft á orði að með stigvaxandi fólksfjölda jarðarinnar verði að vinna markvisst að auknum afrakstri í landbúnaði. Græna byltingin er hún kölluð sú breyting í búháttum sem var eftir miðja 20. öldina sem leiddi til aukins afraksturs á hverja flatareiningu ræktarlands. Erfðavísindin komu mjög við sögu í grænu byltingunni og nytjaplöntur, m.a hveiti gáfu á eftir mun meira af sér en áður var.
Norman Borlaug, frumkvöðull í kynbótum nytjaplantna og friðarverðlaunahafi Nóbels, 1970 átti ríkan þátt í grænu byltingunni á sviði matvælaframleiðslu (sjá hér). Borlaug lést í síðasta mánuði og um leið og hans er minnst koma fram nýjar áhyggjur sem steðja að fæðuöflun sístækkandi mannkyns.
Þýsk/Sænsk rannsókn hefur beinst að því hvernig stýra megi vatnsnotkun í landbúnaði, einkum á þurrari svæðum, til þess að auka afrakstur ræktunar þegar vandinn virðist tvöfaldur. Þ.e. með hækkandi hita eykst úrgufun og ofþornun jarðvegs þar sem úrkoma er takmarkandi þáttur í ræktun á sama tíma og fólksfjöldi jarðarinnar eykst jöfnum skrefum.
"Notkun og miðlun vatns í landbúnaði 21. aldarinnar í lykillinn að bættri uppskeru. Ef ekki verður um grundvallar hugarfarsbreytingu í notkun vatnsauðlindarinnar er útilokað að uppskera í landbúnaði nái að metta þá tvo til þrjá milljarða jarðabúa sem bætast við á næstu áratugum" segir Wolfang Lucht í miðstöð rannsókna í afleiðingum veðurfarsbreytinga í Potsdam (PIK). Þetta þýska rannsóknarsetur í loftslagmálum er vel þekkt fyrir sína vinnu. Þar starfar t.d. Stefan Rahmsdorf sem ég hef oft vitnað til hér á þessum síðum.
Um tíundi hluti alls þurrlendis jarðar er nýttur til akuryrkju. Víða er vatn af skornum skammti og áveitur nýttar til að miðla regnvatni um ræktarlönd. Á síðustu áratugum hefur vatnið verið notað óskynsamlega og því sóað ef svo má segja. Wolfang Lucht og félagar í Potsdam ásamt sænsku rannsóknarteymi keyrðu loftslagslíkan sem tengt var sérstaklega við jarðvegsraka og útgufun sem á sér stað í ræktarlandi. Bent er á að stýring vatnsnotkunar í landbúnaði 21. aldarinnar eigi að beinast bæði réttri miðlun úrkomuvatns til notkunar þegar þurrt er og eins að sóa ekki vatni þegar minni þörf er á, sem leiðir eingöngu til þess að útgufun um plöntuna eykst. Ekki síst þegar veðurfar fer heldur hlýnandi.
Flesta hluti er hægt að herma með reiknilíkönum og líka jarðvatnið sem sífellt verður mikilvægara þegar saman fer hækkandi hiti og þar með aukin útgufun (uppgufun) á sama tíma og það verða fleiri munnar að metta á jörðinni allri.
Meðfylgjandi kort er frá Potsdamrannsókninni. Það sýnir aukin mögulegan afrakstur eða uppskeru á hverja flatareiningu nái menn að bæta nýtingu vatns með miðlun um 25% og jafnframt að draga úr vökvatapi jarðvegs (með markvissri stýringu) einnig um 25%.
Við hér á Íslandi erum ef til vill ekki vön þankagangi sem þessum þar sem nóg er yfirleitt af vatni og helst að lágur hiti sé takmarkandi í allri ræktun.
Flokkur: Veðurfarsbreytingar | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 14
- Sl. viku: 49
- Frá upphafi: 1788782
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 47
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.