27.6.2011
Rennsli jökuláa ekki svipur hjá sjón
Rennsli nokkurra jökuláa má fylgjast með á sérstakri undirsíðu á vef Veðurstofu Íslands. Jökulsá á Fjöllum er dæmigert fljót sem á upptök sín í norðanverðum Vatnajökli (einkum Dyngjujökli). Lágrennsli hennar að vetrarlagi er um 90 rúmmetrar á sekúndu miðað við vatnshæðarmæli við Grímsstaði á Fjöllum, en í fyrrasumar fór rennslið þegar jöklabráðnun var í hámarki yfir 800 rúmmetra á sekúndu. Þá segja kunnugir að magnþrungið sé að standa við Dettifoss !
Rennslið eykst hægt og bítandi frá því snemmsumars og nær það oftast hámarki um eða rétt fyrir miðjan ágúst er það tekur að minnka aftur. Línuritið til vinstri er fengið frá Snorra Zóphóníassyni og sýnir samanburð 5 vatnsára frá 2005 til 2010 (sjá nánar hér).
Fróðlegt er að bera saman rennslið nú og á sama tíma í fyrra. Jökulsá á Fjöllum sem vel að merkja er án nokkurra vatnsmiðlana var í gær í um 200 rúmmetrum þegar mest varð. Sumarið 2010 var Jökulsá búin að ná því rennsli rétt upp úr mánðarmótum maí/júní. Meðalrennslið síðustu 30 daga er 145,5 rúmmetra á sek. en sömu dagar í fyrra voru með 326,4 rúmmetra að meðaltali. Þetta er gríðarmikill munur.
Ef við tökum okkur til og reiknum allt þetta vatn til rúmmáls sést að það munar um 0,46 rúmkílómetrum vatns á rennslinu síðustu 30 dagana. Til samanburðar skila stór Skaftárhlaup um þriðjungi rúmkílómetra vatns, eða talsvert minna, en sem nemur þessum mismun í rennsli Jökulsár á Fjöllum nú !
Bráðnun jökulíss hefur því farið hægar af stað sem þessu nemur. Þó ber að hafa í huga að Jökulsá á Fjöllum er ekki hrein jökulá, í henni er nokkurt lindarvatn. Það er hins vegar mun stöðugra í rennsli og má í þessum reikniæfingum að mestu horfa fram hjá því. Eins gæti leysingarvatn á vatnasviði Jökulsár spilað þarna inn í, þ.e. á jökulvana svæðum. En þessi hefðbundna vorleysing er þó ótrúlegt megi veriðast varla farin af stað til fjalla.
Geislun sólar ræður miklu um hraða bráðnunar jökulíss, það er ekki aðeins lofthitinn sem þar er að verki. Sólin hefur vissulega verið hátt á lofti og að auki mikil aska yfir nær öllum Vatnajökli að loknu Grímsvatnagosinu. Þunnt öskuleg eykur einmitt á bráðnununa, en þykkara virkar sem einangrari. Þess háttar vangaveltur skipta samt litlu máli nú, því öskulögin eru víðast komin á kaf í nýjan snjó. Nýsnævið endurkastar sólarljósinu sem annars gæti gefið varma til bráðnunar.
Allt útlit er fyrir að enn um sinn muni snjóa á norðanverðan Vatnajökul í enn einu kaldakastinu þetta sumarið og vara fram yfir miðja vikuna.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 1
- Sl. sólarhring: 14
- Sl. viku: 49
- Frá upphafi: 1788782
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 47
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Hluti af afrennsli Hofsjökuls rennur til sjávar hér í Skagafirði í Héraðsvötnum, sem svo eru kölluð. Í þau hafa ekki komið neinar "vorleysingar" enn sem komið er, enda er enn verulegur snjór í byggðafjöllum. Ég sem þessar línur skrifa er stóran hluta ársins svo til á bökkum vatnsfallsins og hef ýmsar viðmiðanir um rennsli þar. Vatnsmagnið hefur ekki verið svipur hjá sjón enn sem komið er allavega og maður sér á vatninu að leysing er lítt hafin í jöklinum.
Þorkell Guðbrands (IP-tala skráð) 27.6.2011 kl. 12:58
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.