Síðdegisskúrir í dalbotnum

img_1834.jpgAlltaf er maður á ferðum sínum um landið að skoða veðrið út frá margvíslegum sjónarhornum.  Að sumarlagi er oft gaman að líta í kringum sig og sjá hvar bólstrar vaxa í hitauppstreymi og síðan í kjölfarið að verða vitni að skúradembu. En helst vill maður að sjálfsögðu ekki hafna í henni miðri.

Á Suðurlandi eru það hraunin suður og austur af Heklu sem alræmd fyrir skúraleiðingar á sólríkum sumardögum.  Þar drekkur dökkt yfirborðið í sig geislar sólarinnar og uppstreymið sogar til sín loft úr öllum áttum, en aðallega þó neðan frá lágsveitunum.

Í dag varð ég vitni að annars konar gerð síðdegsskúra, eða þeirri tegundinni sem gerir gjarnan innst í dölum á meðan útdalurinn helst þurr og sólin skín jafnvel á sama tíma. Myndin sem hér fylgir er út Arnarfirðinum og tekin í dag, 18. júlí.  Horft er yfir fjörðinn af vegslóða sem stundum er kallaður Kjaransbraut utan við Hrafnseyri.  Sjá má myndarlegt bólstraský yfir fjöllunum sem skilja að Arnarfjörð og Tálknafjörð. Ég held að dalurinn til hægri sé Fífudalur, en þeir eru víst nokkrir dalirnir frá Bíldudal og út í Selárdal.  Sólin náði í dag að verma brattar brekkurnar strax í morgun, einkum þó Tálkafjarðarmegin mót suðri.  Fljótlega hófst hlíðaruppstreymi og að sama tíma hitnaði grjótið í fjöllunum, nú þegar snjó hefur að mestu leyti tekið upp á þessum slóðum. 

Yfir fjalllendinu og brúnunum sem skilja að dalina sínhvoru megin myndaðist því röð bólstraskýja og frá þeim féll úrkoma, en einkum innantil í dölunum og að sjáfsögðu hærra uppi.  Svipað var að norðanverðu við Arnarfjörðinn, en kröftuga skúr gerði á veginn upp á Hrafnseyrarheiðina að meðan gestir Hrafnseyrarstofu spókuðu sig léttklættir á hlaðinu. 

MODIS 18.júlí 2011 kl. 12:55.pngÁ tunglmynd frá því laust fyrir kl. 13 í dag (MODIS-Terra) má í hæstu upplausn sjá ofan á bólstraskýin sem hér um ræðir á milli. Skýin renna vissulega saman sums staðar við þær snjófyrningar sem enn er að finna, en þær eru að mestu í bröttum hlíðum og sjást því ekki vel úr lofti. 

En vel að merkja að þá liðu tæplega 2 klst. frá tunglmyndinni og þar til ljósmyndin var tekin og margt breytist á styttri tíma en það þegar uppstreymisský eru annars vegar. 

Hægviðri var á þessum slóðum í dag, ekki vindur að ráði í lofti og hafrænan eða innlögnin allsráðandi inni á fjörðunum. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.5.): 7
  • Sl. sólarhring: 13
  • Sl. viku: 56
  • Frá upphafi: 1786805

Annað

  • Innlit í dag: 6
  • Innlit sl. viku: 53
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband