Rasputitsa - af rússneskri haustveðráttu

Russia MapRasputitsa kallast það tímabil að vori í Rússlandi þegar jörðin fer í eitt drullusvað  eftir klaka leysir að loknum vetri.  Í Hvíta-Rússlandi, nyrst í Úkraínu og í Rússlandi vestan Moskvu er gjarnan annar Rasputitsa-tími að haustinu áður en jarðvegurinn nær að frjósa.  Þetta seinna tímabil nær oftast frá miðjum október fram í miðjan nóvember.

Rospuutto er samstofna orð í finnsku og merkir vegleysa.  Það er einmitt það sem gerist að vegir verða ófærir sökum eðju.  Þegar Napóleon réðst til atlögu inn í Rússland 1812 varð rasputitsa Rússum til bjargar, en herjum Napóleons varð lítt ágengt í drullunni.  Sama var upp á teningnum haustið 1941, þegar framrás Þjóðverja russiamudí átt til Moskvu var stöðvuð í vegleysunni sem þá varð í nóvember  austast í Hvíta-Rússlandi og þar um slóðir.  Myndin sýnir einmitt þýska hermenn baksa með mótorhjól umrætt haust.

Vorleysingar og vatnsagi á þeim árstíma er ósköp skiljanlegur, en hvernig skyldi standa á því að jarðvegur verðu þetta blautur að haustinu ?  Líta verður til þess að umrætt landsvæði er mikil flatneskja og  landhæð er um 150-200 m.  Landið er ekki marflatt eins og sunnar í Úkraínu, heldur einkennist af lágum ásum ekki ósvipað og sjá má víða t.a.m. á Jótlandi ef ég skil lýsingar landafræðinnar þarna austurfrá rétt.

 

 

SmolenskÞað kemur í raun óvart hvað úrkoma er í raun mikil.  Í borginni Smolensk, vestast í Rússlandi, miðja vegu á milli Minsk og Moskvu er ársúrkoman litlu minni en í Reykjavík.  Af meginlandloftslagi að vera þykir þetta nokkuð rakt, sérstaklega að haustinu og vetrinum.  Eftir því sem austar dregur í Rússlandi minnkar ársúrkoman.  Með lægðum úr vestri sem koma inn yfir Bretlandseyjar og Norður-Evrópu berst Atlantshafsrakinn langt til austurs.  Á korti má sjá að land er láglent í N-Evrópu alveg frá Niðurlöndum langt til austurs, þ.e. norðan Karpatafjalla sem ná norður í suðurhluta Póllands.  Það er því lítið um fyrirstöðu eða fjalllendi sem sogar til sín úrkomuna á leið loftsins úr vestri austur yfir Eystrasaltssvæðin, Þýskaland, N-Pólland og þar um slóðir. 

Á sumrin sér sterk sólin og uppgufun af hennar völdum að halda jarðveginum sæmilega þurrum, en þegar kemur fram á haustið nær ekki vatn sem rigningin skilar að renna burt nægjanlegum mæli sökum flatneskjunnar. Afrennsli er í átt til fljótanna Dnjépr og Dvínu. Því flýtur allt í aur og drullu, þar til veturinn með sínu frosti nær yfirhöndinni, oftast seint í nóvember. Jarðvegurinn frýs þá í kjölfarið.  Snjór getur síðan oft orðið þó nokkur yfir vetrarmánuðina.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta var skemmtileg grein. Gaman væri að halda til haga hvernig við Íslendingar myndum orða þetta. Það sem ég þekki nú helst er bara "drulla", "mauk", gjarnan með orðinu "súpa" hengt framan eða aftan við, "svað", "jukk", "búðingur" og margt annað.

Í vorþíðunum tölum við um holklaka, og svo að það séu komin göt í hann, - það er jú þegar að klakaþilið sem heldur vatninu ofan á sér  fer loks að gefa sig og hleypa því í gegn.

Rétt áður en göt koma í klakann, og eftir miklar rigningar, þá er mesta "súpan", þar sem blanda af yfirborðsvatni og mold liggur einfaldlega ofan á klakanum.

Svona dreifbýliskall eins og ég þekki þetta allt of vel. Þetta er nefnilega hundleiðinlegt, færð um land engin, og sé einhver umferð á fénaði þá er landið eitt svað á eftir. Þetta er líka tíminn sem mest er auglýst um takmarkanir á öxulþunga.

 Napóleon klikkaði á þessu, og Hitler líka. "Drullusúpan" var ekki tekin með í reikninginn. Hitler flaskaði reyndar á öðru til viðbótar. Þar sem afar langt er frá Norðurhluta Sovétríkjanna til Svartahafs (Þetta voru gífurlegar flutningsleiðir) þá er mismunurinn á árstíðum verulegur. Sumsstaðar "súpa", en ekki endinlega alls staðar, og ekki á sama tíma. Þetta þekktu heimamenn í þaula.

Svo er það landslagið, - um mitt Rússland um það bil er gífurlegt mýra-og flóa svæði, sem illfært er og jafnvel ófært ökutækjum mestan eða allan hluta ársins.Þar væri þá helst fært um há-vetur í nógu miklum gaddi.

En þeir kumpánar, Hitler og Bóný, voru nú ekki beinlínis búnir að stúdera Landeyjarnar eða Mýrdalinn.....

Jón Logi (IP-tala skráð) 12.11.2009 kl. 10:31

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ófarir Þjóðverja gegn Rússum í stríðinu eru oft skrifaðar á kaldan vetur eða þá drullu. Það hefur spilað eitthvað inn í en aðalástæðan var herfræðileg eðlis. Má ekki þakka hernaðarlist Rússa eitthvað eftir að þeir fór að jafn sig eftir upphaflega sjokkið? Það er svo oft látið í veðri vaka að veðráttan hafi unnið stríðið fyrir Rússana.

Sigurður Þór Guðjónsson, 12.11.2009 kl. 12:02

3 identicon

Fróðleg úttekt. Fátt finnst mér skemmtilegra en að fá svpna einfaldar og góðar skýringar á alræmdum náttúrufyirirbærum. Eg þekki það af eigin raun að það getur verið mikil drulla í Rússlandi. Eftir dvöl mína þar eystra fyrir 17 árum var eg alveg uppgefinn á landi (og þjóð að einhverju leyti) og stal þá og skældi vísu eftir Egil Jónasson svo hún varð svona:

Farð' í rassgat Rússaland

rotna fúla skítaland

andskotinn á engin nöfn

yfir öll þín forarsöfn.

Eg hef reyndar sæst ágætlega við Rússa og þeirra heimaland síðan.

Áskell Örn Kárason (IP-tala skráð) 12.11.2009 kl. 15:06

4 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Voru þeir ekki líka of seinir í innrásina? Þeir ætluðu að æða inn í Rússland strax í sumarbyrjun en lentu í allskonar veseni á Balkanskaganum um sumarið sem frestaði innrásinni fram í ágúst.

Emil Hannes Valgeirsson, 12.11.2009 kl. 15:19

5 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Kannski ekki alveg í ágúst, svo ég leiðrétti sjálfan mig. Innrásin hófst 22. júní en átti að hefjast um miðjan maí. Þeir vissu allavega að það þurfti að fara þarna inn snemma um sumarið, væntanlega hafa þeir vitað af haustleðjunni, en veturinn sem á eftir fylgdi var síðan óvenju harður.

Emil Hannes Valgeirsson, 12.11.2009 kl. 15:28

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Stærstu mistök Hitlers voru þau að halda ekki áfram seint í ágúst þegar leiðinn um Smolensk til Moskvu blasti við, heldur skipa Guderian að taka 90 gráðu hægri beygju til að þjóta í suður og hjálpa til við stærstu innilokun hers í veraldarsögunni suður í Ukrainu.

Fyrir bragðið lenti Guderian fyrst í drullunni og síðar í frosthörkum rússneska vetrarins þegar nálgaðist Moskvu.

Verst var þó fyrir Þjóðverja að þessi afdrifaríka töf á framsókninni til Moskvu gaf Rússum tækifæri til að koma með skæðasta nýja vopnið sitt, T-34 skriðdrekann á vígstöðvarnar einmitt þegar mest á reið og auk þess með best búnu og þjálfuðu hersveitir Rússa frá Síberíu, sem fóru landleiðina frá austurlandamærum Rússlands eftir að séð varð að Japanir hugðu ekki á innrás.

Í hinu miðstýrða landi var Moskva mikilvægari en herinn sem lokaðist inni í Ukrainu.

Um Moskvu lágu allir þræðir samgangna og stjórnunar ríkisins.

Ég hef komið á staðinn sem er 15 kílómetra frá miðju Moskvuborgar þar sem Þjóðverjarnir voru stöðvaðir og magnað að sjá hve litlu munaði að þeim tækist ætlunarverk sitt.

Ómar Ragnarsson, 12.11.2009 kl. 21:54

7 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Innrásin í Rússlands tafðist um fimm vikur vegna sadistískrar árásar Hitlers á Júgóslavíu og um sex vikur í viðbót vegna frestunar sóknarinnar til Moskvu.

Síðan má geta þess að stærstu mýrar Evrópu, Priphet-síkin, eru í Hvíta-Rússlandi en um þær er öllum herjum ófært og urðu Þjóðverjar því að ráðast í tveimur aðskildum fylkingum inn í Rússland.

Ómar Ragnarsson, 12.11.2009 kl. 21:57

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Eitt enn: Pripyet-mýrarnar eru jafn stórar og allt Ísland !

Ómar Ragnarsson, 12.11.2009 kl. 22:03

9 identicon

Þessi þráður er að snúast upp í umfjöllun um Barbarossa-áætlunina og örlög hennar.  Mér sýnast fræðingar reyndar ekki vera á einu máli um það hvort hina veðurfarslegu aðstæður skiptu í raun sköpum í þessu stríði, þótt augljóst sé að drullan og kuldinn kom niður á áformum Þjóðverja.  Þeir gerðu þó líklega sín stærstu mistök í því að ráðast með hatursfullu offorsi á heimamenn í Hvítarússlandi og Úkraínu - die Slavische Untermenschen. Stór hluti heimamanna fagnaði Þjóðverjum og þeim hefði ekki veitt af því að fá einhverja tugi milljóna af þeim til liðs við sig. Rasismi nasistanna og fyrirlitning á "óæðri" þjóðum varð til þess að þeir misstu af tækifærin til að færa sér óvinsældir ógnarstjórnar Stalíns í nyt.  Þetta gerðu þeir þrátt fyrir að ýmsir þýskir sérfræðingar gerðu sér einmitt vonir um að almenningur í Sovét auðveldaði þeim leikinn með því að rísa upp gegn sínum kúgurum. 

Hitt er svo enn annað mál, að margir eru þeirrar skoðunar - svona eftir á að hyggja - að Barnarossa hafi verið dauðadæmt ævintýri frá upphafi. Þrátt fyrir alla sína veikleika var styrkur Rússa meiri en svo að Þjóðverjar ættu raunhæfa möguleika á að yfirbuga þá, enda kraftar þeirra dreifðir.  150 milljónir á móti rúmlega 60, heimavöllurinn og hið víðáttumikla bakland, gríðarlegar auðlindir: þetta vann allt með Rússum svo ekki sé minnst á gríðarlega mikilvægan stuðning vesturveldanna í formi Lend-Lease.  

Áskell Örn Kárason (IP-tala skráð) 13.11.2009 kl. 13:49

10 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég er einmitt að lesa þriggja binda verk um Þriðja ríkið eftir Richard Evans. Þar er hvergi minnst á drullu eða kulda sem megin áhrifavald um ófarir Þjóðverja heldur einnitt ýmislegt af því sem Áskell Örn telur upp og líka það að Rússum tókst vel að skipuleggja varnir sínar þegar á leið og áttu góða herforingja. Rauði herinn var orðinn öflugasti landher heimsins með skriðdreka sínar og skotflaugar þegar líða fór á styrjöldina. Það var ekki veðráttan sem gerði meginmuninn um tap Þjóðverja heldur ýmis hernaðarleg mistök Þjóðverja og hernaðarlist Rússa þegar á leið. Þó vesturveldin hefðu ekki komið til hefðu Rússar náð til Berlínar og síðan alla leið að Atlantshafi á eigin vegum. 

Sigurður Þór Guðjónsson, 13.11.2009 kl. 17:00

11 identicon

Drullan fór illa með Napóleon árið 1812, að því leyti að dráttarklárar skiptu öllu máli á þeim tíma og þeir hreinlega gáfust upp og sprungu af erfiðinu við að draga vagna og stórskotalið með mjó kerruhjól í botnlausu svaði. Bónaparti reyndi að koma nokkur hundruð þúsund manna her með yfir 1000 fallbyssur og rúmlega milljón hross um vegaslóða sem voru alveg kolómögulegir, jafnvel á þeirra tíma mælikvarða. Varla meira en óljósir slóðar úti á túni. Rússnesku herforingjarnir sem reyndu að verja vesturhluta landsins gegn innrásinni kvörtuðu reyndar líka yfir vegleysunum. Sama drullusúpan var svo uppi á teningnum hjá Þjóðverjum og það þótt þýska herforingjaráðið hefði rannsakað herferð Napóleons (í óþökk Hitlers) nokkuð gaumgæfilega.

Væri gaman að vita hvernig rasputitsa tíminn kemur við fólk á okkar tímum, hvort þetta hefti nútímasamgöngur.

Gunnar Valdimarsson (IP-tala skráð) 13.11.2009 kl. 20:14

12 identicon

http://www.youtube.com/watch?v=i9X0KirJX_Q&feature=fvw

Þarna er reyndar tékknesk framleiðsla á ferðinni, en Kamaz trukkarnir frá Rússlandi eru ekki síður góðir í drullu.

Þorkell Guðbrands (IP-tala skráð) 13.11.2009 kl. 22:27

13 Smámynd: Sigurjón

Burtséð frá öllum stríðspælingum, þá er þetta fróðlegur og skemmtilegur pistill hjá þér Einar og hafðu þökk fyrir það!

Sigurjón, 14.11.2009 kl. 06:11

14 identicon

Þetta er allt of góður þráður til að falla í svefn. Skal ég því bæta nokkru við sem er býsna fróðlegt. Tengist það öllu þrennu, Veðurfari, jarðvegi og hernaði,og nokkuð meiru.

Ómar kemur mjög vel að þessu í sambandi við Prypiet mýrarnar. Þarna er svæði á stærð við Ísland, og að mestu ófært vélknúnum ökutækjum. Gunnar nefnir svo vandræði Napóleons í sambandi við hestana (Gunnar, ertu kannski Gunnar leiðsögumaður?)

Þjóðverjar nefnilega byggðu mjög mikið af sínum flutningum í seinnastríði á hestum!!!!! Alveg ótrúlega. En þeir nýttu sína eigin dráttarhesta og hálfblóðshesta á meðan Rússar byggðu á smærri og seigari hestum, ekki ólíkt þeim íslenska. Líka léttari kerrum. Og svo var hesturinn bæði seigari í for, í kulda og gagnvart fóðri heldur en þeir þýsku. Enda á sinni heimaslóð. Enda var niðurstaðan sú að hrossa-flutningar Rússa gengu afar mikið betur en hjá Þjóðverjum.

Einn "Rangæingur" var hrossadýralæknir hjá þýska hernum í þessu klandri. Karl Bruckner sem lengi var héraðsdýralæknir á Hellu. Hann var nú ekki sérlega hrifinn af aðstæðum þar eystra.

En Rússland er ekki bara Rússland. Frá Moskvu til Sevastopol (Á Krímskaga, aðalhöfn Sovétmanna til Svartahafs) eru nefnilega ca 1.200 kílómetrar í loftlínu, nokkurn veginn Norður-Suður, sem eitt sér er nóg til að gera töluverðan mun hvað varðar veðurfar. Og svo er Krímskagi umlukinn hafi. Svartahaf og svo Azov flóinn. Fyrir vikið eru frost þar sjaldséð, og þar með talin nátengd Rasputitsa. Svo er úrkoma þarna ekki svo mikil. Baðstrendur hinnar æðri - jöfnu borgara Sovétríkjanna voru jú við Svartahaf. Sumarhitar í Júlí eru svona nálægt 28 gráðum í Júlí, en vetrarhitar (Janúar) um frostmark, hlýrra við ströndina.

Í Moskvu er verið að tala um allt aðrar tölur. Sumrin eru blautari og svalari (þótt það geti orðið heitt), og veturnir mun kaldari. Sem sagt, ákjósanleg skilyrði fyrir haustfor, stálgadd og tilheyrandi holklaka með allsherjar drullusúpu. Gaman væri nú ef Pistilhöfundur myndi gefa okkur hitagraf með Moskvu annars vegar og Sevastopol hinsvegar.

Og þarna liggur hernaðar-hundurinn grafinn. Suðurhlutinn við Svartahaf bauð upp á góða flutninga allt árið, á meðan norðurhlutinn leið fyrir takmarkanir á öxulþunga niður í nánast ekki neitt. Og flutningsleiðar á vatni höfðu sínar takmarkanir þar sem að vel sunnan við Moskvu lagði allar megin-vatnsleiðir um nokkuð skeið.

Hershöfðingjar hafa margir flaskað á slíku. En sumir ekki. Það hafa verið háðar mannskæðar orrustur um svæði sem tengjast þessum greiðfæru leiðum. Má nefna Krímstríðið blóðuga á 19. öld (Ath, Krímskaginn er líkt og vestrfjarðakjálkinn, ekki nema nokkrir km á breidd þar sem mjóstur er), og svo um yfirráð um Bosphorus sund, sem er ekki ýkja breitt, - flutningsleiðin mikla inn á Svartahaf þar sem orrustan um Gallipoli tengdist beint, 1917.

Ætli þeir kenni ekki veðurfræði í West Point???

Jón Logi (IP-tala skráð) 15.11.2009 kl. 14:18

15 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Við ættum kannski ekki að vanmeta stríðsgæfuna eða ógæfuna. Þegar Þjóðverjar áttu aðeins stutt eftir að Moskvu í lok nóvember skall veturinn á af öllum þunga þar sem frostið fór niður í 40 stig og veturinn varð sá kaldasti í 150 ár. Fram að því hafði innrásin verið ein sigurför.

Vandræðin byrjuðu fyrir alvöru með þessu kuldakasti sem hafði áhrif á allt sem kom á eftir og gerðu vonir Hitlers að engu um að sigra Rússa fyrir jólin með öflugu leifturstríði. Hitler vissi sennilega líka alltaf að langvarandi stríð yrði mjög erfitt.

- eða það held ég allavega og svei mér þá.

Emil Hannes Valgeirsson, 15.11.2009 kl. 14:46

16 identicon

Ekki bara stutt, heldur örstutt, - eins og Ómar benti á ca 15 km frá Kreml.Enda skoðuðu Þýskir herforingjar laukspírurnar á Kremlarturnum í sjónaukum sínum.

Vetur þessi var harður og hitti illa á fyrir skjóllausa Þjóðverja. Þeir hefðu jú getað verið eitthvað fyrr á fartinni. Ómar nefnir 5 vikna töf vegna hernaðar á Balkanskaga.

Vissulega hafði hann sitt að segja, en bent hefur verið á tvennt. Annars vegar var seint vorið 1941 í N-Rússlandi þannig að færð var vart upp á sitt besta fyrr en um það bil er innrásinn hófst. Og svo hitt, að hinn seinfæri Balkanskagi undir þýskri stjórn myndaði tengingu og ákveðið öryggi gagnvart bandamönnum Þjóðverja, Ítölum öðrum megin, og svo Ungverjum og Rúmenum.

En sveiflan hans Guderians var töf sem ekki verður þrætt fyrir. Og sjálfur fór hann í gröfina al-staðfastur á því að án þessarar suðursóknar hefðu Þjóðverjar náð Moskvu, og hefðu Rússar ekki gefist upp þá þegar, hefði verið nægur tími til stefnu til að keyra suðurúr á undan vetrinum.

Hann hefur sem sagt verið veðurfræðilega þenkjandi kallinn ;=)

Jón Logi (IP-tala skráð) 15.11.2009 kl. 22:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 3
  • Sl. sólarhring: 8
  • Sl. viku: 51
  • Frá upphafi: 1788784

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 49
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband