Ný mynd úr Hlíðarskál ofan Akureyrar

Hlíðaskál, 29. sept. 2008 / Jón Ingi CæsarssonJón Ingi Cæsarsson á Akureyri, varð við áskorun og náði nýrri mynd af Hlíðarskál og er mynd hans birt hér til glöggvunar og lesa má hans áhugaverðu útlistanir hér.  Fyrir ókunnuga er þess skál þar sem jökulfönn situr fram á haust ofan og sunnan við bæinn, en lengst til hægri á myndinni (sést ef hún er stækkuð) glittir í skíðasvæðið í Hlíðarfjalli.

Nú kólnar og sumarleysingum er hér með lokið.  Jón Ingi náði því að fanga á mynd jökulfannirnar eins og þær urðu minnstar þetta  sumarið.  Veðurfarið í sumar hefur farið illa með þessar fannir sem og annað sísnævi í háum fjöllunum á milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar. Þó nokkuð hefur tekið upp af gömlu hjarni, jafnvel áratuga gömlu.  Og þá er það stóra spurningin;  hafa fyrningarnar í Hlíðarskál nokkurn tíma verið minni svo einhver muni ? Helst væri að vænta einhvers álíka á árunum um 1940, t.d. 1939 eða 1943.  Ólíklegt er að góðar myndir til samanburðar séu þó til og því þarf að styðjast við minni elstu manna.    


Veturinn bankar á dyr Svalbarða

Longyearbyen_ág-sept2008.pngTíðin hefur þótt alveg ágæt síðla sumars norður á Svalbarða. Hitstigið ágætlega yfir meðaltali, en fyrir nokkrum dögum tók að kólna og enn er spáð kólnandi og -8°C nú eftir helgi. Veturinn virðist ætla að hellast yfir þarna norðurfrá af  þó nokkru afli.  Ekkert þarf þó að koma á óvart í þessum efnum enda komið fram yfir haustjafndægur og aukin útgeislun á norðurhjaranum leiðir til hraðrar kólnunar og síðar meir ísmyndunar þar sem yfirborðsseltan leyfir.

Kaldara veður djúpt norðurundan getur haft áhrif hér á landi, sérstaklega ef spáð er norðanátt, sem einmitt er raunin eftir helgi.  Ef svo fer má vænta talsverðra umskipta hér í veðrinu svo ekki sé nú tekið dýpra í árinni.  


Skaflar fyrir norðan

hlidarfjall_1990.jpg/Jón Ingi CæsarssonAkureyringar eiga líka sinn skafl sem fylgst er með sumar hvert. Jón Ingi Cæsarsson er mikilvirkur ljósmyndari sem fangar umhverfi sitt í Eyjafirði á listilegan hátt. 24. ágúst sl. vakti hann athygli á fönnunum í Hlíðarskál ofan Akureyrar í bloggi sínu.  Þá stóð m.a.:

Eitt að þeim sérkennum sem sett hafa svip á nágrenni Akureyrar eru fannirnar í Hlíðarskál og öðrum giljum og skálum í vesturfjöllunum og fjöllunum í Glerárdal. Þessar fannir hafa látið stórlega á sjá síðustu ár og það má segja að þessi þróun hafi hafist fyrir alvöru um 1996. Þá voru óvenju miklir hitar í september og þá sá ég í fyrsta sinn rofna tengingar milli fannanna".

Fyrri myndin var tekin í byrjun september 1990 og sú síðari 22. ágúst sl.  Veturinn 1990 var vissulega með þeim snjóþyngri og sumarið ekkert sérstakt svona hitalega séð og því ekki furða þó snjór hafi setið eftir í lok sumars á hæstu fjöllum.  Fyrir rúmum mánuði síðan voru snjófyrningarnar þá þegar orðnar heldur ræfilslegar.  Síðan þá hefur verið hálfgerð sumarveðrátta norðanlands.  2008_hlidarskal_220808.jpg/Jón Ingi CæsarssonMeðalhitinn í september þar til í fyrradag (1. - 25. sept) reyndist heilar 10.6°C á Akureyri og ljóst má vera að fannir hafa enn frekar látið á sjá.  Hér með er skorað að Jón Inga að koma á fram færi nýrri mynd af sköflunum í Hlíðarskál, ef þeir yfirhöfuð eru þarna enn til staðar ! 

En það er fleira sem hefur horfið en snjórinn. Gula Ladan í forgrunni frá 1990 er áreiðanlega ekki á sínum stað enn í dag. 


Sumar í skafli - myndaröð

Kristján Bjarnason starfsmaður Skógræktarfélags Reykjavíkur hefur m.a. þann starfa að vera umsjónarmaður útivistarsvæðisin ofan við Mógilsá og Kollafjörð.  Í sumar tók hann reglulega myndir upp að frægasta skafli landins í Gunnlaugsskarði.  Myndirnar tala sínu máli en þær eru allar teknar á sama staða á Kögunarhóli rétt austan við brúna yfir Mógilsá í um 250 m. hæð.  Vinnubíll Kristjáns er  á öllum myndunum lagt á sama stað og því ágætis viðmið.

Eftir veturinn voru umtalsverðar fyrningar í Esjunni, en langt sumar og hlýindi og sólgeislun, sérstaklega eftir 20. júlí, vann á skaflinum. Á endanum hvarf hann með öllu eins og sjá má.

(smellið tvisvar á myndirnar til stækkunar)

14. maí

gunnlaugsskar_14_mai_2008/Kristján Bjarnason

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

19.júní

gunnlaugsskar_19_juni_2008.jpg/Kristján Bjarnason

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

18. júlí

gunnlaugsskar_18_juli_2008.jpg/Kristján Bjarnason

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

4.ágúst - tveir skaflar í stað eins.

gunnlaugsskar_14_agust_2008.jpg/Kristján Bjarnason

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 3.sept -smá deplar, og þá dró fyrir og fór að rigna..

gunnlaugsskar_3_september.jpg/Kristján Bjarnason

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 18.sept -  dró frá í skamma stund.. og viti menn skaflinn var alveg horfinn !

gunnlaugsskar_18_september.jpg/Kristján Bjarnason

 

 


Loftslagsbreytingar og skipulag

c_documents_and_settings_heima_my_documents_my_pictures_stuttgart_432908.jpgSat í gær dálítið málþing um skipulag og loftslagbreytingar á vegum Skipulagsstofnunar.  Mönnum var þar tíðrætt um strauma og stefnur í þá veru hvernig hægt er að beita skipulagi til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.  Í máli Þorsteins Hermannssonar samgönguverkfræðings hjá Mannviti og Ellýjar Katrínar Guðmundsdóttur sviðstjóra umhverfis- og samgöngumála hjá Reykjavíkurborg komu fram nokkrar athyglisverðar tölulegar staðreyndir um breytingar sem átt hafa sér stað í Reykjavík á umliðnum árum.

  • Losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum hefur aukist hér á landi um hvorki meira né minna en 55% frá 1990.
  • Fjöldi bíla hefur aukist jafnt og þétt og telur nú meðal Reykvíkinga 676 bílar á hverja 1000 íbúa. 
  • Á tilteknu árabili fjölgaði íbúum Reykjavíkur um 7% en fólksbílum á sama tíma um 40%.
  • Kannanir sýna að um 75% allra ferða í Reykjavík eru farnar á einkabíl.  Afgangurinn skiptist á milli þeirra sem eru farnar gangandi, hjólandi eða með almenningssamgöngum.
  • Að óbreyttu má áætla að eknum kílómetrum í held sinni muni fjölga um 77% til ársins 2024 (frá 2004) og útblástur GHL eftir því.

Í máli Þorsteins kom fram að ekkert annað en hugarfarsbreyting á öllum sviðum samgangna og ekki síður í hugmyndum um skipulag dygðu til að hægja verulega á aukningu losunar á næstu árum.  Tómt mál væri að snúa þróuninni við.  Hann varaði við oftrú á alla veganna tæknilausnir sem svo mjög er haldið á lofti.  Þær dugi skammt þegar heildarmyndin er skoðuð. Meðfylgjandi mynd sýnir einmitt eina slíka kraftaverlausn sem mikið hefur verið látið með.  Léttlestir í núverandi skipulagi höfuðborgarsvæðisins eru vitanlega hálfgerð útópía a.m.k. að mínu mati. 

Skipulag framtíðarinnar sem tekur mið af því að allar vegalengdir verða styttri, skólar, leikskólar, vinnustaðir, verslanir og þjónusta, allt innan seilingar, þar sem hægt er að fara styttri ferðir gangandi eða hjólandi er kannski draumsýn, rétt eins og sú að hver fjölskylda komist upp með að láta einn bíl duga ?  Þar mætti hins vegar byggja léttlestir sem raunhæfan samgöngukost !

Patentlausnir eru ekki til þegar minnka á koltvísýringslosun frá samgöngum og mér hefur um langt skeið fundist ráðamenn og aðrir þeir sem höndla með þessi efni ekki sjá skóginn fyrir trjánum ef svo mætti segja.  Umræðunni er drepið á dreif og margvíslegum hugmyndum varpað fram, jafnt góðum sem vitlausum.  Meðvituð hugafarsbreyting er eina sem gengur, rétt eins og hjá einstaklingnum sem vill grenna sig að eftir að hafa fullreynt allar auðveldu leiðirnar og gangslitlu skyndilausnirnar. 

 


Loks styttir upp í henni Reykjavík

mbl.isNú kl. 9 að morgni 24. sept. hefur loks stytt upp í Reykjavík.  Fram að því hafði rignt látlaust án uppstyttu í rúman sólarhring eða frá því um kl. 5 í gærmorgun.  Úrkomumagnið var svo sem ekkert ofboðslegt eða um 20 mm.

Reykjavík er ekki þekkt fyrir stórrigningar, enda nýtur höfuðborgarsvæðið úrkomvars frá Reykjanesfjallgarðinum og Hengli. Til samanburðar komu á sama tíma og og yfir 140 mm í mælinn í Bláfjöllum.  Yfirlitt rignir því frekar lítið í einu í Reykjavík og oftast með uppstyttum.  Ég man vart eftir því að rignt hafi án þess að stytt hafi upp eina einustu stund þetta lengi á þessum slóðum. Held þá utan við þann samanburð létta súld sem fylgir oft þokulofti og liggur yfir svo dögum skiptir, gjarnan að haustlagi.  Sú úrkoma bleytir og finnst greinilega, en mælist hins vegar mjög lítil í magni talið.

Það voru hitaskil sem nálguðust frá vaxandi lægð hér í gærmorgun og frá þeim rigndi stöðugt.  Þau fóru yfir um  hádegi, við það hlýnaði um 3°C eða svo, en áfram rigndi frá skýjum í hlýja geira lægðarinnar, uns kuldaskilin nálguðust í gærkvöldi. Þau voru síðan að lulla sér til austurs í alla nótt.  

Myndin er fengin af vef mbl.is (klippt út úr netfrétt Þóru Kristínar Árnadóttur um rigninguna.)


Illa farnar aspir í Keflavík

Ásbjörn Eggertsson í Keflavík sendi mér þessar myndir sem sýna vel hvað seltuveðrið í síðustu viku fór illa með aspir í garði hans.  Sláandi er að sjá hvernig laufið hefur farið og  þann mun á sama trénu á því sem var áveðurs fyrir suðvestanáttinni og þeim hluta sem var hlémegin.  Áveðurs er laufið allt innþorðað og eins og það sé brennt en lítið sér á því laufi sem hefur staðið í skjóli.  Sökin er ekki bara seltunnar í lofti, heldur var blásturinn líka ákaflega þurr af hafi og aspir eru sérstaklega viðkvæmar fyrir þurrum vindum og mikilli útgufun vatns um laufblöð.

Þakka Ásbirni kærlega fyrir þessar athyglisverðu myndir.

Saltbrunnin ösp í Keflavík 22.sept 2008 / Ásbjörn EggertssonSaltbrunnin ösp (hlémegin) í Keflavík 22.sept 2008 / Ásbjörn Eggertsson


Í kjölfar Ike-lægðarinnar MODIS (3)

Brim við Reykjanestá 18.sept 2008/Einar SveinbjörnssonÍ hvössu SV-áttinni sem gerði fimmtudaginn 18.sept í kjölfar Ike-lægðarinnar, sjá kafla (2) hér á undan, gerði mikið brim SV-lands.  Öldumælingadufl Siglingastofnunar úti af Garðaskaga af til kynna 7-8 metra ölduhæð frama eftir degi enda var veðurhæðin á Garðskagavita 18-22 m/s þennan morgun.  Engan skyldi því undra að SV-áttin gæfi þunga úthafsöldu þennan morgun og mikið brim.  Hitt kemur hins vegar meira á óvart að brimskaflarnir skuli koma fram á tunglmyndum eins og hér sést afar vel.  Það er líkt og teiknað hafi verið með hvítum lit yfir strandlínu Reykjanessins og áfram austur með suðurströndinni.

Loftið sem barst úr suðvestri var sérlega þurrt, enda komið af hluta yfir Grænlandsjökul.  Um orsakir þess má lesa í fyrri færslu hér.  

Ljósmyndirna hér til hliðar eru teknar þennan dag um svipað leyti og MODIS myndin(250 m. upplausn) sem er sú sama og getið var áður með sandstókinn norðaustur yfir Hérað.  Brimskaflinn er við Reykjanestá á þeim stað sem afrennslisstokkur liggur frá Reykjanesvirkjun til sjávar.  Sjálfur var ég þarna á ferð og get vottað að öldurnar voru voru tilkomumiklar m.a. í Sandvík (hin myndin) þar sem Clint Eastwood tók sína stríðskvikmynd um árið.  

Mikil saltmóða lá yfir Reykjanesinu þennan dag og í veðurathugun á Keflavíkurflugvelli var skyggnið takamarkað á köflum og ekki nema 7 km.  Íbúar suðvestanlands fóru ekki varhluta af seltunni sem settist á glugga og heldur ekki Landsnet, sem varð fyrir minniháttar rekstrartruflunum þegar selta settist á einangrara.  Brim við Sandvík á Reykjanesi 18.sept 2008/Einar Sveinbjörnsson

MODIS-Terra 18.sept 1330

 

 


Í kjölfar Ike-lægðarinnar MODIS (2)


NOAA/Dundee 18.sept 0522Í fyrri færslu mátti sjá hvernig aurinn og sandinn norðan Dyngjujökuls lagði til norðurs yfir Fjöll og Möðrudalsöræfi og áfram yfir  Sléttu sl. miðvikudag.  Það var afleiðing S-storms í tengslum við Ike-lægðina.

Daginn eftir var vindáttin orðin suðvestlæg.  Lægðin sjálf var hægfara vestur af landinu og við fengum yfir okkur skýjasnúð hennar, eins og sjá má á tunglmynd Dundee hér til hliðar frá því laust fyrir kl.06 um morguninn.   Þá varð aftur nokkuð hvasst á landinu og norðan Vatnajökuls var veðurhæðin 20-25 m/s framan af deginum.  Mera var um ský en á MODIS-myndinni hér að neðan  má vel greina greina á milli skýjanna sandmökkinn sem nú lá til norðausturs og yfir Hérað.  Það er sjá sem yfir aurum Jökulsár á Fjöllum séu rákir af einskonar sandbólstrum sem berast undan vindi líkt og væru skýjabólstrar yfir hafi, t.a.m. þar sem hvass vindur stendur fram af hafísbrún.  Líkindi þessar tveggja gjörólíku fyrirbæra eru þarna klárlega til staðar, svona séð úr lofti. 

Á þessari tunglmynd sem tekin er í 250 m upplausn má líka sjá í fyrsta sinn hið nýja Ufsarlón Landsvirkjunar á Hraunum (austan Hálslóns).  Í fréttum var frá því greint að augnabliksrennsli jökulsár í Fljótsdal hefði ekki verið meira í síðustu viku í 25 ár. Því fer vatnið fljótt að safnast saman í lón, þó svo að lokað hafi verið fyrir rennsli að eins örfáum dögum fyrr.  Mikið rennsli skýrist mikið til af hlýindunum og því bráðnunar jökulís, en í stórrigningunni á miðvikudag sem mest er vissulega sunnan í Vatnajökli kembir yfir hájökulinn og talsvert af úrkomunni hafnar norðan vatnaskilanna.  Ekki síst á það við austast þar sem Vatnajökull er "mjór" ef svo mætti segja. 

 MODIS-Terra 18.sept 1330


Í kjölfar Ike-lægðarinnar MODIS (1)

Illviðrið sem hér gekk yfir á þriðjudagskvöld (17. sept) og fram eftir miðvikudegi tók á sig ýmsar myndir og eitt og annað til frásagnar.  

Sem betur fór hlutust engin slys af og eignartjón var ekki mikið. Leifar fellibylsins Ike báru með sér rakt loft af hitabeltisuppruna. Þó svo að mikið hafi rignt almennt séð á landinu fór svo eins og gjarnan verður í sunnanátt að Vatnajökull veitir var fyrir úrkomunni á öræfunum norðan hans.  Þar sem Jökulsá á Fjöllum kemur undar Dyngjujökli flæmist hún um víðáttumikla aura áður en kvíslarnar koma saman í einum farvegi suður af Upptyppingum.  Jökulleirinn í aurum á milli kvíslanna er fínn og afar fokgjarn og þekkja menn vel til  sandfoks á þessum slóðum í strekkings sunnan- og suðvestanátt.

Veðurhæð var óskaplega mikil á þessum slóðum að morgni 17. september. Nálægar mælingar í Sandbúðum á Sprengisandi gáfu til kynna 30-40 m/s vindhraða til jafnaðar.  Þar rigndi hins vegar og jörð því blaut. Á myndinni sem hér fylgir (MODIS-Terra, kl.13:30. Upplausn 250 m)  má hins vegar sjá   hvernig vindurinn  rífur upp aur og sand norðan Dyngjufjalla á nokkuð breiðum kafla og hvernig strókurinn berst vel afmarkaður til norð-norð-austurs. Nærri vesturjaðri hans eru  Grímsstaðir á Fjöllum.  Í veðurathugun þar  á hádegi var sandmökkurinn svo dimmur að skyggnið var  ekki álitið vera nema rúmlega 1.000 m. Á meðan á þessu gekk var sérlega hlýtt í lofti og fór hitinn í 20°C á Raufarhöfn en eins og sjá má fóru menn þar heldur ekki varhluta af sandbylnum.

Austar á myndinni sést Hálslón vel sem er fullt um þessar mundir  og vatnsborð því í hæstu stöðu.  Einnig þar var sunnanstormur um morguninn skv. mælingum á veðurstöðinni við Kárahnjúka.

Terra 17.sept 13:30


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.9.): 2
  • Sl. sólarhring: 7
  • Sl. viku: 66
  • Frá upphafi: 1791704

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 49
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband