Sólin yljar, en hafið kælir

MODIS 2. júní 2012 12:55

Í gær laugardag háttaði svo til enn einn daginn að ekki var að sjá ský á himni yfir landinu.  MODIS-mynd frá því  kl. 12:55 sýnir vel hvernig landið birtist allt í risastórum egglaga heiðríkjubletti.

Suðvestanlands var örlítill landvindur í lofti (A-átt) framan af degi og náði hann að halda aftur af hafgolunni. Við það steig hitinn eftir því sem leið á daginn.  Varð svo sem ekkert tiltakanlega hlýtt, nema inn til landsins, rúmlega 20°C þar.  Hins vega var eftir því tekið hvað hélst hlútt fram eftir kvöldinu.  Ég er viss um að margir hafi setið úti við fram eftir.  Á sjóaranum síkáta í Grindavík var þannig tæplega 17°C kl. 21 í gærkvöldi.  Í mörg ár, jafnvel áratugi eiga menn þar í bæ eftir að minnast veðurblíðunnar á hátíðinni 2012 með tilheyrandi lýsingum !

En aftur að tunglmyndinni.  Takið eftir ílöngum skýjabakka úti af Garðskaga.  Þetta var þokubakki.  Gestir Hátíðar Hafsins í Reykjavík tóku eftir því upp úr kl. 15 þegar öskugrátt "ský" kom inn Kollafjörðinn og annað samtímis inn Skerjafjörðinn og með napur vindur.  Bakkinn leystist fljótt upp um leið og hann náði til lands þar sem jörðin var sólbökuð og hlý.  Ekkert varð úr neinu og raun var þetta aðeins stundarfyrirbæri.

Reykjavíkurhöfn 2. júní 2012 - Sigurður BogiFylgjast mátti með þessum eingangraða þokubakka á myndum frá því fyrr um daginn.  Upphaflega myndaðist hann úti fyrir Arnarstapa.  Barst hann þvert yfir Faxaflóann og stækkaði. Að endingu barst hann yfir land við Garðskaga og á Innesjum ein og áður sagði þar sem hann leystist upp og hvarf. Í stutta stund líkist þetta helst sandmistri, en kuldinn og rakinn fór ekki fram fjá manni. Myndin er frá Reykjavíkurhöfn í þann mund sem móskan barst yfir (Ljósm: Sigðurður Bogi Sævarsson).

Þokuslæðingur var líka við Vestfirði og djúpt úti af Húnaflóa, en við Austurland er þetta lágskýjabakki fremur en þoka.  


Það tíðindaverðasta í liðnum maí

g6pp30ge.jpgÓhætt er að segja að tíðarfarið í maí 2012 hafi verið með nokkrum ólíkindum.  Það þó hitafarið hafi verið nánast í meðallagi !  Mánuðinum tókst að ná meðalhitanum þrátt fyrir óvenju kalda tíð framan af eða fram undir þann 20.  Þökk sé síðustu 7 til 10 dögunum þegar hlýnaði mjög.

Í yfirliti Veðurstofunnar má sjá að úrkoma var lítil sunnanlands og vestan en nærri meðallagi fyrir austan, en þá verður að hafa í huga að maí er að jafnaði með þurrustu mánuðum.   Sérlega sólríkt var þó svo að engin met hafi verið sett að þessu sinni.  Aftur munaði miklu um síðustu dagana sem segja má að hafi verið samfelldur sólskinskafli og stendur enn þegar þetta er ritað 2. júní.

Það sem stendur upp úr hvað varðar þennan mánuð að mínu mati er þetta:

  • Glögg vorkoma og jafnvel hægt að tala um sumarkomu á landinu upp úr 20. maí.  
  • Hretið um og upp úr Krossmessu snemma í mánuðinum var svæsið og ekki síst kuldinn á landinu í kjölfarið.
  • Mikil dægursveifla hitans og þrálát næturfrost til landsins.  Mér reiknast þannig til að frostnætur á Þingvöllum hafi orðið 17 talsins í mánuðinum (mest -10,1°C)
  • Heiðríkjukaflinn síðustu 5 til 6 daga mánaðarins er óvenjulegur í mörgu tilliti.

Svo er bara að sjá hverju framvindur.  Margir eru farnir þegar að þrá rigningu.  Helst þessi hái loftþrýstingur áfram og verður sólríkt.  Mun kólna o.s.fr ?

Jón Sigurðsson tók myndina á gæsinni í grennd við Blönduós í ofanhríðinnin 13. maí (Morgunblaðið)

 


sérðu ekki vor..

Á þessum heiðu og sólríku dögum rakst ég á snoturt ljóð á lendum vefjarins

 

Sonnetta, Sérðu ekki


Sérðu ekki, sérðu ekki vor, blítt,
sem leitar nú aftur í gluggann minn.
Vertu ei hnugginn þegar úti' er hlýtt
heiðríkur dagur og blár himininn.

 

Höfundurinn heitir Peter S. Quinn og í fyrstu hélt ég að um ljóðaþýðingu væri að ræða.  En þegar betur var að gáð er kvæðið ort á íslensku. Peter hefur fjölþjóðlegan bakgrunn, en segist hafa flust til Íslands frá Flórída 3ja ára gamall.  Hann birtir ljóð sín á netinu og yrkir að því er virðist mest á ensku. 


Heiðríkja á landinu dag eftir dag

Ekki hægt að segja annað en að það sé óvenjulegt að þessi heiðríkja sé viðvarandi svona dag eftir dag á landinu.  Á forsíðu Morgundblaðsins var í morgun falleg MODIS-mynd af landinu í gær þar sem var nánast ekki skýjahnoðra að sjá.  Í nótt og í morgun kom reyndar úr norðvestri dálítið lægðardrag með svalara lofti og þá þykknaði um stund í lofti norðaustan- og austanlands.  Gott ef ekki náði líka að dropa aðeins hér og þar (snjókorn til fjalla).  En fyrra ástandi verður fljótt náð aftur.

En hvað veldur ?

rtavn601.pngÁstæðan fyrir þessu almenna skýjaleysi liggur í þeirri staðreynd að víðáttumikið háþrýstisvæði er hægfara yfir landinu og hér vesturundan, allt til Grænlands.  Hæðin er þeirrar ættar að vera svokölluð fyrirstöðuhæð, þ.e. orsök hennar er stífla í vestanvindabelti háloftanna.  Nú er hár þrýstingur ekki svo óalgengur á þessum árstíma, en þá er oftast um kaldar Grænlandshæðir að ræða þar sem heimskautaloft er ríkjandi.  Hins vegar háttar svo til að rót þessa háþrýstisvæðis er í suðri og hlýtt loft í miðlægum og efri lögum hefur borist hingað norður á bóginn.  Þetta sést ágætlega á spákorti Bandarísku veðurstofunnar (GFS) sem gildir á laugardag kl. 12.  Þarna er yfirborðsþrýstingur sýndur saman með hæðinni á 500 hPa fletinum.  Sú hæð er góð vísbending um hita og fyrirferð loftsins í neðri lögum.  Gult og rautt er mikil fyrirferð (hlýtt loft) og grænt lítil (kalt) .  

Allt í kringum hæðina miklu eru lægðir eða lægðardrög á sveimi þar sem uppstreymi og skýjamyndun með tilheyrandi úrkoma er ríkjandi ástand.  En í hæðinni sjálfri ríkir hins vegar niðurstreymi lofts og séu einhver ský til staðar leysast þau upp.  Þetta niðurstreymi er mest áberandi í efri hluta veðrahvolfs eða ofan við um það bil 5 km hæð og upp í um 10 km hæð.  Þarna er loftið sérlega þurrt og tært þessa dagana.   Í neðri lögum ríkir hins vegar stöðugleiki, einkum yfir hafinu og einu skýin sem myndast eru þokubelti þegar loft kemst í  snertingu við kaldan sjóinn.  Þegar sólin skín hins vegar á Ísland og vermir yfirborðið á sér stað uppstreymi.  Rakinn er hins vegar alls ekki nægur til að mynda ský, auk þess sem uppstreymið yfir landi má sín lítils þegar ríkjandi er kerfislægt niðurstreymi hið efra.

Við strendurnar nær þoka sums staðar inn, en algengara er þó að þokuskýin lyftist aðeins yfir landi og mynda þannig þunnt lágskýjalag yfir lágnættið. Það leysist síðan fljótt upp þegar sólin tekur að skína að nýju. 

Þetta ástand með hæðina og heiðríkjuna kemur til með að verða viðvarandi skv. spám fram á sunnudag.  Eftir það má vænta breytinga, þá gefur hæðin sig eða þá að hún hörfar heldur til vesturs og við tekur N- og NA-átt með kólnandi veðri.  Meira þá af skýjum, einkum um austanvert landið og þar úrkoma.  


Maíhitamet á Grænlandi

ecm0125_millikort_t850_gh1000-500_2012053000_000.jpg

Það hlaut að koma að því að einhversstaðar myndi það ná niður það hlýja loft sem búið er að vera í háloftunum að undanförnu við Suður-Grænaland  og alveg á okkar slóðir. Hitinn komst í 24,8°C í Narsarsuaq í gær.  Slíkur hiti næst þegar þeta hlýja loft efra er þvingað niður í skjóli hárra fjalla allt niður að sjávarmáli.

Annan dag hvíatasunnu var hér um vestanvert landið sami hiti við sjávarmál og uppi í 3ja km hæð, þ.e. rétt um +10°C.  Hefði loftið sem var þarna uppi náð niður væri ekki ólíklegt að 25°C hefðu mælst.  En til þess vantaði aðstæðurnar, há fjöll til að skapa kröftugt niðurstreymi og hlýnun sem nemur 0,6-1,0°C á hverja 100 metra í lækkun. Trausti gerði þessu ágæt skil á dögunum og gat þess þá að ástandið væri afar óvenjulegt hlýindin á milli 850 og 700 hPa flatanna með nokkrum ólíkindum. Einnig er nýrri umfjöllun hans hér.

En fréttastofa RÚV þarf einhverra hluta vegna að tengja þennan atburð við bráðnun jökulíss sem hefur ekkert með málið á gera.  Væri svona svipað og að segja frétt af hitameti á Kvískerjum 30 mars sl. og geta þess í leiðinni að Vatnajökull hefði á síðustu 10-15 árum verið að þynnast og minnka.  Útgildisatburðir í nokkra daga hafa ekkert að segja fyrir jöklabúskapinn, ekki frekar en nokkurra daga svæsið kuldakast að vetrarlagi.  Sumarhitinn í heild sinni í samanburði við vetrarákomu, geislunarbúskapur og aðrir sveiflur á ára- og áratugakvarða eru ráðandi í afkomu jökulhvelanna.

Kortið sem fylgir er greining frá ECMWF frá því kl. 00 (30. maí).  Skyggðu fletirnir sýna hita í 850 hPa fletinum (í um 1.400 m hæð), en línurnar svokallaða þykkt, en þún er góð vísbendingin um loftmassahitann upp í um 5,5 km hæð.  Kjarni heitaloftmassans kemur vel fram á milli Íslands og Grænlands.

Loftstraumarnir eru afbrigðilegir þessa dagana, hlý fyrirstöðuhæð er við S-Grænland og á sama tíma og þar er sérlega hlýtt um að lítast dembist kalt íshafsloft suður um alla Skandinavíu og N-Evrópu næstu daga.  

En þó svo að þar verði mun kaldara en í meðalári og fregnir verði mögulega af snjókomu í Skotlandi í byrjun júní og eins suður eftir öllum Noregi þarf það ekki boða vöxt jökla á þeim slóðum og þaðan af síður að næsta ísöld sé handan við hornið !

 


Öskufok á Mýrdalsjökli

MODIS 28.maí kl. 12:35.pngÉg veitti því athygli á mjög skýrri tunglmynd frá í gær (28. maí) kl. 12:35 að yfir Mýrdalsjökli austan- og norðanverðum er gráleit slikja á meðan Vatnajökul er mjallahvítur ef skriðjökulsjaðrarnir eru undanskyldir.

Þetta er ekki gosaska á jöklinum, hún er komin á kaf undir nýsnævi.  Í fréttum á dögunum var greint frá leiðangri þar sem borað var einhverja 20 metra niður í snjóinn þar til komið var niður á lag af eldfjallaösku sem féll á jökulinn.

Gráminn stafar af öskufoki úr austri. Dagana 20. til 22. maí eða þar um bil var strekkingur af austri og greint frá miklu öskumistri á Síðu og í Skaftártungu.  Um Grímsvatnaösku er að ræða.  Hún settist þessa daga í nýjan snjóinn í Mýrdalsjökli og í það miklum mæli að fokefnin náðu að lita jökulinn. 

Sé skoðuð mynd frá því fyrr eða frá 14. maí má greina að jökullinn virðist vera mun hreinni og laus við ösku í yfirborði.  Í það minnsta í það litlum mæli að ekki kemur fram á þessum MODIS-myndum sem báðar eru í 500 metra upplausn.  Í millitíðinni og til 28. maí hefur greinilega tekið upp mikinn snjó í hlíðum Eyjafjallajökuls og eins við suðurjaðar Mýrdalsjökuls. MODIS 14. maí 2012.png

Sjálfur hafði ég útsýni til Mýrdalsjökuls úr vestri, þ.e. úr Þórsmörk og Fljótshlíð að greinilegur "öskuskítur" var í snjónum og þá helst ofantil.  Vestanverður jökulinn (Krossárjökull) hafði síður orðið fyrir barðinu á fjúkinu heldur en austantil þegar stuðst er við blæbriðgamun lita á ljósmyndinni.

Á meðan öskugorinn í jöklinum er þunnur og glittir í ís á milli flýtir hann mjög fyrir bráðnun jökulíssins þegar sólin nær að skína. Það er að segja sama sumarið.  Veturinn á eftir kaffærist allt í nýjum snjó.  Ef öskufjúkið af Síðuafrétt og úr Fljótshverfi verður viðvarandi næstu sumur mun það koma fram sem greinileg lagskipting í ísalögum Mýrdalsjökli og varðveitast þannig í áratugi eða þar til þau skríða niður til á leysingasvæða jökulsins og renna þar saman.

 

 

 


Rétt að fara varlega í sólinni

Síðdegis í dag annan í hvítasunnu sá ég í sundlauginni á Hellu að ansi margir voru orðnir með bleikar bringur og hálsa eftir sólina í dag og í gær.

Rétt er að fara varlega um þessar mundir því loftið er bæði tært og nánast heiðríkja víðast á landinu.

screen_shot_2012-05-28_at_8_09_19_pm.pngÍ þessu sambandi er skilgreindur svokallaður UV-stuðull.  Hann er mælikvarði á magn útfjólublárra geisla frá sólinni, en það eru þeir sem fær húð til að roðna.   Bárður Sigurgeirsson húðlæknir rekur veðurathugunarstöð í Skorradal.  Hún er úbúinn fjölþátta geislunarnema sem mælir m.a. styrk á útfjólubláu ljósi, en þeir geislar eru talsvert orkuríkari en hið sýnilega ljós sólarinnar.   Óson í heiðhvolfinu verndar okkur fyrir orkuríkustu geislunum og þegar "ósonlagið" er þunnt nær því meira af þessari geislun til jarðar.  Sjá mátti á veðurkortum í dag að ósonið er á eðlilegu róli fyrir ársímann á okkar slóðum og ekki þarf að hafa sérstakar áhyggjur af því. Oftast er það hins vegar nokkru minna síðla vetrar og snemma árs. 

Eins og gefur að skilja fer UV-stuðullin vaxandi með hækkandi sól og því alla jafna talsvert hærri á suðlægari slóðum en hann er hér.  Stendur í réttu hlutfalli við inngeislun sólar á hverja flatareiningu yfirborðs. 

Í dag var mældist UV-stuðullinn 5,4 þegar hann var hæstur skömmu fyrir sólarhádegi í Skorradalnum. Inngeislun sólar (brúttó)  í Reykjavík var um svipað leyti 730-740 wött á fermetra.  

Hvoru tveggja eru þetta háar tölur, en alls ekkert einsdæmi.  Eigum við ekki að segja að geislun sólar sé nálægt því að vera eins mikil og hún getur orðið síðla vors nokkru fyrir sumarsólstöður.   UV stuðullin náði þannig rúmlega 7  þann 18. júní 2010.

Á næstunni er allt útlit fyrir sterkt sólskin flesta daga og frá morgni til kvölds. Spáin gerir ráð fyrir því að lítið verði um ský hér við land frá á laugardag eða sunnudag.  Ef það gengur eftir erum við nú í upphafi 8 til 9 daga samfellds bjartviðriskafla (2 dagar búnir).  Það sem meira er að þetta á við um mest allt landið, ef norðausturhlutinn er undanskilinn þegar líða tekur á vikuna.

Húðlæknarnir Bárður Sigurgeirsson og Jón Hjaltalín Ólafsson ráðleggja fólki með venjulega húð að vera ekki lengur í sólinni án sólvarnar en að hámarki í 60 mínútur þegar UV-stuðullinn nær gildinu 5 og fólki með viðkvæma húð ekki lengur en í 25 mínútur.

Heimasíða Bárðar með mælingum og ágætum fróðleik um þessi mál er hér.  Þar er reyndar talað um ÚF-stuðul

 

 


Hálft veðurkort

8qllzwcj2zhphcox8bh7oalv38j3b-u8xl-5wprriubw.jpgÍ Noregi eru opinberir starfsmenn í verkfalli þessa dagana.  Allt að 600 þús hafa lagt niður vinnu er sagt.  Í NRK, norska ríkissjóvarpinu birtist veðurfræðingur, Bente Marie Wahl,í gærkvöldi með hálft veðurkort eins og greint er frá á yr.no.  Skýringin var vitanlega verkfallið og því voru engar spár fyrir Vestur-Noreg og Þrændalög.    Svo virðist hins vegar að veðurfræðingar í Osló hafi verið við vinnu og skýringuna veit ég ekki.

Veðurspáin er samt kostuleg eins og meðfylgjandi skjámynd sýnir.  Væri álíka eins og Einar Magnús eða Kristín mættu í sjónvarpið með fýlusvip og segðust aðeins spá fyrir Vestfirði og Norðurland eða eitthvað álíka.... 


Spáð er sjaldgæfum hlýindum austanlands á laugardag

screen_shot_2012-05-23_at_9_30_15_pm.png

Sé rýnt í spákort má sjá að gert er ráð fyrir sélega hlýju lofti yfir og við Austurland á laugardag.  Á sunnudag kólnar hins vegar aftur um tíma a.m.k. samkvæmt sömu spá.

Til þess að hitinn nái hæstu hæðum á Austurlandi þurfa þrír þættir að fara saman.  Í fyrsta lagi þarf loftmassahitinn að vera hár.  Allar líkur eru á því.  Í öðru lagi þarf að vara nokkuð hvasst af suðvestri vestanlands til að loftið  keyrist yfir fjöllin og blandist hlémegin þeirra. Þessi þáttur er meiri vafa undirorpinn sem og sá þriðji sem kveður á um sterkt sólskin og lítið af skýjum.

Það er nokkuð sérkennilegt til þess að hugsa að eftir þennan annars kalda maí skuli raunverulega vera möguleiki á hitametum. Það er svo sem í takt við annað í annars mjög svo sveiflukenndri veðráttunni sem verið hefur síðustu misserin. 

Hæsti hiti í maí hefur mælst 25,6°C.  Það var 26. maí 1992 á Vopnafirði.  25,0°C komu á mæli á Egilsstöðum 1991.  Þetta eru einu tilvikin í maí þar sem 25 stiga múrinn hefur verið rofinn.  Þessa daga var veðrið ekki ósvipað því sem vænta má á laugardag.  Hæð fyrir suðaustan og austan landið og og kröftug streymi af hlýju lofti norðaustur yfir landið og þar sem hnjúkaþeyr kemur við sögu. 

Kalmansíuð spá Veðurstofunnar ( til hliðar) gerir ráð fyrir 22°C á hádegi á Héraði.  Miðað við allt og allt tel ég vera talsverðar líkur á því að hitinn náið 25 stigum einhvers staðar á hinum fjölmörgu hitamælum A- og NA-lands á laugardag.  Hitametið gæti líka verið í hættu, ef allir ofangreindir þættirnir fara saman.  Þó finnst mér eins og það vanti herslumuninn upp á loftmassahitann samanborið við við 1991 og 1992.

Tengill á umfjöllun Trausta Jónssonar um svipuð mál og hér ennig tengill á Sigurð Þór og greiningu hans á hitabylgjum í maí.  


Svifrykið, mistrið og uppruni þess

img_4589.jpgMistrið suðvestanlands í gær og á sunnudag er af tvennum toga.  Annars vegar laus og fín gosefni ættuð úr tveimur síðustu gosum á Suðurlandi 2010 og 2011, en í gær var einmitt ár frá upphafi Grímsvatnagossins.  Hluti smáagnanna í mistrinu er uppruninn af Suðurhálendinu þar sem snjó hefur tekið upp og eins af söndunum með ströndinni.  Fok af þessum svæðum er að verða að árvissum viðburði í maí og júní. Myndin var tekin á laugardag í Reykjavík af Sigurði Boga Sævarssyni.

Flóðið í byrjun gossins í Eyjafjallajökli skyldi eftir sig gríðarlegt magn jökulleirs á Markarfljótsaurum.  Það efni rýkur um leið og vind hreyfir í þurrkatíð.  Það er einmitt þurra loftið að undanförnu sem er höfuðvaldur.  Um leið og efsta lag jarðvegs þornar þarf aðeins smáblástur til að koma fínasta efninu af stað.  Hefði legið í vætutíð síðustu dagana hefði mistrið heldur aldrei orðið.  Það er hins vegar vel þekkt að á vorin eftir að snjó og ís leysir fýkur fínefnið, en það grófara ekki fyrr en vindur er orðinn hvass.  

Í raun má segja að náttúrufar á Íslandi sé okkur ekki hliðholt þegar kemur að sandfoki og mistri í lofti af þess völdum.  Bæði er það að eldfjallajarðvegur, jafnt nýlegur sem gamall getur verið mjög fínn og fokgjarn.  Síðan er að hitt að þar sem jökulfljót flæmast um verða til sandsvæði með fínum leir sem fjúka af stað við minnsta vind. Þannig heyrði ég að á Rangárvöllum hefði staðið mökkurinn í allhvössum NA-vindi sl. laugardag ofan frá Heklu og Landsveitinni. Gamalt gosefni þar á ferð.  

Þetta er náttúra Íslands, en ekki mengun af manna völdum. Því er ekki rétt að tala um svifryksmengun eins og lesa mátti víða um í fjölmðlum.  Umhverfissvið Reykjavíkurborgar segir réttilega að í gær hafi styrkur svifryks farið í annað sinn yfir heilsuverndarmörk í ár.  Hitt skiptið var 4. janúar.  Þá er líklegt að mengun eða afleiðingar athafna mannsins hafi á ríkari þátt en nú (borgarmengun). 

Í dag þriðjudag hefur náð að blotna sem er gott og spáð er vætu sunnanlands fram á fimmtudag.  Ekki þarf þó nema sterkt sólskin í 1 eða 2 daga til að þurrka yfirborðið og þá getur allt farið af stað að nýju.  Slíkt þekkja vel íbúar austur á Síðu og í Fljótshverfi þar sem mökkurinn hefur verið hvað mestur og dimmastur síðustu daga. 

________________________________________________

ps. Bloggleti mín að undanförnu er óafsakanleg. Stafar ekki af leti heldur önnum og lofa ég bót og betrun í þeim efnum. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.5.): 4
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 67
  • Frá upphafi: 1786865

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 52
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband