Furðufrétt RUV um veðurfarsbreytingar

Í gærkvöldi mátti lesa frétt á vef RUV af loftslagsmálunum.  Inntakið er það að hækkað hitastig valdi auknum líkum á stríðsátökum í Afríku.  Vísað er í bandaríska vísindamenn sem komist hafa víst að þessari niðurstöðu.  Þekkt eru átök sem blossa stundum upp í Afríku á milli ættbálka eða þjóða vegna þurrka. Þá snýst baráttan vitanlega um brauðið í orðsins fyllstu merkingu.

RUV_25nov 2009.png

 

 

 

En það er niðurlag fréttarinnar sem fær mig eiginlega til að brosa út í annað. Hvatt er til þess að þróaðar verði nýjar og erfðabreyttar matjurtir sem þoli betur mikinn hita, en þær sem ræktaðar eru í dag.  Þarna er hlutunum snúið á hvolf.  Ekki veit ég um neina plöntutegund sem þrýfst ekki við aðeins hærri hita en sitt kjörhitastig ef hún hefur nægt vatn.  Hærri hiti getur leitt til minni úrkomu og þar með þurrkum í Afríku og víðar. Matjurtirnar visna  sem sagt vegna minni jarðvegsraka þar sem meðalúrkoma dregst eitthvað saman og uppgufun færist jafnframt í aukana (vegna hærri meðalhita)  Einnig segir í fréttinni að heitt veður auki líkurnar á stríði um 50%. 

Ja hérna segi ég nú bara og þykir mér orsakasamhengið fremur langsótt. En hvað skyldi mannfjölgun ein og sér auka líkur á stríði í Afríku ? Spyr sá sem ekki veit.

Líklega er þessi frétt úr smiðju Þorvaldar Friðrikssonar fréttamanns, en undanfarna morgna hef ég vaknað við fréttamola úr hans ranni, sem eru þýðingar erlendra stuttfrétta um afleiðingar veðurfarsbreytinga.    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Er ekki næsta stig að skrifa þetta á Satan sjálfan. Ég er viss um að einhver evangelískur háskóli gæti komist að þeirri niðurstöðu eftir að rýna náið í ritningarnar. Gott ef ég hef ekki heyrt það nú þegar.

Nú vaða gervivísindi uppi sem aldrei fyrr, sköpunartrúarfólk með vísindagráður, kostaðar af öfgatrúarhópum ,vaða uppi með gríðarlegt fjármaagn á bak við sig og ráðast að undirstöðum vísindanna með hindurvitnum.  Kenningar vísindanna eru skyndilega "bara kenningar" og ekki nokkur greinarmunur gerður á hypothesu og theory. Tölfræðiniðurstöður um krabbameinsvalda eða krabbameinslækningar birtast á síðum virtra blaða. Nú virðist sem það sé jafngilt alvöru læknisfræðirrannsóknum að háskólakrakkar á fyrsta ári komist að því að ástæður krabbameins geti verið þær að fólk sé einhleypt, örvhent eða endurskoðendur.  Nýaldarlæknisfræðin (alternative) er farin að kenna sig við skammtafræði og strengjafræði, hómópatía er viðurkennd læknisgrein í mörgum löndum, fólk getur fengið, DNA nudd og Stofnfrumunudd með aðstoð kristallameðferðar og hvað ekki...

Er ekki tími til kominn fyrir akademíuna að ræskja sig og segja stopp nú stýrimann?  Aðhaldið gæti til dæmis byrjað á því að aga fjölmiðla og setja þar fólk með lágmarks vísindainnsæi.  Mér finnst þetta persónulega orðinn alger skandall.  Þetta veltir utan á sig eins og snjóbolti sem enginn getur stöðvað nema vísindasamfélagið sjálft. 

Jón Steinar Ragnarsson, 26.11.2009 kl. 08:51

2 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Þorvaldur les alltaf heimsendaveðurfréttir sínar á svo dramatískan hátt að maður efast alls ekki um að heimsendir sé á næsta leyti ef hann hafi þá bara ekki þegar átt sér stað.

Sigurður Þór Guðjónsson, 26.11.2009 kl. 10:11

3 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Fróðlegt innlegg þitt um matjurtirnar. Hitt er þekkt að kreppa eykur ófriðarlíkur. Dæmi um það er íslenska Sturlungaöldin, franska byltingin og aðdragandi seinni heimsstyrjaldarinnar.

Ómar Ragnarsson, 26.11.2009 kl. 15:08

4 Smámynd: Sigurjón

Sæll Einar.

Það er vont þegar svona ,,non-facts" rata í fréttir af hnattrænni hlýnun og valda því að sumir trúa þessu eins og nýju neti.  Hvernig hægt er að trúa neti er mér hulin ráðgáta, en engu að síður þarf að uppræta svona ,,ekki-fréttir".  Alvöru vísindi og staðreyndir verða að brjótast fram í dagsljósið á kostnað svona gervivísinda og vitleysu.

Kveðja úr 33°C hita, Sigurjón

Sigurjón, 26.11.2009 kl. 17:46

5 identicon

Talandi um skrítna fréttamennsku - ekki fer mikikð fyrir umfjöllun um Climategate. 

Sjá CRU vísindamenn "glæpamenn" og

http://gullvagninn.blog.is/blog/hin_nyja_heimsyn/entry/984126/

og Þögguð frétt: Climategate

Gullvagninn (IP-tala skráð) 26.11.2009 kl. 21:01

6 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Gullvagninn: loftslag.is er búið að fjalla um efnið að einhverju leiti  - Að stela bíl og nota fyrir sjónvarp og Hakkarar afrita tölvupósta og skjöl.

Höskuldur Búi Jónsson, 26.11.2009 kl. 22:23

7 identicon

Ómar Ragnarsson. Mér finnst söguskoðun þín hér að ofan þó nokkuð frá raunveruleikanum. Það er hárrétt að orsakir frönsku byltingarinnar og seinni heimsstyrjaldarinnar voru kreppur.

En Sturlungaöldin spratt af allt öðrum orsökum, hún var hreinræktuð valdabarátta. Orsök hennar var engan vegin efnahagsleg kreppa eða skortur á matvælum. Þvert á móti var einstakt góðæri á Íslandi á Sturlungaöld, akuryrkja í blóma og búsmali mikill hvarvetna á landinu, vetur voru einstaklega mildir.

Þetta góða árferði gerði Sturlungaöld mögulega. Höfðingjar gátu farið með heri sín, fleiri hundruð manna undir vopnum, milli landhluta hvort sem var að sumri eða vetri. Hvarvetna var nægur búsmali til að ræna til átu, eflaust korn víða á bæjum.

Það var einmitt á þessum árum sem Snorri Sturluson rak öll sín bú í Borgarfirði, Álftanesi, Rangárvöllum og víðar og gat árlega slátrað hundruðum kálfa til að fá skinn til skrifta.

Það var svo sannarlega ekki kreppa, skortur eða harðindi sem orsökuðu styrjaldir Sturlungaaldar, góðærið gerði þær mögulegar. 

Sigurður Grétar Guðmundsson (IP-tala skráð) 27.11.2009 kl. 16:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 9
  • Sl. viku: 75
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 64
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband