Hop Reykjarfjarðarjökuls

Dragnajökull úr Reykjarfirði sumarið 2008 /BibbaÁ dögunum kom ég ásamt ferðalöngum í Reykjarfjörð á Ströndum.  Upp af fjarðarbotninum rís Drangajökull og hin áberandi kennileiti, jökulskerin Hrolleifsborg og Hljóðabunga blasa við úr Reykjarfirði.  Stærsti skriðjökull Drangajökuls er Reykjafjarðarjökull og gerði ég mér ferð upp að sporði hans.  Reykjarfjarðarjökull er framhlaupsjökull og hljóp hann síðast fram 2002-2006. Það framhlaup komst ekki í hálfkvisti við það næsta á undan eða  1934-1939, en  þá nam framhlaupið þá tæpum kílómetra.

Á göngu inn eftir firðinum á sléttum og grónum móa kemur maður að fagurlöguðum jökulgarði um 2,5 km frá sjó.  Hann mun vera í um 20 metra hæð yfir sjávarmáli.  Ég upplýsti samferðafólk mitt að garður þessi væri til vitnis um fremstu legu skriðjökulsins og fullyrti að það hefði verið um eða rétt fyrir aldamótin 1900.  Um leið horfði ég inn eftir dalnum og þann óraveg sem virtist upp að jökulsporðinum og sá að svo hratt hefði jökullinn varla rýrnað á 20. öldinni.

Dragnajökull /Veðurstofa Íslands - Oddur SigurðssonBerum niður í lýsingu Þorvaldar Thoroddsen sem þarna var á ferðinni sumarið 1886.

Skriðjökullinn fellur allbrattur niður í efsta botn dalsins, en er dálítið flatvaxnari að neðan, en mjókkar þó út.  Fyrir ofan efsta gras í dalnum liggur boginn jökulgarður (moræne) yfir dalinn þveran, hér um bil 1.500 metra frá jökulsporðinum….. Eftir því sem gömul kona sagði mér, sem fyrrum átti heima á Kirkjubóli, þá gekk jökullinn fram fyrir 40 árum síðan og ók á undan sér jökulgarðinum…. Litlu seinna fór jökultanginn að minnka, en fór hægt í fyrstu og 8-9 árum seinna var ekki meira bil en 15-20 m milli jökulrandarinnar og grjótgarðsins. Skriðjökullinn hefir fyrrum verið miklu þykkari.  Við jökulendann, sem nú er (1886), hefir þykktin verið 60-90 m.  Þetta sést á jöklagrjóti og núnum björgum, sem orðið hafa eftir í miðjum hlíðunum á báða vegu. “ (Úr Ferðabók Þorvaldar Thoroddsen, II, bls. 82-83).

Eldra kort Landmælinga Íslands.  Merkt við jaðarinn 2010 og jökulgarðinn frá 1845Í framhlaupi um 1845 hefur Reykjarfjarðarjökull sem sagt náð sinni neðstu stöðu og köldu áratugina frá 1860 og til 1890 þegar flestir jöklar voru enn að ganga fram, hopaði Reykjarfjarðarjökull stórum.  Þó tíðin hafi verið köld rýrnaði engu að síður jökulsporðurinn eftir þetta kröftuga framhlaup og verðum við að hafa í huga að sporðurinn var því sem næst niður við sjávarmál.

Þorvaldur getur þess einnig á hitasumarið 1880 (sem var raunverulegt hitasumar, jafnvel á síðari tíma mælikvarða) hafi hryggur frá Hrolleifsborg til vesturs staðið í fyrsta nærri allur upp úr jöklinum.  Á ljósmyndinni að ofan  má sjá þennan sama hrygg út frá Hrollefsborg, en Reyðarbungu til hægri við Hrolleifsborg  getur Þorvaldur ekki. Í lýsingu Gísla Hjartarsonar á Drangajökli í ársriti Útivistar 2001 segir hann að til Reyðarbungu hafi ekki sést fyrr en um og eftir 1920. Hún sé nú um 100 metra yfir jökulhvelinu. Nánar um myndina: Hún er tekin sumarið 2008 úti á Reykjarfirði og fengin af myndavef Bibbu. Hljóðabunga, þriðja jökulskerið er síðan rétt hægra megin við jaðar myndar Bibbu. 

Í umfjöllun Helga Björnssonar um Drangajökul í riti sínu Jöklar á Íslandi getur hann þess að..

Drangajökull hafi rýrnað 50km2 á hálfri öld og sé nú um 140km2.  Hann sé að meðaltali 100 m þykkur og mest er ísþykktin um 180 m.  Ljóst er að Drangajökull í heild sinni hefur látið mjög á sjá og á tæpri öld misst 100 metra ofan af sér a.m.k. ef miðað er við Reyðarbungu.

Jökuláin Reykjarfjarðarós kemur nú undan jökli í ríflega 200 metra hæð yfir sjávarmáli.  Eftir áðurnefnd og tiltölulega lítið framhlaup jökulsins árunum 2002-2006 hefur sporðurinn styst, en í mælingu í fyrrahaust ekki nema lítillega.  Á kortinu sem hér fylgir (© Landmælingar Íslands), hef ég dregið línu með rauðu þar sem núverandi jökuljaðar er (svona nokkurn veginn).  Til samanburðar er Reykjarfjarðarjökull eins og hann var mældur og sýndur á gömlu dönsku herforingjaráðskortunum 1913-1914.   Blár hringur er dreginn um neðsta jökulgarðinn frá því um miðja 19. öld þegar Reykjafjarðarjökull var stærstur.  Hop hans síðan þá er ekki minna en 3 km.

Jón Eyþórsson veðurfræðingur kom fyrir stöng við jaðar jökulsins skömmu eftir 1930.  Hún er þarna enn.  Mér tókst ekki að finna hana, en hafði heldur ekki haldgóðar upplýsingar um það hvar hana var að finna. Hins vegar stend ég þarna á myndinni að neðan við aðra stöng ekki langt neðan við jökuljaðarinn í dag og er hún merkt Jöklarannsóknarfélaginu með númerið 200.  Þröstur Jóhannesson, einn eiganda Reykjarfjarðarjarðarinnar hefur annast fjarlægðarmælingar jökulsporðsins hin síðari ár.  

Drangajökull hefur verið heldur minna rannsakaður en flestir hinna stóru jöklanna.  T.d. er ég ekki viss um að rennsli nokkurra jökuláa hans hafi verið mælt, en slíkt er einn helsti grunnur að afkomumælingum jökla. Ákoma jökulsins var greinilega lítil liðinn vetur og sjá mátti þegar ég var þarna á ferð 20. júní að víða var vetrarsnjórinn horfinn og sást í vetrarísinn líkt og væri langt liðið á sumar.  Ef sumarið verður áfram milt og ekki haustar snemma gæti Drangajökull farið heldur illa þetta árið í afkomu sinni og rýrnun hans heldur því ákveðið áfram.   Rétt er að geta þess að frá því árið 2005 hefur afkoma Drangajökuls verið metin og mæld í sérstöku verkefni eins og sjá má hér og fer Oddur Sigurðsson jöklafræðingur á Veðurstofunni fyrir því. Útfærða loftmyndin að ofan er fengin úr því verkefni.

Myndin að neðan t.v. sér niður eftir dalnum og aura Reykjarfjarðaróss.  Þarna lá skriðjökullinn langt niður eftir vel fram á 20. öldina. 

Reykjarfjarðarjökull 20. júní 2010.jpgSéð til Reykjafjarðar 20. júní 2010/ESv


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það brennur enn á mér Hvar eru sunnan og suðvestan áttirnar sem þú spáðir í lok maí,ég hef ekki orðið varvið þær.Síðan að maður las þetta á blogginu þínu,hefur vindáttin ekki komist suður fyrir austur.Því spyr ég er engin skýring á því frá þér ????????

Sveinbjörn Orri. (IP-tala skráð) 4.7.2010 kl. 21:51

2 Smámynd: Einar Sveinbjörnsson

Sveinbjörn Orri !

Dagana 9. til 21. júní  var ríkjandi vindátt á milli SA og V.  Lengst af SV-átt.  Jafnframt var loftið yfir landinu hlýtt og hiti marga þessa daga slagaði upp í og yfir 20°C norðaustan- og austanlands.  Síðan þá hefur veðráttan einkennst af NA og A-átt.  Spáin til þriggja mánaðanna, júní, júlí og ágúst tekur til tímabilsins í heild og innan þess rúmast mikill breytileiki.  Tímabilið er ekki hálfnað og of snemmt að ætlað sér að segja nokkuð um sumarveðráttuna í heild sinni. 

ESv

Einar Sveinbjörnsson, 5.7.2010 kl. 08:47

3 identicon

Takk fyrir þetta Einar.Við getum þá átt von á Sunnan og suðvestan áttum þegar að kemur meira fram á sumar.

Sveinbjörn Orri (IP-tala skráð) 5.7.2010 kl. 09:15

4 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Það verður í það minnsta skítaveður það sem eftir er sumars!

Sigurður Þór Guðjónsson, 5.7.2010 kl. 12:18

5 Smámynd: Höskuldur Búi Jónsson

Mér skildist á frétt síðasta sumar að Drangajökull væri óvenjulegur að því leiti að hann hefði þykknað síðustu ár, á sama tíma og aðrir jöklar væru að minnka (frá 2005-2008 ef ég man rétt). Ætli það hafi þá ekki verið tímabundin þykknun vegna meiri úrkomu á þeim tíma - eða hvað veldur?

Höskuldur Búi Jónsson, 6.7.2010 kl. 16:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 2
  • Sl. sólarhring: 15
  • Sl. viku: 50
  • Frá upphafi: 1788783

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 48
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband