Manngerð snjókoma við áramótabrennur ?

Um leið og ég óska lesendum veðurbloggsins gleðilegs árs með þökk fyrir áhugann og innlitin á síðasta ári langar mig að grennslast fyrir hjá fleirum nokkuð sem vakti mikla furðu mína í gærkvöldi, gamlárskvöld. 

4231796779_5eb205174f.jpgÞegar búið var að skíðloga um stund í myndalegum bálkesti við Arnarvog í Garðabæ fór skyndilega að snjóa.  Fyrst hélt ég að þetta væri aska sem félli yfir okkur, því alls ekki átti ég von á úrkomu af nokkru tagi eins og veður var í gærkvöldi.  Tók eftir því að fleiri voru gáttaðir og litu í forundran til himins. Élið stóð í um 10 mínútur og snjókoman var vissulega minniháttar.

Það fyrst sem mér kom í hug var hvort bálkösturinn sjálfur hefði mögulega getað átt þátt í þessari óvæntu snjókomu.  Lítum betur á málið.  Brennur eins og við þekkjum þær á gamlárskvöld eru miklir hitagjafar.  Þær koma af stað uppstreymi loftsins og tiltölulega rakt loft nærri yfirborði dregst upp í jöðrum uppstreymisins. Málið er hinsvegar að óhugsandi er að bálköstur af þessari stærð nái að hreyfa við lofti í nokkurra km hæð. Við hefðbundinn éljagang á sér stað lóðstreymi og framköllun úrkomu í skýjum sem teygja sig hátt til himins (allavega í 5-7 km hæð).  Ekkert slíkt var á ferðinni í gær. Hins vegar má líta til þess að í hægvirðinu var greinilegur púðurreykur í lofti og í honum er gnægð af sóti en það virkar eins og  stórir þéttikjarnar fyrir þéttingu rakans.  Við þær aðstæður getur rakinn í loftinu náð að þéttast þó rakastigið sé ekki nema 75-80%.  Í venjulegu "hreinu lofti" á mettum sér ekki stað fyrr en við 99-100% raka, allt eftir framboði á þessum þéttikjörnum í lofti.  

Vel þekkt er frá iðnaðarsvæðum í N-Ameríku og á Englandi að þar geti snjóað staðbundið þó himininn sáéað öðru leyti heiður á stóru svæði.  Í breska tímaritinu Weather var nýlega lýst slíkum atburði á Suður-Englandi. Þá varð sporrækt í héraði þar sem loftmengun þykir umtalsverð. Snjóhulan kom greinlega fram á veðurtungli, en yfir Bretlandseyjum var þá háþrýstingur og alls engin úrkoma í nokkur hundruð km radíus. 

Ég hef haft spurnir af þessháttar éli við brennu á Álftanesi, eins geði drjúgt él á Ísafirði við bálköstinn þar, en líklegt má telja að sú snjókoma eigi sér eðlelegar orskakir, a.m.k. í grunninn. Á Veðurstofunni varð ekki vart við neina snjókomu í gærkvöldi, það hef ég kannað. 

Fróðlegt væri að heyra hvort aðrir hafi orðið vitni að einhverju sambærilegu við áramótabrennur í gær.

Ljósmyndin er frá því í gærkvöldi af ótilgreindri brennu á Höfuðborgarsvæðinu. Hún er fengin af myndavef Sigga.  Þarna má sjá margar glæsilegar flugeldamyndir sem teknar voru í gærkvöldi.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Svo má auðvitað ekki gleyma því að svona brenna framleiðir auðvitað gríðarlegt magn vatns við brunann. Getur ekki verið að eitthvað af því þéttist í kuldanum, sérstaklega þegar agnirnar eru til staðar?

Benedikt (IP-tala skráð) 1.1.2010 kl. 12:38

2 identicon

Ég var við Ægissíðuna og fann eitthvað falla á mig og myndavélina en áttaði mig ekki á því hvað það var. Það var ekki sót.

Jóhann E. (IP-tala skráð) 1.1.2010 kl. 12:39

3 identicon

Stóð við brennuna í Skerjafirði um kl. 9:30 í gærkvöldi og þá byrjaði að snjóa yfir okkur, mjög litlum og rökum kornum - héldum fyrst að þetta væri sót en þetta var greinilega snjór. Gengum af stað heim og þegar komið var nokkra metra frá brennunni varð ekki lengur vart við úrkomu.

BS (IP-tala skráð) 1.1.2010 kl. 13:23

4 identicon

Þakka Einar fyrir enn einn áhugaverðan pistilinn. Í Ytri-Njarðvík uþb við sjávarmál lagðist mikið óloft yfir nálægt miðnætti, mikið var sprengt af tertum og flugeldum  í nærliggjandi íbúðahverfum, yfirleitt ofar í landinu, svo sumum varð hugsað til asmasjúkra. Það vakti líka nokkra undrun að fíngerð rigning frekar en snjókoma hófst nálægt miðnætti, en ekki varð mikið úr henni og ekki stóð þetta lengi yfir. Engin áramótabrenna nálægt.

KB (IP-tala skráð) 1.1.2010 kl. 13:47

5 identicon

Ég stóð upp á holti (Klapparholti) í Hfj og þar snjóaði aðeins rétt eftir kl 21 þegar ég hljóp aðeins út í bíl.  Veit ekki til þess að nein brenna hafi verið mjög nærri.

Sonja (IP-tala skráð) 1.1.2010 kl. 13:51

6 identicon

Ég varð bæði var við snjókomu við brennuna í kópavogi í gær en fann líka fyrir snjókornum fyrir utan heima á Álfhólsvegi í gær, það var rétt fyrir miðnættið í gær.

þórður (IP-tala skráð) 1.1.2010 kl. 14:21

7 identicon

Það komu líka nokkur korn á Seltjarnarnesi.

Gleðilegt ár.

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 1.1.2010 kl. 16:07

8 Smámynd: Emil Hannes Valgeirsson

Þetta eru áhugaverðar vangaveltur. Mér fannst ég finna fyrir örlitlum frostúða í Hlíðahverfinu um miðnætti. Væntanlega hefur rakastig verið hátt og frekar milt loft yfir borginni.

Emil Hannes Valgeirsson, 1.1.2010 kl. 16:34

9 identicon

is that a fire?

Andrei (IP-tala skráð) 1.1.2010 kl. 19:20

10 identicon

frostúði suður með sjó í Njarðvík á miðnætti - og móða mistur þoka og mengun

Oddný H. (IP-tala skráð) 2.1.2010 kl. 00:42

11 identicon

Var á Seltj.nesi og þar sá ég einfaldlega dökkan bakka í hægri vestanátt koma inn yfir bæinn af hafi með mjög lítilli snjókomu um kl.2100.

Halldór (IP-tala skráð) 2.1.2010 kl. 00:55

12 identicon

Var einmitt á ferðinni frá Rvík til Borgarfjarðar í gærkvöldi og man eftir smá snjókomu - var mjög hissa á henni - en man því miður ekki hvar hún var - en allavega engin brenna nálægt ;o)

Ása Dóra (IP-tala skráð) 2.1.2010 kl. 03:14

13 Smámynd: Einar Sveinbjörnsson

Þakka viðbrögðin frá ykkur öllum. Margir urðu varir við lítilsháttar snjókomu um kl. 21, s.s. í Hafnarfirði, Garðabæ, vesturhluta Kópavogs og á Seltjarnarnesi.   Aðrir fundu vott af frostúða nærri miðnætti.  Það er svo sem ekki hægt að útiloka að smávægilegur bakki hafi komið af hafi.  Útilokað er að skera úr um það hvort uppstreymi frá brennum hafi haft áhrif á þéttingu rakans og framköllun úrkomu í því lofti sem var yfir höfuðborgarsvæðinu á gamlárskvöld. Kenningin er hins vegar áhugaverð.   Benedikt bendir líka á það aðvið brunann í timbrinu losni úr læðingi talsvert vatn, því þó svo að timbrið hafi vafalítið talist þurrt inniheldur það ævinlega raka eða vatn sem gufar upp og berst upp með öðrum gufum og þéttist við blöndun við kaldara loft.

ESv 

Einar Sveinbjörnsson, 2.1.2010 kl. 09:05

14 identicon

Það þarf meira að segja ekki raka í timbrinu til. Við fullkominn bruna fæst nefnilega eitthvað í líkingu við:

CnHm + O2 -> CO2 + H2O

Þar sem CnHm táknar eldsneytið (n og m eiga að vera í subscript), í þessu tilfelli timbrið í brennunni. Við brunann (hvarf eldsneytisins við súrefnið) myndast nefnilega koldíoxíð og vatn. Þetta er reyndar mjög einfölduð mynd, en nothæf til að útskýra "vatnsframleiðslu" brennunnar og reyndar alls bruna, þar með talið í bílvélum.

Benedikt (IP-tala skráð) 2.1.2010 kl. 11:20

15 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Hárrétt hjá Benedikt, vatnsgufa er yfirleitt hliðarafurð af bruna kolvetnis. Kolvetni eru gunneiningar lífrænna efna, þar með talið timburs. Þetta útskýrir t.d. reykinn sem kemur úr púströrinu á bílum, það er ekki koltvísýringur því hann er ósýnilegur, heldur er það vatnsgufa. Þegar gufan stígur í uppstreymi frá staðbundnum hitagjafa upp í kaldari loftlög þá er mjög eðlilegt ef hún þéttist og myndar úrkomu, tala nú ekki um ef sama loft er mettað af sótögnum sem flýta fyrir þéttingunni.

Guðmundur Ásgeirsson, 2.1.2010 kl. 18:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 50
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 46
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband