Áhrif eldfjallaösku á jökulbráð - tvær tunglmyndir

Í fyrradag (10. ágúst) var nær heiðríkt og mátti virða mest allt landið fyrir á myndum veðurtunglanna. Hér sýni ég tvær myndir þennan dag sem eru ólíkar af allri gerð. Sú fyrri er venjuleg MODIS ljósmynd tekin kl. 13:00.  Lítið er um ský, þó tjásuleg breiða yfir vestanveðum Vatnajökli og þar fyrir sunnan. Einnig mjótt band yfir Reykjanesfjöllum ofan Ölfuss. Greina má vel snjófirningar í fjöllum, s.s. á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austfjörðum. Jöklarnir skera sig vel úr og askan eftir síðustu eldgos er vel greinileg, ekki síst nærri Grímsvötnum þar sem jökullin er svartur að sjá.

MODIS_10ágúst2011_1300.png

 

Seinni myndin er hitamynd, þar sem heitt yfirborð landsins verður svart og kaldir skýjatoppar háskýja mjallahvítir.  Sú mynd er tekin um 2 klst síðar en sú fyrri eða kl. 15:15 og fengin af vef Veðurstofunnar. Greina má ský norðvestan við Mýrdalsjökul og sennilega leifar tjásulegu breiðunnar af fyrri myndinni, nú að mestu norðan Vatnajökuls. En það sem mesta athygli mína vakti er eftirfarandi.  Á hitamyndum sýnast jöklar hvítir (sem þeir eru í raun) vegna þess að yfirborð þeirra hitnar ekki þegar geislar sólar skína á þá.  Mikið endurkastast og sá smá hlutur sem verður eftir fer í að bræða jökulís. Þunn öskudreif eykur gleypni og bráðnunin vex því stórum. Hins vegar einangrar  samfellt öskulag og ég hef heyrt talað um 0,8 sm sem þröskuld í þeim efnum. Norðvestur og vestur af Grímsvötnum eru greinilega heilu skaflarnir af gjósku ofan á jökulísnum.  Ljósmyndin sýnir í það minnsta nokkuð samfellt svart yfirborð jökulsins á stórum svæðum hans. Gjóskan er svo mikil að geislunarbúskapurinn er líkt og á jökulvana landi. Dökki bletturinn á hitamyndinni við Grímsvötn leiðir þetta í ljós, gjóskan hitnar í sólinni og nær að hita loftið næst sér, nokkuð sem alla jafna er óhugsandi á jöklum.

 

 

110810_1515.jpg/Veðurstofa Íslands

Fróðlegt verður að sjá skýrslur jöklafræðinga um afkomu Vatnajökuls eftir sumarið þar sem askan eykur sums staðar mjög á bráðnun, en einangrar annars staðar og tekur að mestu fyrir sumarbráðnunina á þeim svæðum þar sem gjóskan liggur í þykkum sköflum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Einar Sveinbjörnsson
Einar Sveinbjörnsson
Veðurfræðingur og veðurdellukall. Á þessari síðu verður aðeins fjallað um veður frá ýmsum sjónarhornum.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 11
  • Sl. viku: 50
  • Frá upphafi: 1786799

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 48
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband